Search
Close this search box.

Rafmagnað Grænland og Ísland?

Deildu 

      

Óvarlegt tal um raforkuframleiðslu á Grænlandi og Íslandi er áberandi um þessar mundir. Heilabrot um orkugetu og hugmyndir um löndin tvö sem einhvers konar raforkuforabúr handa Evrópu eru í forgangi. Rætt frjálslega er um fallvatnsorku í miklum orkubanka, einkanlega Grænlands, og nauðsyn þess að tengja Grænland við Ísland með raforkusæstrengjum sem lægju til meginlandsins um Færeyjar. Iðulega er farið út um alla móa í tali um raforkuframleiðsluna og orkuflutninginn og dregnar upp vafasamar sviðsmyndir. Vert er að skoða nokkrar staðreyndir.

Staðreyndir um Austur-Grænland

Fyrst af öllu verður að horfa til landslags og staðhátta á Grænlandi. Hálf austurströndin, frá Hvarfi (60°breiddargr.) allt norður fyrir Scoresbysund (nál. 70°) er afar hálend, mjög vogsskorin og með fjölmörgum skriðjöklum sem kelfa í flesta firðina, bæði úr stóra jökulhvelinu og miklu minni alpajöklum. Byggðahverfi er á móts við Vestfirði (Tasiilaq og nágrenni) og lítið þorp stendur nyrst við mynni Scoresbysunds (Ittoqqortoormiit), 840 km norðar í fluglínu. Við Tasiilaq er 1,2 MW vatnsaflsvirkjun en norðurfrá treysta menn enn á jarðefnaeldneyti.

Hvað sem hopi jökla líður er ekki ekki fyrirsjáanlegt að raforkuver (fallvatns- eða vindorkuver) er falla að ofurhugmyndum, sem viðraðar eru, rísi á Austur-Grænlandi á næstu áratugum. Engar alvöru áætlanir eru til um slíkt. Aftur á móti er mögulegt og brýnt að styrkja byggðirnar á smáum skala, a.m.k. fyrst um sinn, með vind- eða vatnsaflsverum til heimabrúks. Norðan við Scoresbysund er stærsti þjóðgarður heims. Ólíklegt er að þar rísi raforkuver sem eigendur vildu tengja Íslandi neðansjávar.

Staðreyndir um Suður- og Vestur-Grænland

Íslaust land á Grænlandi er aðeins rúmlega fjórum sinnum flatarmál Íslands. Stór hluti þess er á vesturströndinni, frá Nanortalik í suðri til Upernavik í norðri, og annar stór hluti innan þjóðgarðsins á norðausturströndinni. Yfirbragð strandlengjunnar vestanmegin er heldur mýkra en handan Grænlandsjökuls.

Fjögur af fimm vatnsaflsorkuverum Grænalands eru á vesturströndinni. Afl þeirra samtals er rúmlega 80 MW, þ.e. mun minna en t.d. afl Sultartangavirkjunar (120 MW). Búið er að kanna allt að 16 virkjunarstaði frá suðvestasta hluta landsins norður undir 70°. Þá er tekið tillit til aðstæðna bæði undir virkjanirnar og flutningsleiðir frammi fyrir ítrustu orkugetu frárennslis frá jöklum. Það er í heild margfalt meira en hægt er að virkja, líkt og varmaaflið undir Íslandi eða orkugeta alls frárennslis íslenskra jökla. Listinn er vel tæmandi. Niðurstaðan er þessi: Unnt er að framleiða 14 TWh með vatnsafli vestan megin á Grænlandi ef öllu er tjaldað til. Núna er heildarframleiðslan hjá okkur um 20 TWh, og þá með fallvatnsafli og jarðvarma. Vindorka er hér veruleg en koma þarf böndum á alls kyns áætlanir og hugmyndir er varða hana sem allra, allra fyrst. Í Noregi er hún rúm 150 TWh með fallvatns- og vindafli.

Til hvers?

