Search
Close this search box.

Rafvæðing hafna fyrir loftslagið

Deildu 

Stigin voru stór og mikilvæg skref í þágu loftslagsmála þegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið úthlutaði 210 milljónum króna í styrki til rafvæðingar hafna á dögunum, á tíu stöðum á landinu.

Með rafvæðingu hafna má nefnilega draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í landlegu.

Hæsta styrkinn hlutu Faxaflóahafnir, þar sem taka á í notkun háspennibúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík. Þannig munu flutningaskip Samskipa og Eimskipa geta tengst rafmagni í landi í stað þess að keyra ljósavélar sínar með olíu. Um er að ræða samstarfsverkefni Faxaflóahafna, Veitna og ríkisins, sem hvert um sig leggja til 100 milljónir króna í verkið, en skipafélögin gera nauðsynlegar breytingar á skipum sínum á eigin kostnað. Áætlað er að þessi áfangi rafvæðingar Faxaflóahafna geti dregið úr losun frá hafnarsvæðunum um 20% og komið í veg fyrir bruna á um 660.000 lítrum af olíu á ári. Það jafngildir árlegum útblæstri á að giska 660 fólksbíla.

Bætum loftgæði í leiðinni

Rafvæðing hafna stuðlar ekki síður að bættum loftgæðum, rétt eins og reglugerðarbreyting sem gekk í gildi um síðustu áramót hefur gert, þar sem girt var fyrir notkun svartolíu innan landhelgi Íslands, nema hún sé hreinsuð niður fyrir viðmiðunarmörk. Svartolía mengar nefnilega meira en annað eldsneyti. Með því að banna hana og styrkja síðan hafnir um allt land til rafvæðingar flýtum við fyrir innreið orkugjafa framtíðarinnar og drögum úr loftmengun í leiðinni.

Tæpar 44 milljónir króna renna til orkuskipta í Akureyrarhöfn, þar sem setja á upp háspennutenginu fyrir flutningaskip og minni skemmtiferðaskip við Tangabryggju. Á Seyðisfirði á að setja upp búnað svo Norræna geti tengst rafmagni þegar hún liggur við landfestar. Ætla má að það muni stórbæta loftgæði og draga úr hávaðamengun fyrir Seyðfirðinga, t.d. yfir vetrartímann þegar Norræna liggur við bryggju í nokkra daga í einu. Þá voru einnig veittir styrkir til orkuskipta í höfnum í  Dalvíkurbyggð, Fjarðabyggð, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Snæfellsbæ, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.

Tveggja milljarða innspýting í umhverfismál

Úthlutun styrkjanna er hluti af viðbragði stjórnvalda við áhrifum kórónuveirunnar á efnahagslífið. Með því að styrkja ofangreind verkefni er flýtt fyrir því að þau komist til framkvæmda og stuðlað að minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma skapast störf.

Þannig munu tveir milljarðar króna renna aukalega á þessu ári til verkefna á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, þar af meira en hálfur milljarður til loftslagsmála. Fjárframlög til umhverfismála hafa raunar aldrei verið meiri en í tíð þessarar ríkisstjórnar, en þau hafa aukist um 32% miðað við upphaf kjörtímabilsins, að ótöldu viðbótarfjármagni ársins í ár. En lengi má gott bæta og sem umhverfisráðherra legg ég mikla áherslu á að viðspyrna Íslands í kjölfar COVID-19 verði með grænum og loftslagsvænum formerkjum. Þess vegna verður viðbótarfjármagninu til loftslagsmála nú varið í verkefni sem stuðla að hröðun orkuskipta og aukinni kolefnisbindingu. Rafvæðing hafna er þar umfangsmesta verkefnið.

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search