Search
Close this search box.

Ræða: Svandís Svavarsdóttir.

Deildu 

Góðir landsmenn

Nú þegar við hefjum síðasta vetur kjörtímabilsins er rétt að rifja upp hvað

samstaða á breiðum grundvelli um uppbyggingu á innviðum samfélagsins var

mikilvæg þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Það átti sannarlega

við um heilbrigðis- og menntamál en líka samgöngur, ferðaþjónustu og

náttúruvernd. Þarfirnar voru brýnar en samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eða

íhaldið ekki einfalt mál. Öðru gegndi um Framsókn sem hefur átt aðild að mörgum

vinstristjórnum og niðurstaðan er sú að í heilbrigðismálunum hafa orðið róttækar

breytingar og mikil uppbygging og þegar kovid-bylgjan skall hér yfir sýndi

heilbrigðiskerfið hvað í því bjó með sveigjanleika og hugkvæmni. Hluti

stjórnarandstöðunnar reynir að vísu ítrekað að tala heilbrigðiskerfið niður

en sem betur fer er sá málflutningur út í hött.

En nú er mikilvægast að vinna sigur á veirunni. Ég vil nota tækifærið til

að þakka starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar hvarvetna, heilbrigðisvísindafólki

og ekki síst embætti landlæknis fyrir frábær störf dag og nótt. Það er mikið

framundan enn.

Margvísleg mannréttindamál hafa komið fram í tíð þessarar ríkisstjórnar og

nú síðast mannréttindi intersex-barna í nýju frumvarpi, sem er mál gegn

afturhaldi og ömurlegum fordómum sem formaður Miðflokksins talar hér ítrekað

fyrir. Það er skýrt fyrir hvað sá flokkur stendur.

Ein lykilforsenda samstarfsins er sú að forsætisráðherra er formaður VG.

Það er nánast sama hvaða mál hefur komið upp, alltaf er kallað á Katrínu

Jakobsdóttur. Þá breytir engu hvort vandinn snýst um fólk á flótta eða stöðuna á

vinnumarkaði. Fyrst er spurt: Hvað gerir Katrín? Hvar er málstaður Vinstri

grænna? Önnur fullyrða að Katrín geri bara það sem Bjarni Benediktsson vill. Ég

ætla ekki að dvelja við þá djúpstæðu kvenfyrirlitningu sem í því birtist. Staðreyndin

er og allir sjá að þegar vandi kemur upp hefur Katrín forystu um lausnina á

sínum pólitísku forsendum. Hún hefur afl, úthald, vilja og pólitíska skerpu til

að leysa flóknustu mál í góðri samstöðu. Ekki bara stöku sinnum, heldur alla

daga, aftur og aftur, nú síðast þegar  Samtök

atvinnulífsins settu lífskjarasamninga í uppnám. Það er leitun að jafn öflugum

leiðtoga og Katrínu Jakobsdóttur.

Framundan er erfiður vetur. Atvinnuleysi, fátækt og tekjuhrun hjá þúsundum

fjölskyldna. Það er óþolandi að fjöldi fólks þurfi að bíða langtímum saman

eftir mat í biðröðum. Þessu verður að breyta, það á enginn að sofna svangur í okkar

ríka landi. Nú skiptir öllu að knýja fram víðtæka samstöðu um aðgerðir til að

styrkja stöðu atvinnulausra og fjölga tækifærum til atvinnu og menntunar. Þar

þurfum við að fara óvenjulegar leiðir, eins og að stytta vinnutíma til að dreifa

vinnu til fleira fólks og með því að kalla fleira fólk til starfa í þjónustu og

nýsköpun fyrir samfélagið. Það er augljóst að kosningar að ári liðnu munu

fjalla um þessi mál; lífskjör almennings í víðum skilningi.

Góðir landsmenn.

Samningar eiga að halda, segir forseti ASÍ. Forsætisráðherra og ríkisstjórn

hennar hafa séð til þess að lífskjarasamningarnir halda.

Næsta endurskoðun kjarasamninga verður í september að ári. Þá verða líka kosningar.

Þá verður kosið um lífskjörin í landinu–  það verða lífskjarakosningar.

Góðar stundir. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search