Við stöndum hér saman á þessum flokksráðsfundi, fyrsta stóra fundinum okkar eftir kosningarnar í nóvember. Þetta er ekki bara fundur um málefni dagsins, um skipulag flokksstarfsins eða næstu kosningar. Þetta er fundur um framtíðina.
Við höfum breytt íslensku samfélagi. Við höfum varið náttúruna. Með lögum, með ákvörðunum, með reglugerðum, með friðlýsingum, með stefnumótun. Við höfum bætt kjör kvenna og lágtekjufólks, lengt fæðingarorlof, innleitt þrepaskipt skattkerfi, hækkað barnabætur, fært þungunarrofslöggjöfina til nútímans. Við höfum stutt verkalýðshreyfinguna ítrekað með aðkomu að kjarasamningum. Við höfum styrkt heilbrigðiskerfið, stutt við heilsugæsluna og byggt nýjan landspítala. Við höfum átt aðild að þremur ríkisstjórnum og verið áhrifamesta vinstrihreyfing í landinu um margra ára skeið.
En nú stöndum við í VG frammi fyrir nýjum veruleika.
- Við erum ekki lengur í ríkisstjórn
- Við erum ekki lengur á Alþingi
- Við höfum misst hina formlegu stöðu á vettvangi landsmálanna
Það er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Við fengum þungt högg í kosningunum.
Það sem skiptir máli núna, undir þessum kringumstæðum er hvernig við bregðumst við. Hvað gerum við núna? Við getum gert eitt af tvennu: Við getum lokað okkur inni, farið í vörn og beðið eftir betri tíð. EÐA við getum risið upp, byggt hreyfinguna upp á ný og markað skýra stefnu fyrir framtíðina. Ég veit að við veljum seinni kostinn.
Við skulum ekki afsaka tilvist okkar. Við skulum ekki tala í hálfkveðnum vísum. Við höfum verið í ríkisstjórn í ellefu ár af síðustu sextán. Það er ekki sjálfsagt fyrir hreyfingu eins og okkar en það hefur falið í sér raunveruleg áhrif á samfélagið. Það hefur skipt sköpum í hverju málinu á fætur öðru. Það hefur gert okkur að einni áhrifamestu stjórnmálahreyfingu Íslandssögunnar. En að vera í ríkisstjórn hefur líka þýtt að við höfum þurft að gera málamiðlanir. Það hefur þýtt að við höfum ekki alltaf fengið okkar vilja fram. Við höfum oft háð erfiða baráttu milli stefnu okkar og hins pólitíska raunveruleika frá einu tímabili til annars. En árangurinn var raunverulegur og áþreifanlegur.
Það er öllum ljóst að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur markað afar skýr og greinileg spor í stjórnmálasögu íslensks samfélag undanfarinn aldarfjórðung. Við höfum átt aðild að ýmiss konar meirihlutasamstarfi á sveitarstjórnarstigi frá stofnun hreyfingarinnar; eitt kjörtímabil í allmörgum sveitarfélögum, tvö kjörtímabil í Norður-Þingi og Reykjavík, þrjú kjörtímabil í Borgarbyggð og fjögur kjörtímabil í Mosfellsbæ. Sveitarstjórnarfulltrúar af hreinum VG-listum hafa verið allt frá fjórum og upp í fimmtán auk þess sem við höfum tekið þátt í fjölmörgum blönduðum listum á þessum 25 árum sem liðin eru. Við höfum átt aðild að þremur ríkisstjórnum, alls í ríflega 11 ár og náð margvíslegum árangri sem lýtur að okkar stefnumálum og áherslum. Félagar í VG eru rúmlega 6000 í tæplega tuttugu svæðisfélögum sem eru sannarlega misvirk en hafa öll sinnt starfsemi á skemmri og lengri tímabilum. Virkust eru félögin í Reykjavík, á Akureyri, í Kópavogi og í Hafnarfirði.
Nú höfum við reyndar líka innsiglað þátttöku í meirihluta í Reykjavík sem ég vil nota tækifærið hér til að fagna sérstaklega. Borgarfulltrúinn okkar í Reykjavík, Líf Magneudóttir, mun í hádegishléi gera stutta grein fyrir samstarfinu.
