Mislingar hafa greinst á Íslandi. Vágestur sem reyndist skæðari en spánska veikin svokallaða lætur á sér kræla. Ekki kæmi á óvart að Morgunblaðið fylltist af því tilefni af greinum sem mæla gegn bólusetningum. Áberandi hefur verið um nokkurt skeið að stundaður hefur verið innflutningur á menningarstríðum sem víða geisa erlendis. Þar í flokki eru samsæriskenningar um óræðar hættur sem steðji að lýðræðinu vegna framsals fullveldis til alþjóðastofnana eða vegna alræðis embættismanna innlendra sem erlendra. Og svo alþjóðlega bólusetningarsamsærið.
Jarðvegurinn fyrir ágreiningsmál af þessu tagi hefur hingað til verið snauður á Íslandi. Varnarlínan hefur að mínu mati legið í frjálslyndum viðhorfum Íslendinga almennt og í tungumálinu sjálfu. Það er einfaldlega innilega hallærislegt að æsa sig yfir pólitískum rétttrúnaði eða samkennd almennings eins og gengur og gerist í stærri þjóðfélögum. Íslenskur málheimur hefur ekki tekið við slíku innfluttu góssi hingað til. Þó er nú eins og þrotlaust sáningarstarfið sé ekki að falla í eins grýtta jörð og áður.
Ástæða er til að slá varnagla við tilhneigingum til þess að flytja inn erlend menningarstríð. Leiðarahöfundar Morgunblaðsins mættu til að mynda hugleiða þá staðreynd að afleiðing menningarstríða okkar tíma er sjaldnast sú að talsmenn klassískra frjálslyndra og íhaldssamra gilda standi uppi sem sigurvegarar í þeim. Miklu fremur eru þau uppspretta skautunar, heiftar og æsingamennsku á ystu jöðrum stjórnmálanna á kostnað sígildra lýðræðishefða.
Orkusóun í fánýt stríð
Er það til dæmis skynsamlegt að gera tilraun til þess að þröngva frumvarpi forsætisráðherra um mannréttindastofnun inn í farveg menningarstríðs? Við samþykktum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir átta árum og þar er beinlínis gert ráð fyrir að til staðar sé stofnun sem geti bent á það þegar hið opinbera er að brjóta á mannréttindum fólks. Slíka stofnun skortir og kostar 44 milljónir skv. frumvarpi. Næg fordæmi eru úr nútímasögu Íslendinga sem sýna fram á nauðsyn þess að vernda einstaklinga gagnvart ofbeldi af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Nægir að nefna í þessu samhengi illa meðferð á dvalarheimilum og meðferðarstofnunum sem verið er að gera upp þessi misserin.
Það kann að vera að einhverjir sjái tækifæri í þessu til að gera sig gildandi í innfluttu og ímynduðu menningarstríði. En vera kann líka að það komi þeim í koll. Það er nefnilega engin einföld leið til að ljúka menningarstríðum þegar þau á annað borð eru hafin. Það geta orðið þrjátíu ára eða hundrað ára stríð. Og verið til óþurftar með því að sóað er mikilli orku í fánýta hluti þegar næg tilefni eru til þess að ræða það sem til framfara og heilla horfir.
Kári Gautason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs