Search
Close this search box.

Reynsla af einu leyfisbréfi kennara

Deildu 

Nú í vikunni lagði ég fyrir Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fyrirspurn á Alþingi þar sem bráðlega verða liðin þrjú ár síðan lög um eitt leyfisbréf kennara þvert á leik-, grunn- og framhaldsskóla voru samþykkt. Frumvarpinu var ætlað að stuðla að öflugri skólaþróun, aukinni starfsánægju og styðja við nýliðun í kennarastétt. Einnig var gert ráð fyrir því að jákvæðar breytingar yrðu á flæði kennara á milli skólastiga, í því fælist hvatning til starfsþróunar og það stuðlaði að starfsöryggi kennara.

Þegar ráðist er í svo viðamiklar breytingar á starfsmöguleikum kennara er nauðsynlegt að fylgja þeim eftir og gera úttekt á hvort þær breytingar hafi skilað tilætluðum árangri eða hvort þurfi að fara í frekari aðgerðir til að ná þeim fram. Eins er mikilvægt að skoða hvort það er halli á eitt skólastig fremur en annað þegar kemur að flæði kennara á milli skólastiga og síðast en ekki síst þarf að hafa gott samráð við kennara og skólastjórnendur.

Það liggur ljóst fyrir að af skólastigunum þremur er leikskólastigið það stig sem er viðkvæmast þegar kemur að mönnun og þrátt fyrir ýmis úrræði hefur víða gengið erfiðlega að manna leikskóla með menntuðum kennurum. Staðan í dag er sú að það vantar um 1.500 leikskólakennara til starfa á landinu og hlutfall faglærðra leikskólakennara er mjög lágt í sumum sveitarfélögum.

Hverri kynslóð fylgja nýjar áskoranir og skólakerfið þarf að vera í stöðugri þróun. Í þeim öru samfélagslegu breytingum sem við lifum eru kennarar, ekki síst, þeir sem þurfa að vera á tánum og þurfa sífellt að auka við færni sína til að mæta breytilegum aðstæðum. Það er hlutverk okkar alþingismanna að standa vörð um starfsöryggi og starfsþróun kennara og sjá til þess að veigamiklar breytingar sem gerðar hafa verið á umgjörð kennarastarfsins óháð skólastigum standist skoðun.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search