Ég vil líka þakka ykkur góðir félagar fyrir góða mætingu og legg áherslu á það hversu mikilvægur fundurinn er fyrir okkur sem stjórnmálahreyfingu. Flokksráðið sem fundar hér í dag gegnir lykilhlutverki í því að marka stefnu til framtíðar og taka ákvarðanir. Á þeim grunni virkjum við grasrótina og byggjum upp sjálfbært og öflugt starf. Við sem hér erum berum ábyrgð á framtíð VG. Hvert og eitt og sem hópur. Þegar heim er haldið getum við mætt á fundi svæðisfélaganna, haft frumkvæði að umræðu, verið þátttakendur í félagsstarfi, skrifað greinar, lýst sjónarmiðum VG á opinberum vettvangi, skrifað greinar, verið með. Öll. Hvert og eitt. Það er mikilvægt að við látum ekki deigan síga. Að við séum virk og til reiðu þegar tækifærin gefast aftur. Því það er nefnilega þörf á vinstri og grænni póltík. Ekki bara áður heldur ekki síst inn í nútímann og framtíðina. Verum hress og tilbúin þegar það gerist.
Við þurfum að leggja áherslu á það hver eru helstu sóknarfæri fyrir vinstrið og pólitískan arm náttúruverndarhreyfingarinnar á Íslandi og hvert hlutverk VG verður í þeirri framtíðarsýn. Við höfum fulla ástæðu til að vera bjartsýn og sókndjörf en um leið raunsæ þegar litið er til þess hversu ríkir hinir alþjóðlegu straumar eru og hversu alvarlegt bakslag er sýnilegt á sviði mannréttinda og jöfnuðar víða um heim. Ófriður og stríðsátök magnast víða í heiminum og áherslan á friðsamlegar lausnir og afvopnun verður sífellt mikilvægari. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að um heim allan séu starfandi öflugar vinstrihreyfingar.
Síðustu kosningar fólu í sér niðurstöðu sem er ekkert minna en áfall fyrir okkar góðu hreyfingu. Fylgið hefur aldrei verið eins lágt. Við höfum í raun aldrei náð að spyrna okkur upp frá því í fyrravor og verið undir 5% í skoðanakönnunum síðan sem auk þess reyndist okkur erfitt vegna þess lágmarks sem þarf að ná á landsvísu til að ná inn þingmanni. Það er full ástæða til að velta vöngum yfir ástæðum þessa. Nærtækast er að við vorum þátttakendur í ríkisstjórn sem var orðin verulega óvinsæl enda fylgi allra flokkanna þriggja í sögulegu lágmarki. Aldrei lægra. Aðdragandinn að kosningunum, brotlending ríkisstjórnarinnar, erfiður og stuttur aðdragandi að kosningum, ályktun frá landsfundi VG og mikil og alvarleg innanmein í Sjálfstæðisflokknum. Úrslit kosninganna færðu okkur líka þá staðreynd að þrír flokkar eru nú utan þings sem standa fyrir róttæk sjónarmið; við, Sósíalistaflokkurinn og Píratar. Samtals eru þarna hartnær 10% kjósenda eða 22 þúsund manns sem nú eiga ekki rödd á alþingi, engan fulltrúa. Það gerir það að verkum að eðlilegt og lýðræðislegt viðnám gagnvart ríkisstjórninni er ekkert frá vinstri og ekkert úr grænni átt. Það er alvarleg staða. Það verður ekki framhjá því litið að gengi okkar í síðustu kosningum er líka hluti af alþjóðlegri bylgju þar sem þar sem öfgahægrimenn og lýðskrumarar eiga sífellt meiri hljómgrunn og vinstri pólitík á víða í vök að verjast. Sama má segja um raddir og áherslur umhverfissjónarmiða. Víða eru græningjaflokkar í klemmu og okkur er öllum ljóst að umræða um loftslagsvá og vanda vistkerfanna hefur oft verið háværari en nú. Þetta liggur allt fyrir en um leið er það okkar skylda að líta í eigin barm og lærdóma okkar sjálfra af síðustu kosningum. Hvað tókst vel og hvar megum við gera betur? Okkar sérstaða náði illa í gegn og í umræðuþáttum og pallborðum vorum við í vörn frekar en sókn. Þau mál sem marka okkar sérstöðu, hvort sem það eru umhverfis- og náttúruverndarmál, kvenfrelsismál eða varðstaða um almannaþjónustu og velferðarkerfið voru einfaldlega ekki á dagskrá svo nokkru næmi.
