Við þurfum að hafa fjölbreyttar leiðir í boði þegar kemur að námi barna og ungmenna og það kallar á öfluga sérfræðiþekkingu inn í skólana okkar. Barni sem líður illa gengur nefnilega erfiðlega að stunda nám. Bakslag í mannréttindabaráttu, umhverfis- og loftslagsmálum, aukið ofbeldi og skortur á samkennd og samábyrgð okkar á því sem er mikilvægt eru vísbendingar um að samfélaginu gangi ekki nógu vel að mennta börnin okkar og ungmennin til að takast á við áskoranir samtímans eða til framtíðar. Menntun gegnir því hlutverki að efla þroska, þekkingu, leikni og hæfni hvers barns til að öll geti verið þegnar í samfélagi sem er að taka örum breytingum. Hún er ekki afmörkuð stærð eða tala á matskvarða og engin ein leið er best til þess fallin að tryggja að öll nái árangri eða viðmiðum sem horft er til. Sérfræðingar í menntun eru dýrmæt auðlind sem tryggja þarf góð starfsskilyrði.
Hugmyndir barnanna sjálfra sem og ólík og fjölbreytt þekking eru afar mikilvægir þættir þegar kemur að þróun menntunar í takt við samfélagið og gildi þess hverju sinni. Nútímasamfélög eru allskonar og í þeim dafnar mismunandi menning og hefðir sem við verðum að taka með í reikninginn þegar umhverfi menntunar er rætt og þar eru fjölbreytni, skólaþróun og nýsköpun lykilþættir. Við þurfum að hlusta og ígrunda og bregðast við jafnóðum. Hlusta á raddir barna og ungmenna sem eru helstu sérfræðingar í eigin lífi.
Menntun er félagslega og menningarlega mikilvæg. Henni er best að sinna í hópi þar sem gagnrýnin hugsun, samábyrgð og fjölbreytileiki er til staðar og markmið eru persónubundin, fyrir hvern einstakling. Að hvert og eitt okkar nái aukinni þekkingu, leikni og hæfni út frá eigin áhuga, þroska og hæfileikum með fjölbreyttum stuðningi fagfólks og í jafningjahópum. Þess vegna er menntun samfélagsleg og á sér stað bæði í skólum og utan þeirra. Við berum öll ábyrgð á því að hlúa vel að hvoru tveggja. Í vaxandi samfélögum er mikilvægt að öll börn fái tækifæri til að fara í góða skóla með fagmenntuðu starfsfólki þar sem þörfum þeirra er mætt. Sá kraftur, orka og auðlind sem í kennurum felst er ekki óþrjótandi. Á þennan ofurkraft kennara hefur verið gengið á síðustu ár. Nú verðum við að rísa upp og sýna samábyrgð og vilja til þess að þessi mikilvægi hópur fái frið og sanngjörn laun til að sinna okkar allra dýrmætasta, börnunum okkar.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, kennari, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi