PO
EN
Search
Close this search box.

Ríkisstjórn um vaxandi velsæld

Deildu 

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa gert með sér nýjan sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf. 

Sáttmálinn fjallar um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar þar sem birtast leiðarstef flokkanna um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Tekist verður á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði og í þeirri trú að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags. 

Ný ríkisstjórn ætlar að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og byggja upp styrk ríkisfjármálanna á ný á grundvelli öflugs atvinnulífs. Áhersla verður lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar, þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika í verðlagi og vöxtum. 

Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Tekist verður á við það verkefni að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða. 

Ný ríkisstjórn ætlar að fjárfesta í fólki. Áhersla er lögð á að einstaklingurinn sé hjartað í kerfinu og að öflugt velferðarkerfi sé undirstaða jöfnunar og tryggi að allir geti blómstrað. Áfram verður unnið að því að bæta afkomu eldra fólks, og sérstaklega horft til þeirra ellilífeyrisþega sem lakast standa. Unnið verður að því að tryggja betur fjárhagslega stöðu barnafólks í gegnum skatta og bótakerfi og verður sérstaklega hugað að því að efla barnabótakerfið. 

Hér er hægt að lesa stjórnarsáttmálann

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search