Kosningabaráttan sem slík gekk samt vel, þátttaka grasrótarinnar var mikil hvort sem var í úthringingum, vinnu í kringum kosningamiðstöðvar eða aðra sjálfboðavinnu. Gleði og baráttuandi einkenndi hópana um allt land sem komu að baráttunni og er þakkað fyrir það. Við nutum að mörgu leyti góðs af því að vera með skýra og nýuppfærða málefnastöðu frá landsfundinum, skarpar línur sem gott var að byggja á. Nýtt fólk á listum, og fersk andlit, slagkraftur og stemmning. En það dugði ekki til. Við þurfum augljóslega að líta inn á við og gera betur. Munum samt að í okkar raðir hefur bæst fólk sem er framtíðarfólk, bjartsýnt og fullt af þrótti og þeim sköpunarkrafti sem við þurfum á að halda áfram veginn. Fólk úr kvennahreyfingunni, verkalýðshreyfingunni, umhverfis- og náttúruverndarhreyfingunni. Fólk sem hér eftir sem hingað til mun taka þátt í þeirri deiglu sem við erum stödd í. Krefjandi en spennandi efniviður áfram veginn.
En við þurfum líka að horfa í eigin barm. Við vorum of mikið í vörn í kosningabaráttunni. Vörn fyrir ríkisstjórn sem hafði lokið erindi sínu. Við vörðum málamiðlanir í stað þess að tala skýrt um okkar stefnu. Við náðum ekki nægilega vel til ungs fólks og þeirra sem vilja róttækari breytingar. Mögulega hefðum við getað gert betur í að draga fram sérstöðu okkar. Kannski var framboð okkar og forysta of tengt ríkisstjórnarsamstarfinu. Og niðurstaðan var sú að við horfðum upp á sögulega lágt fylgi Vinstri grænna. En eitt verðum við að hafa á hreinu. Við töpuðum ekki hugsjóninni! Við töpuðum ekki stefnu okkar og við töpuðum ekki eldmóðnum, baráttuandanum, þeirri orku sem er drifkraftur okkar allra.
Getum við lært af kosningabaráttunni? Aðdragandanum? Skipulaginu? Við getum lært að við þurfum að vera í enn beinna samtali við fólkið í landinu. Við getum lært að við þurfum að vera skýrari í stefnumótun. Mögulega einfaldari skilaboð. Hafa sterkari rödd. Við getum líka lært og vitum að við megum aldrei missa eldmóðinn.
Ný ríkisstjórn hefur nú tekið við völdum og ber svo við að algjör endurnýjun er í stjórnarráðinu og aðeins einn ráðherra hefur áður gegnt slíku embætti. Reynsluleysið er umtalsvert og blasir við að planið sem átti að sjá við öllu felur ekki í sér allar lausnir. Ríkisstjórn sem byrjaði í jákvæðum og öflugum anda. Þrjár konur, söngur og slagkraftur, er nú í vörn í sífellt fleiri málum. Áhyggjur vekur að áherslur í ríkisfjármálum eru afar hægrisinnaðar. Skera á niður fyrir öllum viðbótarútgjöldum og öllum er nú boðið að senda inn tillögur að því að skerða almannaþjónustuna og mega þær hugmyndir koma hvaðan sem er. Enda ljóst að þau sem tóku þessu frumkvæði af hve mestum fögnuð voru fyrst og fremst hægri öflin í samfélaginu, peningaöflin og þeir aðilar sem alltaf hafa haft horn í síðu samfélagsins og almannaþjónustunnar. Svo þegar vinna skyldi úr tillögunum voru kallaðir til atvinnurekendur utan úr bæ, forstjóri Steypustöðvarinnar stjórnar vinnunni. Enginn þingmaður við það borð eða kjörinn fulltrúi, enginn með lýðræðislegt umboð frá kjósendum heldur handvalinn af forsætisráðherra. Kunnuglegt úr öðrum ríkjum. Niðurskurðarkeisarinn mættur. Í stjórnarsáttmálanum eru fjöldamörg útgjaldaloforð, bæði í rekstri og framkvæmdum. Líklegt er að