Kæru félagar, kæru vinir.
Ég held að við finnum öll að eitthvað er að breytast. Það er eins og loftið sjálft sé þyngra: verðbólga og háir vextir, kaldir undirtónar í stjórnmálunum, þjóðarmorð á Gaza, ráðleysið í loftslagsaðgerðum, Pútin og Trump, vargöld um veröld víða. Þetta er ekki bara í fréttunum – þetta er í okkar eigin beinum, í samtölunum við börnin okkar og barnabörnin, í áhyggjunum yfir framtíðinni.
Við stöndum hér saman á tímum þar sem vindar sögunnar blása af meiri krafti en við höfum séð um langa hríð. Og þeir blása aftan úr myrkustu tímum okkar. Eins og Jóhannes úr Kötlum kvað þegar síðast blés úr forneskju: „sérðu ekki þjóð mín að hér er komið hið kolsvarta tröll sem kynngi hatursins vakti upp úr gröf miðaldanna“. Þetta eru dagar sem reyna á okkur öll – sem samfélag, sem hreyfingu, sem einstaklinga.
Við finnum skýrt hvernig ógnir samtímans nálgast. Sumt sem áður virtist fjarstæðukennt og fjarlægt er orðið hluti af daglegu lífi fólks um allan heim.
Við finnum svo líka að við verðum að vera hluti af þeirri hreyfingu í heiminum sem skapar von. Sem horfir fram á veginn af kjarki og bjartsýni. Fyrir framtíðina.
—
1. Heimurinn sem við horfum upp á
Við sjáum nú:
· Nýtt kjarnorkuvopnakapphlaup þar sem friðarvonir eru troðnar undir járnhæl einræðisherra og vopnaframleiðenda.
· Fjandskap og andstöðu við loftslagsaðgerðir þegar mest liggur við – eða, það sem er jafn hættulegt, kaldhæðnislegt áhugaleysi og fálæti.
· Gervigreind sem þróast á leifturhraða án reglna og ábyrgðar, knúin áfram af gróðafíkn og vopnavaldi.
Þetta þrennt getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þróun mannkynsins og lífs á jörðinni. Tækni og vísindi geta verið til blessunar – en verða til bölvunar ef siðferðinu er kastað fyrir róða.
Við sjáum líka bakslag í réttindum kvenna, hinsegin fólks og jaðarsettra hópa um lönd og álfur. Vegið er að lýðræði, mannréttindum og jöfnuði.
Við verðum að spyrja okkur sjálf: Hvaða heim ætlum við að skilja eftir okkur? Hverju eigum við að svara þeim sem spyrja: Hvers vegna gerðuð þið ekki neitt? Hvað gerðuð þið?
Þetta eru spurningar sem krefjast svara hér og nú – ekki seinna. Við sem stöndum í þeim sporum að leiða hreyfingu vinstrafólks og umhverfis- og náttúruverndarsinna eigum ekki aðeins að spyrja – heldur líka að svara.
Við getum valið baráttuna fyrir friði, við getum valið réttlátt samfélag, við getum valið tækni sem virðir siðferði, náttúru og mannlegt samfélag. Við eigum að gera það.
—
2. VG sem nauðsynlegur kraftur í íslenskum stjórnmálum
Þetta á að vera kjarninn í íslenskum stjórnmálum. Í gegnum tíðina hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð oftar en ekki verið sú rödd sem stendur á móti ríkjandi straumi, sú hreyfing sem talar fyrir lífi, réttlæti og mannhelgi þegar aðrir þegja. Og við höfum látið verkin tala.
Við höfum:
· Verndað náttúruna. Náttúruverndarlög, rammaáætlanir og fjölda verndarsvæða má rekja beint til okkar. Friðlýsingar á tíma Mumma í umhverfisráðuneytinu tryggðu framtíð vistkerfa og lífríkis sem annars hefðu verið í hættu. Þeim verður ekki svo auðveldlega snúið við.
