Search
Close this search box.

Réttindi barnungra mæðra

Deildu 

Samkvæmt barnaverndarlögum erum við börn til 18 ára aldurs og eiga börn rétt á vernd og umönnun og skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Stúlkur sem ekki eru orðnar 18 ára og eignast börn eru því ennþá sjálfar börn samkvæmt skilgreiningu. Þungun barnungrar stúlku hefur langvarandi afleiðingar á líf hennar, jafnt heilsufarslega, félagslega og fjárhagslega.

Áfallinu sem ég varð fyrir þegar ég varð ólétt, ný­orðin 14 ára, er ekki hægt lýsa með orðum. Ótti, afneitun, einmanaleiki og ráðaleysi er blanda tilfinninga sem nær þó ekki utan um tilfinningalegt ástand mitt á þeim tíma. Þegar árin líða og ég horfi til baka til þessa erfiða tíma situr mjög í mér hversu mikið ráðaleysi og óöryggi var bæði í heilbrigðiskerfinu og hinu félagslega kerfi þegar þessar aðstæður komu upp og ekki síst hversu lítið vald ég hafði yfir eigin lífi og ákvörðunum er vörðuðu mig og barnið. Þó allnokkur ár séu síðan frumburður minn fæddist þá hefur því miður lítið breyst þegar kemur að réttindum barnungra mæðra og skortur er á stuðningi og sérstakri umönnun.

Á Norðurlöndunum eru barnungar mæður í sérstöku eftirliti enda sýna rannsóknir að aukin áhætta er bæði á meðgöngu, við fæðingu og ekki síst í kjölfar fæðingar og því rík þörf á sérstakri umönnun og stuðningi við þessar aðstæður.

Ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir á Alþingi er varða stöðu ungra mæðra, aðra til heilbrigðisráðherra er varðar sérhæfðan stuðning og hina til félags- og vinnumarkaðsráðherra er varðar félagslegan og fjárhagslegan stuðning til mæðra undir 18 ára. Þó að þungunum ungra stúlkna hafi sem betur fer fækkað hérlendis á undanförnum árum er mikilvægt að hér sé kerfi sem grípur stúlkur þegar þessar aðstæður koma upp og það er á ábyrgð samfélagsins að þær njóti verndar og umönnunar í samræmi við aldur sinn og stöðu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search