þau mál safnist saman í yfir 75 milljarða. Það er algjörlega ljóst að af öllum þeim verkefnum öllum getur ekki orðið nema með því að leggja niður einhverja starfsemi ríkisins, draga úr þjónustu eða draga saman annað umfang. Áform um tekjuöflun í formi auðlindagjalda er vandséð að skili upphæðum af þessari stærðargráðu. Hækkun veiðigjalda verða væntanlega einhverjir milljarðar en engar útfærslur hafa sést varðandi tekjuöflun af ferðaþjónustu eða auðlindum öðrum. Það liggur fyrir að ríkisfjármálastefna Viðreisnar varð ofan á við ríkisstjórnarmyndun en ekki áform Samfylkingar um skattahækkanir og aðra tekjuöflun. Með því að ætla að ná jafnvægi í ríkisfjármálum þegar fyrir fjárlagaárið 2026 er alveg ljóst að áætlanir í þessum efnum geta ekki staðist. Ríkisstjórnin sýnir svo á spilin þegar fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 verður lögð fram í apríl. Það liggur að minnsta kosti algjörlega fyrir að væntingar um útgjöld eru ekki í neinu samræmi við niðurskurðar- og aðhaldsstefnu sem boðuð er í ríkisfjármálum. Gert er ráð fyrir átaki í innviðauppbyggingu, húsnæðismálum, málefnum aldraðra og ýmis önnur félagsmál eru boðuð með töluverða aukningu í sáttmálanum. Það liggur sem sé fyrir að milljarðatugi vantar í ríkisfjármálunum. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig úr því verður leyst. Eða ekki.
Í aðdraganda kosninga hafði Samfylkingin breytt um tón í umhverfismálum – eða réttara sagt voru umhverfismálin algjörlega fjarverandi og svo bar svo við að offorsið í orkumálum átti að vera með þeim hætti að nú átti að ráðast í orkuöflun hraðar og af meiri yfirgangi gagnvart náttúrunni en aðrir flokkar höfðu hugmyndaflug í að tala fyrir. Til stóð að auka ársframleiðslu um 5 TW-stundir á næstu tíu árum. Heila Kárahnjúkavirkjun. Í þessum anda er nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram.
Fyrsta aðgerð í þessu skyni er frumvarp sem umhverfis- orku- og loftslagsráðherra Samfylkingarinnar og nýrrar ríkisstjórnar hefur nú mælt fyrir um breytingu á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála.
Umrætt frumvarp hefur í daglegu tali verið kallað „frumvarp um Hvammsvirkjun“. Yfirlýst markmið ráðherrans með frumvarpinu er að Hvammsvirkjun rísi þrátt fyrir nýfallinn dóm en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu þann 15. janúar sl. að lögum um stjórn vatnamála hefði ekki verið fylgt og ógilti þar af leiðandi virkjanaleyfið.
Kappssamur, hávær, árásargjarn og til í slaginn mælir ráðherrann fyrir þingmáli til að bregðast við dóminum. Eða svo er sagt. En frumvarpið fjallar um miklu meira.
Um er að ræða tvær frumvarpsgreinar. Annars vegar er lögð til breyting á raforkulögum sem heimilar flýtimeðferð umsókna. Hins vegar er lögð til breyting á lögum um stjórn vatnamála þar sem lagt er til að skilyrði um almannaheill, sem þarf að vera uppfyllt í tilviki framkvæmda sem breyta vatnshloti en þar sem ekki er hægt að ná fram umhverfismarkmiðum, teljist sjálfkrafa uppfyllt í tilviki allra virkjunarframkvæmda sem falla undir orkunýtingarflokk rammaáætlunar. Matið um hvenær „almannaheill“ vega þyngra en umhverfismarkmið er með því ekki lengur faglegt, heldur alfarið pólitískt. Eins og yfirlýst markmið frumvarpsins alls.
