PO
EN

Ræða Katrínar um stöðuna í Úkraínu

Deildu 

Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda fordæmi ég harðlega innrás Rússa í Úkraínu. Hér er um að ræða árásarstríð sem er skýrt brot á alþjóðalögum og á sér enga réttlætingu.

Þessi innrás, eins og öll önnur stríðsátök, er fyrst og fremst árás á venjulegt fólk – árás á þeirra daglega líf, framtíð og öryggi.

Hugur okkar er hjá þeim. Skyldur okkar eru gagnvart þeim.

Við krefjumst þess að Rússar stöðvi hernaðaraðgerðar sínar í Úkraínu sem þegar hafa kostað mannslíf og munu leiða til enn frekari stríðshörmunga, fólksflótta og mannréttindabrota.

Til að fylgja þessum kröfum eftir styðja íslensk stjórnvöld þær efnahagslegu þvingunaraðgerðir sem gripið hefur verið til gegn Rússlandi.

Þá mun Ísland styðja við Úkraínu með aukinni mannúðaraðstoð og má þar nefna að tekin hefur verið ákvörðun um að veita sem svarar einni milljón evra til mannúðaraðstoðar í Úkraínu.

Hernaðaraðgerðir Rússa vega ekki aðeins að öryggi venjulegs fólks í Úkraínu og sjálfstæði Úkraínu heldur einnig að öryggiskerfi Evrópu. Evrópa stendur frammi fyrir mestu hættu í öryggismálum í áratugi – og nú reynir á samstöðu ríkja heims um að koma á friði – fá Rússa til að hætta hernaði sínum og koma í veg fyrir að átökin breiðist út.

Eftir atburði nætunnar liggur það fyrir að það sem við óttuðumst mest er er að raungerast; stríð, mannfall og þjáning venjulegs fólks.

Ísland hefur tekið skýra afstöðu. Við höfnum þessum hernaði. Við krefjumst þess að hann verði stöðvaður og við erum hluti af hinni breiðu alþjóðlegu samstöðu sem þegar hefur myndast um stuðning við Úkraínu og frið í heiminum.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search