PO
EN

Reglugerð um bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir reglugerð um hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi, sem í raun bannar notkun svartolíu innan hennar. Bannið er meðal annars liður í að framfylgja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem og stjórnarsáttmála.

Svartolía er meðal annars notuð í skipasiglingum og mengar meira en annað eldsneyti. Þegar hún brennur losnar mikið af sóti úti í andrúmsloftið. Svartolía er í raun samheiti yfir þungar og seigar olíur sem eru með ákveðna eiginleika og geta innihaldið hátt hlutfall brennisteins.

„Með þeim breytingum sem ég hef nú skrifað undir verður Ísland með einar ströngustu kröfur í heimi hvað varðar svartolíu,“ segir Guðmundur Ingi.

„Sambærilegar kröfur munu gilda um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti í íslenskri landhelgi og nú gilda á svokölluðum ECA-svæðum í Eystrasalti og Norðursjó þar sem kröfurnar eru strangastar. Þar er um ákveðin svæði að ræða en hér á landi látum við reglurnar ná til allrar landhelginnar.“

Um er að ræða breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Auk tilætlaðs ávinnings fyrir loftslagið er breytingunni ætlað að stuðla að betri loftgæðum við strendur Íslands og hvetja til notkunar á loftslagsvænni orkugjöfum á skipum.
Með breytingunum verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti á Íslandi einungis 0,1% innan landhelginnar og á innsævi, það er einnig í fjörðum og flóum. Leyfilegt innihald er í dag 3,5%.

Breytingarnar taka gildi 1. janúar n.k. og sama dag taka þær breytingar gildi að innan mengunarlögsögunnar en utan landhelginnar mun leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka VI í MARPOL-samningnum sem Ísland fullgilti í febrúar 2018.

Til samanburðar var brennisteinsinnihald í svartolíu sem var markaðssett hér á landi árið 2017 á bilinu 0,64-1,94% en meðaltalið á heimsvísu samkvæmt gögnum frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) var 2,59%.

Breytingarnar hafa í för með sér að notkun svartolíu í landhelgi Íslands er útilokuð, nema skip noti viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs.

Í reglugerðinni er veitt heimild til 1. september 2020, til að klára ónýttar birgðir af skipaeldsneyti með hærra brennisteinsinnihald sem eru til staðar í brennsluolíutönkum skipa við gildisstöku reglugerðarinnar. Skilyrði fyrir því er þó að útgerð skips tilkynni til Umhverfisstofnunar fyrir 1. janúar 2020 um hvert það skip sem nýta skal heimild fyrir og hvert uppsafnað magn skipaeldsneytis á olíutönkum skipanna er.

Drög að reglugerðinni voru kynnt fyrr á þessu ári og haft var samráð við hagsmunaaðila og aðra við setningu hennar.

Spurt og svarað um svartolíu og reglugerðarbreytingu sem bannar notkun hennar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search