Search
Close this search box.

Réttlæti í umdeildu kerfi

Deildu 

Í aðgengi að fiski­stofn­um lands­ins, auðlind­inni okk­ar, eru fólg­in mik­il verðmæti. Í heimi sem kall­ar á mat, heimi þar sem sí­fellt fleiri munna þarf að metta eru sterk­ir stofn­ar af nytja­fisk­um auðlind sem sí­fellt verður verðmæt­ari. Hluta af þess­ari auðlind hef­ur Alþingi ákveðið að ráðstafa til byggða- og at­vinnu­mála. Greitt er fyr­ir þessi verk­efni, ekki með pen­ing­um, eins og í flest­um öðrum verk­efn­um rík­is­ins, held­ur með afla­marki, oft­ast í þorski. Ég tel að taka þurfi umræðu um þessi verk­efni og hvort sú sneið auðlind­ar­inn­ar sem á hverju ári er ráðstafað til þeirra sé nógu stór. Á vett­vangi stjórn­mál­anna er verðmæt­um skipt og gjarn­an er deilt um með hvaða hætti það er gert.

Fyr­ir upp­haf nýs fisk­veiðiárs hverju sinni gef­ur ráðherra út reglu­gerð sem seg­ir til um hversu mik­inn fisk má veiða úr hverj­um stofni og hvernig hon­um skuli ráðstafað. Sú stærð sem mestu ræður er leyfi­leg­ur há­marks­afli, en þar hyggst ég fara að ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar sem legg­ur til sam­drátt fyr­ir næsta fisk­veiðiár. Ég tel að sjáv­ar­út­veg­ur­inn í heild muni ráða við þá áskor­un þó að vissu­lega komi sam­drátt­ur mis­jafn­lega við út­gerðir lands­ins.

Einn tutt­ug­asti er ekki nóg

Við afla­út­hlut­un er rúm­lega einn tutt­ug­asti hluti heild­arafl­ans tek­inn frá til hins svo­kallaða 5,3-kerf­is. Það eru öll at­vinnu- og byggðaverk­efni á veg­um rík­is­ins. Byggðakvóti sveit­ar­fé­laga og Byggðastofn­un­ar, línuíviln­un, skel- og rækju­bæt­ur, frí­stunda­veiðar og síðast en ekki síst strand­veiðar. Lang­stærsti hlut­inn, eða nítj­án tutt­ug­ustu hlut­ar, renn­ur í „stóra kerfið“, sem er krókafla- og afla­marks­kerfi og er út­hlutað á skip. Þessi hluti afl­ans er veidd­ur af mörg hundruð skip­um í eigu ým­issa út­gerða. Mest af stór­um en minnst af smá­um.

Ýmsar skoðanir eru á því hvernig þessi skipt­ing á að vera, milli þess hluta auðlind­ar­inn­ar sem ráðstafað er til verk­efna sem Alþingi kveður á um, byggða og at­vinnu­verk­efna og þeirra sem veidd­ur er af út­gerðunum. Sum vilja þenn­an fé­lags­lega hluta kerf­is­ins sem minnst­an eða eng­an og láta önn­ur sjón­ar­mið ráða ríkj­um. Mín póli­tíska afstaða er sú að fé­lags­legi hlut­inn sé of lít­ill og að hann þurfi að stækka í hóf­leg­um skref­um. Enda hef­ur það verið stefna Vinstri-grænna í lengri tíma. Sú ákvörðun er hins veg­ar ekki tek­in af öðrum en Alþingi þar sem það er á valdi lög­gjaf­ans að ákv­arða það með lög­um hvernig við skipt­um auðlind­inni.

Orð eru til alls fyrst og tel ég mik­il­vægt nú þegar far­in er af stað um­fangs­mik­il og metnaðarfull stefnu­mót­un í sjáv­ar­út­vegi að í stað þess að ræða stærð ein­stakra hluta eða potta ræðum við um skipt­ingu auðlind­ar­inn­ar í heild. Hvernig auðlind­inni er ráðstafað og hvernig við tryggj­um rétt­læti, hag­kvæmni veiða og þjóðar­hag sem best.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search