EN
PO
Search
Close this search box.

Ræða Svandísar Svavars undir stefnuræðu forsætisráðherra

Deildu 

Virðulegi forseti, kæru landsmenn!

Síðasti hluti þessa kjörtímabils er runnin upp, síðasti þingveturinn fyrir kosningar. Tíminn þar sem almenningur gerir upp við sig hvernig stjórnvöld hafa staðið sig. Hvað var gert og hvað var ekki gert? Hvað viljum við að sé gert öðruvísi? Hvernig viljum við að landinu okkar sé stjórnað, og samfélaginu? 

Listinn yfir brýnar spurningar er langur og er núna að verða sífellt sýnilegri. Verkalýðshreyfingin lætur til sín taka, grasrótarhreyfingar láta í sér heyra og víða í samfélaginu eru grundvallarmálin sífellt oftar á dagskrá.

Nú eru stór mál aðkallandi. Við höfum til að mynda byggt mikið af húsnæði en ekki nóg, og húsnæðisverðið er ennþá að ýta verðbólgunni upp á við. Háir vextir bíta í heimilisbókhaldið á venjulegum heimilum. Því verður að linna.

Við þurfum að byggja meira, við verðum að byggja enn meira húsnæði á félagslegum grunni á viðráðanlegu verði fyrir fjölskyldur og tryggja þar með húsnæði fyrir venjulegt fólk en ekki fyrir fjárfesta.

Það liggur breyting í loftinu, ákall um árangur frá almenningi til okkar á Alþingi. Tilfinningin um að stjórnmálin rísi ekki undir væntingum er sterk, um að það verði að verða breytingar á stjórn landsins, svo að stjórnmálin virki fyrir fólk.

Við eigum að hlusta á þessari raddir. Þingið verður að hafa þrek til þess að ræða róttækar lausnir, þvert á flokka og þvert á hugmyndafræði. Ríkisstjórnin sem við þurfum núna næstu mánuði, þennan síðasta þingvetur fyrir kosningar, er ríkisstjórn sem nær árangri í kjarnamálum, málum sem snúa að brauðstriti fólksins í landinu. Við þurfum ríkisstjórn sem vinnur saman að því að ná árangri en sóar ekki tíma í þvarg og spjall við sjálfa sig. Líka ríkisstjórnarflokka sem geta rætt við stjórnarandstöðu og sótt breiðari stuðning við lykilmál.

Góðir landsmenn. Við finnum öll að það hefur átt sér stað gliðnun í samfélaginu síðustu misseri. Samfélagið okkar hefur látið á sjá eftir áföll síðustu ára. Heimsfaraldur, náttúruhamfarir, nú síðast á Reykjanesskaga, vaxandi ófriður og ofbeldi um allan heim, dýrtíð, einmanaleiki eykst og andlegri heilsu hrakar. Óraunveruleiki samfélagsmiðla sem aftengir okkur hvert öðru.

Tilfinningin er sú að við okkur hafi rekið í sundur, sem manneskjur, hvert frá öðru. Og í fálæti, einmanaleika og tengslaleysi þrífst öfgaafturhald sem boðar töfralausnir, til dæmis um að vandinn sé of mikill femínismi, of mikil félagshyggja, of mikil áhersla á samfélagslegar lausnir, hræðsla við nýjungar. Að lausnin sé að konur eigi að vera heima og raða í ísskápinn.

Femínismi og kvenfrelsisáherslur hafa sjaldan átt eins mikið erindi og nú, þegar sótt er að réttindum kvenna. Afturhaldsöfl vilja skerða rétt kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama og þar með til heilbrigðisþjónustu. Þessi slagur stendur nú til að mynda yfir í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Við eigum ekki að líða kynbundið ofbeldi, kvenfyrirlitningu og mismunun á grundvelli kynferðis. – Aldrei. Sömu afturhaldsraddir hafa heyrst hér í þingsalnum og þær skulum við kveða í kútinn. Þessi ríkisstjórn hefur sett kynbundið ofbeldi á dagskrá svo um munar. Ekki síst heimilisofbeldi, andlegt, líkamlegt og fjárhagslegt. Þann vítahring þarf að rjúfa. Þessi mál verða að vera stöðugt á dagskrá því bakslagið er raunverulegt og viðbragð feðraveldisins við frumkvæði og styrk kvenna, rýminu sem við tökum og röddunum sem við höfum er áþreifanlegt. Líka í íslenskum stjórnmálum.

Einstaklingshyggjan leggur alltaf mesta áherslu á neyslu, árangur, samanburð og frelsi eins á kostnað hinna. En það er ekki rétta nálgunin –  svarið er alltaf meiri samstaða, meiri samkennd og áhugi á öðru fólki, kjörum þess, áhyggjum og draumum.

Við vitum líka að við getum betur. Þegar á reynir er samfélagið á Íslandi sterkt. Við höfum séð það þegar á móti blæs, þegar náttúruhamfarir dynja yfir, þá lokum við samfélagsmiðlunum og horfumst í augu hvert við annað. Og við þurfum að gera það hér líka, í þessum sal. Því að einstaklingshyggja er ekki það sem gerir Ísland að góðum stað til að búa á.

Það er samfélagið okkar, sterkir samfélagslegir innviðir. Skólar, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, en líka félagasamtök, kórar, leikhópar, menning. Þessir samfélagslegu innviðir hafa verið smíðaðir þrátt fyrir einstaklingshyggju með samstöðu umbótaafla á vinstri væng stjórnmálanna og öflugrar verkalýðshreyfingar í gegnum árin og áratugina, fjölmörg framfaramál og nú síðast gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Munum líka eftir kvenfélögunum og björgunarsveitunum, íþróttafélögum, foreldrafélögum, húsfélögum og öllum þeim félögum og hagsmunasamtökum sem berjast fyrir betra samfélagi á hverjum degi. Allt frá því að vakta hjálparsíma Rauða krossins, yfir í það að handsama villiketti, fólk er úti um allt að gera sitt besta til að gera samfélagið betra. Þrátt fyrir einstaklingshyggju.

Við þurfum stjórnmálafólk og stjórnmálahreyfingar sem tala fyrir samfélaginu og þeim krafti sem í því býr. Það gerum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hér í þinginu og í aðdraganda kosninga. Það er okkar erindi.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra VG

Alþingi, miðvikudagskvöldið 11. september 2024, undir stefnuræðu forsætisráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search