Search
Close this search box.

Samgöngusáttmáli er sáttmáli um gott samfélag

Deildu 

Miðvikudaginn 21. ágúst síðastliðinn urðu heilmikil tímamót fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu þegar endurskoðun samgöngusáttmálans var undirrituð af fulltrúum ríkis og sveitarfélaga á svæðinu. Samkomulagið felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og eflingu á almenningssamgöngum til ársins 2040. Við þingmenn höfuðborgarsvæðisins hljótum öll að fagna þessu samkomulagi sem mun gerbreyta samgöngum og verða gríðarleg bót fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins og raunar landið allt, nú og til framtíðar.

Fjárfesting í fjölbreyttum samgöngumáta er samfélagslega mikilvæg, ekki síst hvað félagslegan jöfnuð og loftslagsmál varðar – hvort tveggja málefni sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði leggjum mikla áherslu á.

Vissulega er samgöngusáttmálinn umfangsmikill og gerður til langs tíma en verkefnið er líka stórt. Í lifandi samfélagi kemst fólk auðveldlega á milli staða, líka þegar mörg eru á ferðinni á sama tíma. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað gríðarlega frá því að sáttmálinn var undirritaður fyrst eða um 84 íbúa á viku og á eftir að fjölga mikið á komandi árum. Heildarsýn þar sem horft er til framtíðar er því mikilvæg, okkur sjálfum og framtíðarkynslóðum til hagsbóta. Ekkert okkar vill eyða tíma sínum sitjandi fast í umferðarhnút. Með fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngum verður umferðin greiðari og öryggið eykst, hvaða ferðamáti sem notaður er.

Borgarlína mun binda hverfi borgarinnar betur saman og gera almenningssamgöngur að fýsilegum ferðamáta. Sýnin er skýr; í lok næsta áratugar eiga sjö af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins að geta gengið stutta vegalengd, aldrei meira en um 400 metra, í stoppistöð þar sem vagn kemur innan tíu mínútna. Tími okkar er verðmætur og þess vegna skiptir máli að stutt sé í næsta vagn.

Í samgöngusáttmálanum felst einnig stórt og mikilvægt skref þegar kemur að loftslagsmálum og samdrætti í losun kolefnis. Greiðari almenningssamgöngum, auk bættra aðstæðna gangandi og hjólandi vegfarenda, er ætlað að draga úr þeirri fjölgum einkabíla sem annars myndi verða. Frá því að sáttmálinn var undirritaður fyrst árið 2019 hafa 16 þúsund bílar bæst við umferðina en bílastæði fyrir allan þennan fjölda samsvara allt að 22 fótboltavöllum í fullri stærð. Við sáttmálann nú bætist framlag hins opinbera í fjárfestingu í orkuskiptum í almenningssamgöngum, þar sem vögnum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir hreinorkuvagna. Hér er því um veigamikla loftslagsaðgerð að ræða.

Á þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd má sjá að samgöngusáttmálinn gegnir stóru hlutverki í því að ná fram mikilvægum samfélagsbótum okkur öllum á höfuðborgarsvæðinu til heilla. Því fagnar VG.

Orri Páll Jóhannsson og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmenn VG í RVK suður og norður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 26.ágúst 2024

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search