PO
EN
Search
Close this search box.

Sameiginleg yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssamtaka lífeyrissjóða um viðbrögð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Deildu 

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. segir að stjórnvöld muni efna til virks samráðs við Samtök fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu. Síðan yfirlýsingin var gefin hefur útbreiðsla faraldursins verið hröð og fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að hefta hana. Þær aðgerðir hafa víðtæk áhrif á efnahagshorfur, allt atvinnulíf, heimili og einstaklinga.

Stjórnvöld hafa átt samráð við Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða um þá stöðu sem upp er komin og þau viðbrögð sem rétt er að grípa til í því skyni að milda áhrif á heimili og fyrirtæki. Er Samkeppniseftirlitið upplýst um það og gerir stofnunin ekki athugasemdir við að aðilar á lánamarkaði eigi með sér samstarf um undirbúning að samkomulagi um fyrirgreiðslur í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er. Slíkt samkomulag er þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Af þessu tilefni vilja ríkisstjórn Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða upplýsa um eftirfarandi:

  • Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða munu birta opinberlega samræmd viðmið um greiðslufresti á lánum og frekari fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli vegna faraldursins.
  • Ríkisstjórnin hefur leitað heimildar Alþingis til að veita fyrirtækjum í vanda viðbótarlán, í samstarfi við Seðlabanka Íslands. Kveðið verður á um nánari skilyrði og útfærslu þessa úrræðis í samningi við Seðlabankann, en því er ætlað að styrkja enn frekar getu lánastofnana til að mæta aðsteðjandi vanda.
  • Fyrirvaralítið tekjufall heimila skapar þeim vanda og mikla óvissu. Lánveitendur sem eiga aðild að Samtökum fjármálafyrirtækja eða Landssamtökum lífeyrissjóða munu bregðast við með úrræðum til að styðja við heimili sem eiga við greiðsluvanda að stríða. Vel verður fylgst með stöðu heimila og einstaklinga.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Guðrún Hafsteinsdóttir, f.h. Landssamtaka lífeyrissjóða.

Katrín Júlíusdóttir, f.h. Samtaka fjármálafyrirtækja.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search