· Styrkt mannréttindi. Lögin um þungunarrof voru bylting í réttindabaráttu kvenna – þau færðu konum sjálfsákvörðunarrétt sem áður var takmarkaður. Lögin um kynrænt sjálfræði voru líka stórkostlegt framfaraskref sem við áttum frumkvæði að. Þessir sigrar og margir fleiri sýna að barátta skilar árangri og að VG er afl breytinga.
· Staðið með flóttafólki og innflytjendum. Því mannréttindi eiga ekki að vera samningsatriði. Þau eru algild. Það hefur alltaf verið okkar stefna, jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu, jafnvel þegar pólitísk stemning var á móti okkur eða samstarfsflokkar beittu sér af afli á móti þeim áherslum.
En við höfum líka þurft að horfast í augu við erfiðar málamiðlanir í ríkisstjórn sem ollu mörgum í hreyfingunni sárindum. Það er eðlilegt. Við eigum ekki að skrifa þá reynslu út og ekki heldur snúa henni upp í eigin svipugöng – við eigum að læra af henni. Spyrja okkur hvar hafi þurft að slá af kröfum og hvar hefði mátt standa fastar í fætur.
Í dag segjum við skýrt enn og aftur: við stöndum skýrt með mannréttindum allra, og látum engan véfengja þann grunn.—
3. Staðan á Íslandi
Góðir félagar! Við finnum það æ skýrar að:
· Verðbólgan étur upp kjörin, vextirnir eru ennþá himinháir og ekkert lát á því.
· Húsnæðisverð og óörugg leiga vega að öryggi almennings.
· Skattkerfið er blint á misskiptinguna í samfélaginu.
Það er ekki sjálfbært að sumir græði stórkostlega meðan aðrir lifa við stöðuga óvissu. Skattkerfið á að jafna byrðar og byggja velferð – ekki styrkja forréttindi.
Og náttúran okkar – hún er ekki takmarkalaus „auðlind“ sem má nýta þangað til ekkert er eftir. Orkuskipti eru brýn – en þau mega ekki verða afsökun fyrir því að vinna tjón á náttúrunni þannig að ekki verði aftur snúið.
Í velferðinni – heilbrigðisþjónustu, menntun og menningu, almannatryggingum – liggur hjarta samfélagsins. Að skera niður þar er eins og að rjúfa súrefnisslöngu. Með þeirri þjónustu er fjárfest í lífi, samstöðu og framtíð.
En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún er hægristjórn í ríkisfjármálum, harðneskjuleg í útlendingamálum og grimm í garð náttúrunnar. Myndin er að skýrast.
Þegar þingið kemur saman í haust blasir við fjárlagafrumvarp sem boðar niðurskurð í almannaþjónustu, áframhaldandi skattalegt óréttlæti og auðmýkt gagnvart stórfyrirtækjum. Við segjum: Þetta er ekki óhjákvæmilegt. Það er pólitískt val.
Og við munum mæta því með skýrum valkostum – með tillögum um að hækka fjármagnstekjuskatt, verja heilbrigðisþjónustuna og byggja upp félagslegt húsnæði. Við ætlum að sýna að önnur leið er möguleg – líka þegar stjórnarmeirihlutinn vill að við trúum því ekki. Líka þegar við erum utan þings.
—
Persónulegt augnablik – frá Covid
Kæru félagar, ég man eftir augnablikum úr covid-faraldrinum þegar allt lá undir. Við þurftum að taka ákvarðanir á hverjum degi og stundum margar á dag. Við hugsuðum alltaf: líf og heilsa fyrst. Björgum mannslífum, byggjum á bestu mögulegu þekkingu. Höldum samfélaginu saman.
Við stóðum saman um að heilbrigðisþjónustan væri okkar sameiginlega líflína, ekki markaðsvara sem fólk þyrfti að kaupa sér. Hún er öryggið okkar. Heilsugæslan, heilbrigðisstofnanirnar um allt land og Landspítalinn okkar allra, þjóðarsjúkrahúsið.
Þá fann ég hvað það skiptir miklu máli að standa fast gegn einkavæðingu, að hugsa um heildina, að verja það sem er okkar allra. Því þegar stormarnir ganga yfir eru það ekki einkareknar stofur og heilbrigðisstofnanir sem halda samfélaginu saman – heldur sameiginleg ábyrgð okkar allra.
