PO
EN

Ræða Svandísar 1. maí

Deildu 

Kæru félagar. Við hittumst í dag, á baráttudegi launafólks, á óvenjulegum ólgutímum – í skugga stríðs og ójöfnuðar. Þetta er dagur baráttu – en líka vonar. Dagur krafna – en líka samstöðu. Og hann kallar á okkur öll. Hann kallar á það að við stillum okkur saman, finnum okkar sameiginlega tón og skerpum á því – og munum um hvað erindið snýst.

Við lifum á tímum þar sem óréttlætið er ekki að minnka. Það er víða að aukast. Verðbólga og háir vextir bíta í öllum heimilisrekstri – í matarkörfunni, húsnæðismálunum, öðrum útgjöldum. Húsnæðismarkaðurinn er tættur – og sá sem á og braskar græðir. Og enn eru það sömu hóparnir sem bera hitann og þungann: ungt fólk og efnalítið fólk.

En samhengið er víðara en Ísland:
Í Evrópu er lýðræðið undir álagi – þar sem óttinn við þau sem eru „öðruvísi“ er orðinn að pólitískri stefnu, þar sem tónar vígvæðingar og tortryggni sækja á. Í Bandaríkjunum boðar forsetinn ógnarfrið með fórn – og vill að Úkraína gefist upp. Undir hótunum og yfirgangi. Í Palestínu er fólk drepið á meðan heimurinn lítur undan. Og í alþjóðlegum stofnunum eru það raddir fjármagnsins sem heyrast hæst – ekki röddin frá verksmiðjugólfinu, ekki röddin úr kennslustofunni, ekki röddin frá landamærunum, ekki röddin frá flóttamannabúðunum.

Við segjum:
· Friður án réttlætis er ekki friður – heldur kúgun.
· Framfarir án félagslegs réttlætis eru ekki framfarir – heldur ójöfnuður.
· Lýðræði án þátttöku er ekki lýðræði – heldur tóm orð.

Afstaða okkar í VG er skýr. Við stöndum með launafólki – ekki þeim sem arðræna það. Við stöndum með flóttafólki – ekki þeim sem ala á ótta og fjandskap. Við stöndum með konum og kvárum – ekki þeim sem standa fyrir bakslagi og afturför. Við stöndum með náttúrunni – ekki þeim sem selja hana eða vaða yfir hana fyrir skammtímagróða. Við stöndum með friði sem byggir á frelsi. Við stöndum með samstöðu sem byggir á virðingu.

Og við skömmumst okkar ekki fyrir að vera reið.

Við eigum að vera reið. Þegar sótt er að opinberum starfsmönnum og störf þeirra tortryggð og lítilsvirt. Þegar heilbrigðisstarfsfólk þarf að vinna aukavaktir til að ná endum saman. Þegar kennarar þurfa að útskýra aftur og aftur hvers vegna störf þeirra skipta máli. Þegar konur eru enn með lægri laun – í störfum sem við getum ekki verið án. Þegar ríkisstjórnir þegja – meðan Palestínumenn eru drepnir í beinni útsendingu. Þegar leiðtogar Evrópu tala um regluverk og vígvæðingu – en ekki réttlæti og mannréttindi.

Góðir félagar! Í ár minnumst við þess að hálf öld er liðin frá því að konur lögðu niður störf þann 24. október 1975 og sýndu fram á ómetanlegt framlag sitt til samfélagsins. Þessi dagur markaði upphaf byltingar sem breytti íslensku samfélagi til frambúðar.

Þrátt fyrir þessa sögu eigum við enn mikið verk fyrir höndum. Konur búa enn við margvíslega mismunun, launamisrétti og kynbundið ofbeldi. Á Kvennaári 2025 hafa hátt í 50 samtök launafólks, kvenna, hinsegin fólks og fatlaðs fólks sameinast um að krefjast aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna á Íslandi.

Við í VG stöndum með þessum kröfum og munum halda áfram að berjast fyrir samfélagi þar sem öll njóta jafnréttis og virðingar.

Hver stjórnmálahreyfing verður að spyrja sig:
Hverra hagsmuna erum við að gæta? Við í VG viljum ekki halda jafnvægi á milli valdastéttarinnar og alþýðunnar. Við viljum nýtt jafnvægi á félagslegum grunni.

Við viljum:
· réttlátari skattheimtu þar sem fjármagn og arður eru skattlögð
· húsnæðismarkað þar sem fólk býr en er ekki leikvöllur fyrir braskara
· laun sem duga
· og frið sem byggir á réttlæti

Kæru félagar. Við þurfum að segja hlutina eins og þeir eru. Og við þurfum að gera það saman. Það sem við eigum, eigum við sameiginlega – samfélagið okkar, hugsjónir, hugmyndir og sögu. Saga vinstrihreyfingarinnar er samtvinnuð sögu verkalýðshreyfingarinnar – og mun verða það áfram.

Framtíðin verður ekki byggð af þeim sem græða á fortíðinni, heldur af þeim sem þora að berjast fyrir réttlátara þjóðfélagi. 1. maí er ekki minningarathöfn. Hann er ákall. Um samstöðu. Um hugrekki. Um breytingar.

Við höfum raddir – og nú þurfum við að nota þær. Við höfum sögu – og hún kallar á samstöðu. Við höfum eld í hjartanu – látum hann loga.

Til hamingju með baráttudag verkafólks. Og takk fyrir að gefast ekki upp.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search