Af sjálfu leiðir að t.d. 500 til 1.000 MW rafafl sem væri til reiðu úr t.d. helmingi umræddra 16 vatnsaflsvirkjana færi langt fram úr notkunarþörfum Grænlendinga sjálfra. Fjórar notkunarleiðir koma til greina: Orkufrekur málmiðnaður (sbr. Ísland), stórfelld námuvinnsla, útflutningur um rafstreng til Norðaustur-Kanada (Nunavut) og framleiðsla rafeldsneytis

(m.a. vetnis) til orkuskipta heima fyrir og að hluta til útflutnings. Grænlendingar hafa réttilega tekið fyrir leit að og vinnslu á jarðefnaeldsneyti, ef það fyndist í nægu magni.

Hér verður ekki fjallað um gagnsemi þessara leiða. Einungis minnt á að endurvinnsla og hringrásarhagkerfi eru þau spor framtíðar sem við verðum að feta, þó svo nývinnsla málma og sjaldgæfra jarðefna þurfi að fylgja að vissu marki – en þá þannig að sá hlutur minnki með áratugunum. Grænlendingar horfa fast á undirstöður pólitísks og efnahagslegs sjálfstæðis

og ræða framtíðina í sömu andrá og auðlindastefnu. Samvinna Íslands og Grænlands verður, hvað sem öllum verkefnum líður, að hvíla á samvinnu og gagnkvæmri virðingu og hagsmunum, svo ekki sé minnst á lykilatriðið: Sjálfbærni. Þá er vert að muna að námuvinnsla er aldrei sjálfbær en í ýmsum tilvikum nauðsynleg og þá með ítrustu umhverfisvernd og endurnýtingu efna að leiðarljósi.

Vindorka kemur til greina

Vindorka á sér framtíð á Grænlandi. Í litlum en mikilvægum mæli austan megin. Vestan til er unnt að staðsetja 50-200 MW vindmyllusamstæður þar sem land hentar vegna veðurfars og raforkuflutnings. Það verður afar seint í stórum stíl en gæti hentað þar sem orkuþörf er veruleg. Líklegast er að vindraforka verði nýtt staðbundið til þess að útvega byggðum og fyrirtækjum græna orku þar sem t.d. fallvatnsorka er of dýr eða fjarlæg, m.a. til húshitunar og framleiðslu staðbundins rafeldsneytis og til útflutnings ef það reynist samkeppnishæft. 

Veðurfar er breytilegt eftir stöðum á Grænlandi; sums staðar er hægviðri algengt og þá þarf að vera unnt að geyma raforku. Sums staðar eru fallvindar ofan af Grænlandsjökli nokkuð algengir en þeir geta náð stykleika fellibylja, sem kunna að ógna vindrafstöðvum.

Og hvað svo á norðurslóðum?

Auðvelt er að fara stórum orðum um mikilvægi norðurslóða í væðingu grænnar orku annars staðar en þar. Í raun er þó margs að gæta. Jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar á þar við að fullu. Nýting raforku heima fyrir með tilheyrandi nýsköpun og vöruútflutningi varðar milljónirnar fjórar, sem þar búa, miklu. Það á svo sannarlega einnig við um útflutning á rafeldsneyti (á viðráðanlegu verði) fremur en útflutning á hlutfallslega dýrri raforku um langa sæstrengi á miklu hafdýpi og í skriðuhalla landgrunna. Enn er allmikið rými til undir vindorkuver á meginlandi Evrópu og undan ströndum grunnra innhafa álfunnar. Sama á við um sum landsvæði á norðlægum víðáttum Kanada og Rússlands. Alaska getur sinnt sínum orkuskiptum með vind-, fallvatns- og jarðvarmaorku. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland eru nú þegar hluti evrópska orkunetsins og þróa sínar lausnir.

Alldýrar ölduvirkjanir eru ekki óhugsandi á úthöfum þegar fram líða stundir og nýsköpun í orkuvinnslu og við endurvirkjun geislavirkra efni útiloka ekki aukna notkun þeirra á þessari eða næstu öld. Höldum okkur við staðreyndir og flóknar myndir af úrlausnum í orkumálum heimsins

Ari Trausti Guðmundsson er fyrrum formaður þingmannanefndar norðurslóða á Alþingi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search