Að auki var frumvarpið kynnt samdægurs og sett í flýtimeðferð. Það er óásættanlegt þegar um er að ræða breytingar sem skerða rétt almennings til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Hér er á ferðinni hættulegt fordæmi: Að stjórnvöld hvers tíma geti einfaldlega sniðgengið niðurstöður dómstóla séu þær pólitískt óhagstæðar.
Þannig vegur frumvarpið í heild að náttúruvernd og jafnframt lýðræðislegum rétti almennings til að tjá sig um umhverfismál. Málið er ótækt og veldur stórkostlegum skaða verði það samþykkt.
Við höfum þegar mótmælt frumvarpinu harðlega í umsögn um þingmálið og krafist þess að það verði dregið til baka í heild sinni.
Það er ljóst að við verðum að halda vöku okkar og gagnrýna ríkisstjórnina bæði frá vinstri og úr grænni átt en það er jafnljóst að það er líka okkar hlutverk að ræða lausnir og sóknarfæri fyrir íslenska náttúru og fólkið í landinu. Og þessu hlutverki verðum við að sinna utan þingsins. Það er krefjandi, en við í VG getum það – það er ég viss um.
Við þurfum að sýna fram á lausnir. Hvernig er staðan á Íslandi í dag? Verðbólga étur upp laun fólks. Húsnæðisverð hefur rokið upp. Ríkisstjórnin er skýr hægristjórn sem setur hag fjármagnseigenda ofar hag almennings. Félagslegur ójöfnuður eykst – fátækt barna er raunveruleiki. Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er farin að sækja í sig veðrið. Og við horfum út í heim: Gaza er rústir einar og þó að vopnahlé sé í gildi þá er tilvera fólksins sem þar býr í algjöru uppnámi og lítið þarf til að blóðugar árásir Ísraels haldi áfram. Stríðið í Úkraínu heldur áfram, með vaxandi vopnavæðingu og átökum. Bandalag auðvaldsins og öfgahægri afla er að styrkjast í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta er veruleikinn sem við búum við. Og þessi veruleiki kallar á okkur.
Góðir félagar. Þau alvarlegu tíðindi sem berast frá stríðshrjáðum svæðum víða um heim, aukin spenna og sviptingar vekja ugg í brjósti okkar allra. Sérstakar áhyggjur vekja yfirlýsingar og afstaða nýs forseta Bandaríkjanna. Ásælni hans og lítt dulbúnar hótanir um að fara með valdi gegn fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti annarra ríkja og þjóða auk hugmynda um þjóðernishreinsanir á Gaza eru ógnvænlegar og í algjörri andstöðu við alþjóðalög. Í ályktun stjórnar hreyfingarinnar á dögunum kom fram krafa um að íslenskstjórnvöld fordæmi slíkan yfirgang afdráttarlaust og komi þeirri afstöðu sinni skýrt á framfæri með pólitískum og diplómatískum leiðum. Ísland, sjálfstæði þess og öryggi, á allt undir því að alþjóðalög séu virt og alþjóðlegar stofnanir geti sinnt hlutverki sínu Síðustu daga hefur Trump stjórnin setið á fundum með erindrekum Pútíns og þar með rofið einangrun Rússlands. Evrópa nötrar og neyðarfundir eru haldnir til þess að meta hvað sé til bragðs að taka ef að afarkostir Pútíns verða samþykktir af Trump stjórninni.
Mannréttindi í Bandaríkjunum eru fótum troðin með lagasetningu sem grefur undan kvenfrelsi, réttindum hinsegin fólks, innflytjenda og annarra jaðarhópa. Vegið er að alþjóðlegum dómstólum og alþjóðleg þróunarsamvinna Bandaríkjanna, sem miklu máli skiptir fyrir fátækustu ríki heims, er moluð niður. Staðan er grafalvarleg og full ástæða til þess að Ísland láti sína rödd heyrast að því tilefni og nýti bæði pólitískar og diplómatískar leiðir til þess.
Við ætlum ekki að vera áhorfendur. Við ætlum ekki að draga okkur í hlé. Við ætlum ekki að hætta að hafa áhrif. Aldrei. Því við höfum raunverulegar lausnir. Við höfum séð margar þeirra verða að veruleika. Við viljum virkt og opinbert velferðarkerfi í norrænum anda sem tryggir fólki öryggi. Við viljum raunverulegar loftslagsaðgerðir sem taka náttúruvernd fram yfir gróðasjónarmið. Við viljum jafna leikinn á milli auðmanna og almennings. Við viljum samfélag þar sem enginn þarf að búa við fátækt eða óöryggi.
