Hvað verður um allan úrganginn úr atvinnustarfsemi og frá heimilum landsins? Þegar einhverju er „hent í ruslið“, hverfur það sjónum okkar flestra. Eftir það hefst ferli sem í mörgum tilvikum er skaðlegt umhverfinu þegar til lengdar lætur. Verulegar framfarir hafa engu að síður orðið í meðferð sorps og iðnaðarúrgangs. Hvað sem þeim líður er enn langt í land, einkum frammi fyrir loftslagsbreytingum og miklu umhverfisálagi stækkandi mannkyns og bólgnandi borga.
Hér á landi eru lausnir í förgun og endurnýtingu úrgangs ósamstæðar, reikandi og víða ófullnægjandi. Misöflug byggðasamlög gera þó sitt besta miðað við fjárhagsstöðu, þar af er Sorpa langöflugust, ein ágætlega nothæf sorpbrennsla er rekin á Suðurnesjum (Kalka) og nú stefnir í aukinn útflutning á flokkuðum úrgangi. Sums staðar, eins og í byggð Mosfellsbæjar næst á Álfsnesi, angrar lyktarmengun íbúa. Auk þess er annað fyrirtæki í greininni að koma sér fyrir á Esjumelum, nærri sömu byggð, með sína starfsemi. Fyrirhugaður, nýr urðunarstaður fyrir höfuðborgarsvæðið austanfjalls, verður ekki að veruleika. Sorp er áfram urðað á Álfsnesi samhliða því að ný og fullkomin jarðgerðar- og metanstöð tekur þar til starfa. Dæmið sýnir að ekki þarf mikla framsýni til að viðurkenna að taka verður samstillt á fyrirkomulagi sorpmála, og þá á landsvísu. Það gerist einna helst með öflugri aðkomu ríkisins í þéttu samkomulagi við sveitarstjórnarstigið og ýmis konar sérfræðinga sem hér starfa.
Nú sem stendur eru sveitarfélögin að reyna, vissulega full ábyrgðar, að samræma skipulag þessa málaflokks, en án nægilegrar aðkomu ríkisins. Sorpa getur að öllu óbreyttu ekki tekið við efni utan síns svæðis. Meðferð úrgangs verður sífellt meira ófullnægjandi eða lendir í biðstöðu víða um land. Meðal annars er úrgangi ekið langar leiðir, milli landshluta, nýir urðunarstaðir fást hvergi og brátt stefnir í að evrópskar reglugerðir leyfi ekki urðun lífræns úrgangs. Í miðju míns kjördæmis, á Suðurlandi, hefur úrgangur víða safnast fyrir til flutnings frá Þorlákshöfn til meginlandsins.
Flokkun úrgangs er lykilatriði í umhverfis- og loftslagsmálum; sjá t.d. flokkunarkerfi Sorpu.
En þá varðar öllu að flokkun leiði til endurvinnslu og endurnýtingar „ruslsins“ því það er lang stærstum hluta hráefni, hvort sem er t.d. pappír, plast, tré eða málmar. Mikið af hráefninu verður ekki endurunnið hér vegna smæðar samfélagsins og þar gildir þá að koma því í verjanlega nýtingu erlends; líka án hagnaðar, ef svo ber undir. Verjanlegt er að borga með förgun og endurnýtingu í sumum efnisflokkum. Rökin eru einföld: Mannkynið mun ekki komast upp með að endurnýta minna en 90% alls úrgangs, þar með talin jarðefni, ef á að vera lífvænlegt á plánetunni bláu.
Þá að mögulegum lausnum. Hvað umhverfismál varðar má einfaldlega úrskurða sem svo að sorpmeðferð telst ekki nægilega umhverfisvæn hér á landi og endurnýting ekki fullnægjandi. Miklu skiptir að svo sé og ekki hvað síst þegar horft er til ímyndar Íslands og stöðu loftslagsmála. Með jarðgerðar-/metan-stöð Sorpu er stigið stórt framfaraskref. Sams konar en minni stöðvar gætu verið ein helsta úrbót í sorpmálum utan svæðis Sorpu og burðarás landsskipulags úrgangsmála. Með þeim og söfnun metans úr stórum haugum er loftslagsmálum sinnt af ábyrgð.
Ég hvet til þess að ríkisstjórnin komi á fót verkefnahópi skipuðum fulltrúum ríkis og sveitarfélaga (t.d. landsamtaka/sambanda), og sérfræðinga. Verkefni hans til úttektar í þéttu samráði við lykilsveitarfélög gætu verð þessi, með skörpum skilafresti tillagna:
- Samræmt úrgangsflokkunarkerfi fyrir allt landið
- Skipting landsins í umdæmi samlags í hverju þeirra – flokkunaraðstaða til reiðu
- Flutningskerfi úrgangs innan hvers umdæmis – lágmörkun aksturs
- Endurvinnsla innanlands þar sem hentar – endurnýting efna
- Flutningur flokkað úrgangs til útlanda frá tilteknum höfnum
- Jarðgerð og metanframleiðsla í hverju umdæmi – eða sem næst því
- Brennsla úrgangs aðeins þar sem allra ítrasta þörf krefur – ein eða fleiri stöð
- Urðun óvirks úrgangs eingöngu – skylda í hverju umdæmi
Kostnaður við alla þessa iðju er og verður töluverður og í mörgum tilvikum umfram tekjur. Þess vegna þarf að koma til samkomulag ríkis og sveitarfélaga hvernig fjármálum skuli hagað í þágu umhverfis og íbúa. Vel má vera að hækkun gjalda þurfi að hluta til þess að málaflokknum sé borgið. Tel að koma verði meðferð úrgangs í fullnægjandi horf á tveimur til þremur árum í mesta lagi. Þangað til þarf að halda úti virku kerfi með bráðabirgðalausnum. Ég veit um þingmenn sem eru mér sammála í höfuðatriðum, nefni Bryndísi Haraldsdóttur úr Sjálfstæðisflokki í Suðvesturkjördæmi og Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Framsóknarflokki í Suðurkjördæmi.
Samhliða þessari lausn tel ég rétt að hyggja einnig vel að rökstuddum tillögum starfshóps sem hefur tekið saman skýrslu undir heitinu Sorporka. Hún felur (lauslega) í sér að tvö sérhönnuð gámaflutningaskip sigla hringinn í kringum landið og safna öllum flokkuðum, óvirkun úrgangi. Öllu brennanlegu sorpi er að skilað á valinn stað til sorpbrennslu- og orkustöðvar á köldu svæði (á Vestfjörðum í skýrslunni), endurnýtanleg efni og spillefni eru flutt út. Hátæknisorpstöðvar eru nú í rekstri, t.d. á Norðurlöndum og í Þýskalandi, og er gert ráð fyrir einni slíkri í lausn Sorporku. Til álita kemur hlutlægur samanburður á því sem stendur framar í greininni í átta liðum og hugmyndum Sorporku, bæði hvað mengunarspor varðar (losun lofttegunda og förgun ösku) og kostnað.
Fráveitumál þarf líka að taka betri tökum en gert hefur verið en það er önnur Ella.
Ari Trausti Guðmundsson er þingmaður VG i Suðurkjördæmi