—
Almannaþjónustan undir árás
Kæru félagar, við þurfum að tala skýrt um það sem er að gerast.
Almannaþjónustan – heilbrigðisþjónusta, menntun, almannatryggingar – öll þessi kerfi glíma nú við stöðugan þrýsting frá einkarekstri og hægri kreddum.
Í heilbrigðiskerfinu sjáum við hvernig einkaaðilar fá tekjurnar fyrir einföldu tilvikin, en skilja opinbera spítalanum eftir áhættuna, fylgikvillana og flóknu málin. Þetta er ekki tilviljun – þetta er stefna.
Í menntakerfinu sjáum við sömu þróun: hugmyndina um að menntun sé vara sem fólk eigi að kaupa sér. Við höfnum því og segjum: Menntun er réttur sérhverrar manneskju í öflugu samfélagi – ekki viðskiptatækifæri.
Þetta er ein tegund ásælni gróðaaflanna: að líta á opinbera þjónustu sem vettvang til að græða á. Við í VG segjum: Við stöndum vörð um heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð. Við höfnum því að leyfa einkavæðingu að grafa undan grunnstoðum samfélagsins.
Og við skulum líka muna að gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa verið baráttumál VG frá stofnun hreyfingarinnar. Það var að verða að veruleika þegar lögfest var í kjölfar kjarasamninga á síðasta ári. Það er okkar verk. Það er sigur almennings – og það er tákn um það sem við stöndum fyrir: aukinn jöfnuð.
—
Kvennabarátta og réttlæti
Góðir félagar. Við megum aldrei gleyma því að jöfnuður og mannréttindi eru ekki sjálfgefin. Þau eru baráttumál sem þarf að sækja á hverjum degi.
Í vikunni barst okkur frétt sem minnir okkur á það. María Sjöfn Árnadóttir vann mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu – eftir áralanga baráttu fyrir því að kynbundið ofbeldi gegn henni yrði tekið alvarlega. Málið fyrndist í höndum lögreglu. Hún þurfti að berjast árum saman – allt til Evrópu – til að fá viðurkenningu á því að brotið hafði verið gegn rétti hennar.
Sigur hennar er ákall til okkar allra. Um að kerfið bresti, að konur og kvár séu skilin eftir án verndar, að ofbeldi og þöggun hafi fengið að halda áfram.
Það er 50 ár frá kvennafrídeginum 1975. Enn í dag eru launamisrétti, ofbeldi og kerfisbundið vanmat hluti af lífi kvenna. Kvennabarátta er ekki minnisvarði – hún er lifandi róttæk barátta sem á sér stað hér og nú.
Við segjum: íslenskt samfélag á langt í land ef brotaþolar þurfa að leita alla leið til Evrópu til að fá rétt sinn viðurkenndan.
En við skulum líka minna okkur á sigrana. Lögin um þungunarrof voru bylting og stórkostleg breyting í réttindabaráttu kvenna. Lögin um kynrænt sjálfræði settu ný viðmið sem hljóta að fylla okkur stolti. Þetta eru dæmi um að barátta skilar árangri – og hún heldur áfram.
Þess vegna er kvennabarátta í hjarta vinstrihreyfingar. Hún snýst ekki aðeins um launatöflur – hún snýst um mannhelgi, öryggi í eigin líkama, um að hafa rödd og rétt.
—
4. Stefnumótandi áherslur okkar
Við leggjum fram skýrar línur:
1. Loftslags- og náttúruvernd – engar nýjar stórvirkjanir sem ganga gegn verndarsjónarmiðum.
2. Jöfnuð og velferð – endurskoðun skattkerfisins, uppbyggingu velferðar og raunverulegt jafnrétti í þjónustu.
3. Húsnæðismál – endurreist verkamannabústaðakerfi, efling félagslegs leiguhúsnæðis, réttindi leigjenda, að hemja gróðasókn.