Og hvert stefnum við sem stjórnmálahreyfing til að halda áfram að? Við verðum að byggja upp VG sem öfluga hreyfingu. Við verðum að virkja grasrótina áfram. Við verðum að tryggja raunverulega þátttöku félaga okkar. Við þurfum að tryggja sýnileika okkar með alvöru miðlun og þátttöku í samfélagsumræðunni. Við verðum að taka þátt í alþjóðlegri vinstribaráttu, alþjóðlegri umhverfisbaráttu og verða skýr rödd friðar og afvopnunar í alþjóðamálum.
Til þess að ná þessum markmiðum þurfum við:
- Að efla málefnastarf. Við verðum að skerpa á stefnu okkar í stórum málaflokkum, bæði varðandi velferðarmál, umhverfismál og alþjóðamál.
- Að endurhugsa hvernig við miðlum boðskap okkar og sjónarmiðum.
- Að byggja upp sterka vinstri hreyfingu fyrir framtíðina. Við ætlum ekki bara að andmæla og gagnrýna – við ætlum að leiða, móta og skapa.
Og þá er spurt: Hvert skal haldið? Hver er okkar framtíðarsýn? Hvernig styrkjum við VG sem hreyfingu fólks sem deilir pólitískri sýn? Það gerum við með því að nýta alla þá reynslu sem við búum yfir – hvort sem er í stefnumótun, lagasetningu, myndun meirihluta á ýmsum stigum en síðast en ekki síst með því að byggja upp hreyfingu með öflugri grasrót; vináttu, samverustundum um allt land, sögu og minningum. Við þurfum að hlúa að þessari gleði og þessum krafti sem við þekkjum öll svo vel en um leið að nálgast verkefnin með nýjum hætti; með samtali, samvinnu og hugrekki. Við erum nú að hittast í fyrsta skipti i þessum nýja veruleika sem við blasir. Nýtum þetta tækifæri til að byggja upp nýja og öfluga liðsheild, efla styrktarmannakerfið og þétta raðirnar.
Við höfum allt sem til þarf, ef við stöndum saman.
Við ætlum að vera ennþá skýrari og djarfari í okkar stefnumótun. Þess vegna ætlum við að:
- Endurheimta forystu okkar í náttúruverndarmálum og segjum skýrt: Engar nýjar virkjanir án samfélagslegrar sáttar og virðingar fyrir náttúrunni
- Leggja fram raunhæfa félagslega sýn fyrir komandi ár og áratugi – þar sem við mótum og styrkjum almennt opinbert velferðarkerfi
- Móta skýra alþjóðastefnu hreyfingarinnar til lengri framtíðar þar sem Ísland verður ekki þátttakandi í vaxandi vígvæðingu Evrópu.
- Endurnýja tengsl okkar við grasrótina, efla styrktarmannamannakerfið, halda fleiri opna fundi og ná beinu sambandi við fólk um allt land.
Við höfum allt sem við þurfum til að byggja VG upp sem sterkan flokk og sterka hreyfingu. Við höfum fólkið. Við höfum hugmyndirnar. Við höfum reynsluna. Það sem skiptir máli núna er að leggja í þetta kraft og vinnu. Þess vegna skora ég á ykkur öll hér í dag:
- Tökum höndum saman.
- Byggjum upp okkar hreyfingu.
- Verum óhrædd við að láta í okkur heyra.
Á fundinum í dag skulum við hugsa út fyrir það hefðbundna. Leyfa okkur að hugsa á róttækan hátt. Um nýjar leiðir, öðruvísi nálgun, róttækar hugmyndir.
Því það er þörf fyrir vinstri og græna pólitík. Og það er ákall í samfélaginu eftir því að okkar skilaboð heyrist. Ekki bara áður, ekki bara í fortíðinni – heldur núna og í framtíðinni. Við skulum ekki bíða eftir að tækifærin komi til okkar – við skulum búa þau til. Áfram VG!