EN
PO
Search
Close this search box.

Samningur um stóraukna heimahjúkrun í Reykjavík

Deildu 

Sjúkratryggingar Íslands og Reykjavíkurborg hafa gert með sér nýjan samning um heimahjúkrun í Reykjavík til fjögurra ára. Árlegur kostnaður við samninginn nemur um 2 milljörðum króna. Nýlega var gerður sérstakur samningur um rekstur öldrunarteymis sem sinnir sérhæfðri heilbrigðisþjónustu við aldraða í heimahúsum í Reykjavík. Við gerð hans tryggði heilbrigðisráðherra 150 milljónir króna á ársgrundvelli til reksturs teymisins og styrkingu innviða heimahjúkrunar. Þess er vænst að þjónusta teymisins bæti til muna þjónustu við aldraða í heimahúsum, fækki sjúkrahússinnlögnum og sé einnig til þess fallin að vinna gegn þeim vanda sem oft skapast á bráðamóttöku Landspítala þegar ekki er unnt að útskrifa fólk af sjúkrahúsinu að meðferð lokinni vegna skorts á úrræðum. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri staðfestu samninginn um stóraukna heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu með undirritun í ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Með samningnum tekur velferðarsvið Reykjavíkur að sér rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi allan sólarhringinn, kvöld og helgar í Mosfellsbæ og næturþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.

Nýi heildarsamningurinn um heimahjúkrun í Reykjavík byggir að meginstofni á fyrri samningi frá árinu 2016 sem felur í sér að Reykjavíkurborg annast rekstur heimahjúkrunar samhliða félagslegri heimaþjónustu sem myndar þannig eina heild gagnvart notendum þjónustunnar. Í samningnum er lögð áhersla á að efla getu heimahjúkrunar Reykjavíkur til að nýta velferðartækni í auknum mæli, samhliða því að fjölga vitjunum, auka sérhæfingu og veita þverfaglega heilbrigðisþjónustu í meira mæli til fólks í heimahúsum. Samningurinn öðlast gildi 1. janúar næstkomandi.

Vaxandi áhersla á teymisvinnu

Sérhæfð þjónusta á vegum heimahjúkrunar Reykjavíkur hefur verið aukin jafnt og þétt með aukinni áherslu á teymisvinnu. Þverfaglegt teymi sinnir endurhæfingu í heimahúsum með þátttöku iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, félagsliða og sjúkraliða, auk hjúkrunarfræðinga. Einnig er rekið sérhæft hjartabilunarteymi í samstarfi við göngudeild hjartabilunar á Landspítala. Markmið þess er að fækka komum einstaklinga með hjartabilun á bráðamóttöku, fyrirbyggja innlagnir og síðast en ekki síst að bæta líðan og auka lífgæði þessa hóps.

Sérhæfða öldrunarteymið SELMA

Nýja öldrunarteymið (SELMA) sem stofnað hefur verið með sérstökum viðaukasamningi Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar mun sinna þjónustu við aldraða í heimahúsum auk þess að veita starfsfólki heimahjúkrunar ráðgjöf og styðja þannig við störf þess. Sinnt verður vitjunum í heimahús alla virka daga milli kl. 13.00 og 17.00 og á þeim tíma verða hjúkrunarfræðingur og læknir á vakt. Fyrir hádegi virka daga milli kl. 9.00 og 13.00 mun teymið sinna símsvörun, bókunum og ráðgjöf. Samningurinn hefur þegar tekið gildi.

Enginn er eyland

„Ég er sannfærð um að ávinningurinn af þessum samningum verður mikill, jafnt fyrir notendurna sem þurfa á þjónustunni að halda og fyrir heilbrigðiskerfið sjálft, þar sem þetta eflir það og styrkir á öllum þjónustustigum. Enginn er eyland í þessum efnum, því það sem vel er gert á einum stað er til þess fallið að styrkja alla þjónustukeðjuna. Ég horfi ekki síst til Landspítala í þessum efnum þar sem mikið er í húfi að veita fólki góða þjónustu heima, fækka sjúkrahússinnlögnum og auðvelda útskriftir“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Erum stolt af þjónustunni

„Reykjavíkurborg er mjög stolt af þeirri heimahjúkrun og heimaþjónustu sem borgin sinnir. Okkar frábæra starfsfólk hefur ekki stigið feilspor við ótrúlegar aðstæður að undanförnu. Þessi nýi samningur er sérstakt fagnaðarefni því nú getum við eflt þjónustuna enn frekar. Faglegt bakland verður styrkt þannig að borgarbúar geta fengið heilbrigðisstarfsfólk heim í enn fleiri tilvikum en áður í stað þess að þurfa að leita á spítala. Þetta er því ótvírætt framfaraskref. Öflug og samþætt heimaþjónusta og heimahjúkrun er framtíðin“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search