4. Frið og alþjóðleg samstaða – Ísland á að vera rödd friðar, ekki hernaðar.
5. Lýðræði og þátttaka – opnari stjórnmál, sterk sveitarfélög, fleiri raddir við borðið.
Allt eru þetta áherslur sem eru kunnuglegar, skýrar og kjósendur vita að eru áherslur VG.
—
5. Harðari pólitík – skýrar andstæður
Til er fólk sem segir að það skipti ekki máli hvort flokkar séu til hægri eða vinstri. En það er ekki veruleikinn. Það skiptir svo sannarlega máli – og það finnum við núna.
Þegar Samfylkingin, sem áður talaði fyrir jöfnuði, gengur til samninga við einkaaðila sem grafa undan Landspítalanum og jafnræði í heilbrigðisþjónustu – þá skiptir það máli.
Þegar stjórnarflokkarnir kalla náttúruna „auðlind“ sem má virkja og vaða yfir af algjöru skeytingarleysi – þá skiptir það máli.
Þetta er ný útgáfa hægri stjórnmála – í dulargervi.
Ef VG væri ekki til staðar væri hér enginn flokkur sem stendur afdráttarlaust vörð um mannréttindi, náttúruna og réttlætið. Það er staðreynd.
—
6. Palestína – sannleikur og ábyrgð
Kæru félagar, við getum ekki talað um frið og réttlæti án þess að nefna Palestínu.
Þar stendur yfir þjóðarmorð sem heimurinn horfir upp á. Ísrael hefur haldið Gazabúum í herkví árum saman, með stuðningi Bandaríkjanna og þögn Evrópu. Þetta er ekki bara stríð. Þetta er markviss eyðing samfélags, þjóðarmorð – með vopnum sem fjármögnuð eru og samþykkt af vesturveldunum. Stefna sem snýst um það að gera það útilokað að palestínskt ríki fái þrifist.
Ísland á ekki að taka undir þögnina. Við eigum að krefjast tafarlauss vopnahlés, brottflutnings hernámsliðsins, viðskiptabanns á Ísrael og fullrar viðurkenningar á ríki Palestínu. Við eigum að skrá Ísland á lista þeirra þjóða sem kæra Ísrael fyrir þjóðarmorð. Það er löngu tímabært.
Við verðum líka að segja það skýrt: ábyrgð Bandaríkjanna er gríðarleg. Það eru bandarísk vopn sem drepa börn á Gaza. Það er bandarísk hernaðaraðstoð sem heldur áfram að kynda undir ofbeldinu. Og það er undirlægjuháttur Evrópu sem gerir að verkum að þessi glæpur heldur áfram.
VG stendur með kúguðum gegn kúgurum. Við stöndum með friði gegn stríði. Við stöndum með frjálsri Palestínu.
—
7. Kynslóðaskipti og ný orka
Góðir félagar! Við stöndum á tímamótum. Ég finn að margir félagar kalla eftir uppgjöri – að við horfum ekki bara áfram heldur líka til baka, lærum af reynslu okkar í ríkisstjórn og viðurkennum að þar voru teknar ákvarðanir sem ollu vonbrigðum.
Það er skiljanleg þörf og hún er réttmæt. En uppgjör sem festist í fortíðinni verður að skugga sem heldur okkur í gíslingu. Við þurfum að gera þetta öðruvísi. Við þurfum að skapa rými – rými fyrir nýjar raddir, nýjar hugmyndir, breiða forystu. Þannig verður uppgjörið ekki hindrun heldur brú yfir í framtíðina.
Kynslóðaskipti eru ekki ógn – þau eru loforð um framtíð. Um framhald. Við verðum að rétta lykla hreyfingarinnar í hendur nýrra félaga, ungs fólks, líka fólks sem kemur utan að. Ekki bara bjóða þeim inn – heldur segja: „Taktu pláss, skapaðu framtíðina.“
En það þýðir ekki að eldri kynslóðirnar hverfi. Þvert á móti. Þekking, reynsla og yfirsýn þeirra eru dýrmæt – þær mynda jarðveginn sem nýir sprotar geta vaxið úr. Eldri félagar eiga að vera áfram með, sem leiðsögn og stoð, sem vitnisburður um baráttuna sem þegar hefur verið háð og sem hvatning til þeirra sem eru að taka við. Ný kynslóð þarf á því að halda – á ráðleggingum, minningum, húmor og styrk þeirra sem hafa áður staðið í storminum.
