Námslánakerfi eru eitthvert mikilvægasta félagslega jöfnunartæki samtímans. Með námslánum reynum við að gera fólki fært að leita sér menntunar óháð efnahag og félagslegri stöðu. Þær kröfur sem gera verður til námslánakerfa eru tvíþættar: að þau tryggi námsfólki næga framfærslu til að þau geti einbeitt sér að náminu og að endurgreiðslubyrðin sé ekki slík að viðskiptavinir lánasjóðsins reisi sér hurðarás um öxl.
Lengi vel var sú krafa gerð til þeirra sem sóttu um námslán að þau öfluðu sér ábyrgðarmanna fyrir skuldinni. Mörgum reyndist erfitt að afla slíkra ábyrgða eða þungbært að leggja slíkar kvaðir á herðar ástvina eða kunningja. Það var því stórt skref í átt til jöfnuðar þegar ábyrgðarmannakerfið var aflagt á nýjum námslánum í menntamálaráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur í vinstristjórninni 2009-2013.
Fáum mun í dag koma til hugar að hverfa aftur til fyrra kerfis þar sem þriðja aðila var blandað inn í skuldamál námslánaþega. Ekki var hróflað við þeim ábyrgðum sem hvíldu á eldri námslánum og eftir því sem lengri tími leið frá kerfisbreytingunni varð misræmið í stöðu nýrri og eldri viðskiptavina Lánasjóðsins augljósara. Við löngu tímabæra endurskoðun námslánakerfisins árið 2020, þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna varð að Menntasjóði námsmanna, var sú nýbreytni tekin upp að hluti námslána varð styrkur, auk þess var stigið það mikilvæga skref að fella niður ábyrgðir á þeim eldri lánum sem væru í skilum. Bölsýnisspár sögðu að þessi breyting myndi valda sjóðnum búsifjum með stórauknum vanskilum en þær hafa ekki ræst.
Það sem út af stóð
Með nýju lögunum eru langflest námslán landsmanna nú án ábyrgðarmanna. Eftir standa þau lán sem ekki voru í skilum. Ótal ástæður kunna að vera fyrir þeim vanskilum og eru mörg sorgleg dæmi um fólk sem hefur orðið illa úti vegna þessa. Umboðsmaður skuldara, Ásta S. Helgadóttir, hefur á síðustu dögum bent í ræðu og riti á óréttlætið sem hlotist getur af þessum síðustu eftirhreytum gamla ábyrgðarmannakerfisins sem og vegna sérreglna sem gilda um námslán, til að mynda að þau séu undanskilin fyrningarfresti við gjaldþrot og að örorkulífeyrisþegar geti ekki fengið námslánaskuldir niðurfelldar heldur þurfi að sækja um árlegar undanþágur út í hið óendanlega.
Ásta bendir á að ekki sé ljóst hvort lánþegar og ábyrgðarmenn lána sem ekki voru í skilum við sjóðinn við gildistöku laganna hafi verið upplýstir með fullnægjandi hætti um að ábyrgðarskuldbindingar yrðu felldar niður ef vanskil væru gerð upp. Þá veltir hún því fyrir sér hvort eðlilegt sé að stofnun á borð við Menntasjóð námsmanna nýti sér þjónustu lögmanna og innheimtufyrirtækja í stað þess að hafa innheimtuna alfarið á forræði opinberra aðila.
Hver er staðan í dag?
Fyrr í vetur beindi ég fyrirspurn til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um hver væri heildarupphæð þeirra ábyrgða sem enn hvíla á námslánum, hversu háar greiðslur sjóðurinn hefði fengið frá ábyrgðarmönnum vegna gjaldfallinna námslána á árinu 2021 og til hvers konar aðfararaðgerða sjóðurinn hefði gripið gagnvart ábyrgðarmönnum frá því að hin almenna niðurfelling var lögfest. Svörin við þessum spurningum eru í vinnslu.
Ég þakka Umboðsmanni skuldara fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga réttlætismáli og benda á veikleika í löggjöfinni sem mikilvægt er að taka á. Umboðsmaður bendir á að við setningu laganna árið 2020 hafi verið samþykkt að ráðast skyldi í endurskoðun að þremur árum liðnum. Nú er tímabært að bretta upp ermarnar og gera gott kerfi betra.
Steinunn Þóra Árnadóttir, alþingismaður í Reykjavík.