Þannig er þetta ekki spurning um að einhverjir stígi til hliðar og hverfi – heldur um að við deilum ábyrgðinni, opnum dyrnar og hleypum nýju lofti inn. Þetta er leið til að byggja framtíð: ekki með því að berjast við skugga, heldur með því að rækta nýtt líf og nýjar hugmyndir – saman.
—
8. Sveitarstjórnarkosningar 2026
Félagar! Sveitarstjórnarkosningarnar verða prófsteinn á það hvort við getum sýnt að hugmyndir okkar virka í nærumhverfi fólks.
Félagslegt réttlæti og náttúruvernd eiga ekki bara heima á Alþingi – þau eiga heima í skólamötuneytinu, í skipulaginu, í vernd grænna svæða, í þjónustunni við eldri borgara. Í sveitarfélögunum sjáum við það best að vinstri hugsjónir um jöfnuð og félagslegt réttlæti eru það sem skiptir máli. Að standa með fólki, með barnafólkinu og þeim komin eru við aldur,
kennurum og skólaliðum, innflytjendunum sem annast um sjúka og aldraða í dagsins önn og standa frammi fyrir því krefjandi verkefni að laga sig að íslenskri tungu og menningu, styðja menningu og blómlegt mannlíf, stuðla að mannvænu umhverfi þar sem náttúra og menningarlegar rætur fá að njóta sín, umhverfi þar sem peningaöflin fá ekki að leika lausum hala og græðgin fær ekki að ráða ferð.
Þess vegna segi ég við ykkur: VG á að bjóða fram í sem flestum sveitarfélögum þar sem við getum haft áhrif. Við eigum ekki að víkja – við eigum að mæta til leiks.
—
9. Hugvekja að lokum – mófuglarnir og við
Kæru félagar, mófuglarnir í íslenskum sveitum eru ekki aðeins hluti af náttúrunni heldur líka menningunni, sögunni og hjarta samfélagsins. Vell spóans segir okkur að við höfum lifað af veturinn – og dýrðin í söng lóunnar vekur sumarið í brjóstinu. Þeir minna okkur á að lífið heldur áfram, að vonin snýr alltaf aftur.
En mófuglar eru líka viðkvæmir. Þeir hverfa þar sem landið hefur rýrnað, þar sem ráðandi öfl gera sér ekki grein fyrir tengslunum milli lands, náttúru, fólks og lífs. Þeir hverfa ef landnotkun er látin ráðast af yfirgangi í stað virðingar.
Góðir félagar. Við erum hvorki stærst né háværust, en við viljum standa fyrir líf, endurnýjun, það sem heldur samfélaginu á lífi og gefur tilverunni söng og merkingu.
Ég veit að mörg okkar finna ekki mikla von í samtölum á vinstri vængnum þessa dagana. Við heyrum kaldhæðni, þreytu, jafnvel sinnuleysi. En það er ekki það sem ber okkur áfram. Hugrekki snýst ekki um að vera örugg. Hugrekki snýst um að standa upp þótt maður sé hræddur. Að halda áfram þótt aðrir segi að það borgi sig ekki. Að segja sannleikann þótt hann sé óþægilegur. Að halda áfram að tala saman.
Við verðum að vera bein í baki, bjartsýn þótt við séum stundum þreytt, og ekki gleyma húmornum. Húmornum sem brýtur ísinn, sem heldur
samskiptunum opnum og flæðandi – og sem sýnir að við trúum enn á lífið og gleðina.
Og þegar næsta kynslóð spyr: „Hvað gerðuð þið?“ – þá getum við sagt: „Við vöktum yfir samhenginu, náttúrunni og hinu smáa en líka réttlætinu og jöfnuðinum og baráttunni fyrir betri heimi. Og stóðum aftur upp.“
Góðir félagar!
Áfram við! Áfram VG! Við erum mætt!