Search
Close this search box.

Samræmt verklag fyrir þolendur heimilisofbeldis

Deildu 

Ég hef ákveðið að láta móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur hefur verið ráðin til að vinna verkefnið. Ákvörðun um að móta samræmt verklag hvað þetta varðar byggist á niðurstöðum skýrslu sem Finnborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði, vann fyrir heilbrigðisráðuneytið og felur í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónustan mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Þar segir m.a. að leggja þurfi mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda ofbeldis í nánum samböndum, skoða hvernig miðlun upplýsinga er háttað milli þjónustukerfa og mismunandi úrræða, auk þess sem byggja þurfi á þekkingu um valdaójafnvægi kynjanna og öðrum þáttum sem hafa áhrif á félagslega stöðu fólks og aðstæður

Í skýrslu Finnborgar kemur m.a. fram að ofbeldi í nánum samböndum hefur meiriháttar afleiðingar fyrir lýðheilsu og fyrir þátttöku kvenna í samfélaginu. Ofbeldi í nánum samböndum geti leitt til áverka, krónískra sjúkdóma, örorku og dauða, en rúmlega þriðjung morða á konum í heiminum má rekja til slíks ofbeldis. Ofbeldi í nánum samböndum getur haft alvarleg áhrif á andlega heilsu þolenda, s.s. þunglyndi, áfallastreituröskun og aðrar kvíðaraskanir. Jafnframt hefur heimilisofbeldi neikvæð áhrif á heilsu og líðan barna sem alast upp við slíkar aðstæður.

Í skýrslunni kemur líka fram að rannsóknir bendi til þess að tæplega fjórðungur kvenna á Íslandi hafi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann frá 16 ára aldri. Ofbeldið er falið vandamál og kemur sjaldan inn á borð heilbrigðisyfirvalda. Á árunum 2005 til 2014 voru komur kvenna á Landspítala vegna ofbeldis í nánum samböndum 1,69 fyrir hverjar 1000 konur 18 ára og eldri. Rúmlega þriðjungur þolenda hafði áður leitað til spítalans vegna ofbeldis í nánum samböndum. Fjöldi kvenna leita til Kvennaathvarfsins árlega. Rannsóknir meðal erlendra kvenna sem leitað hafa til Kvennaathvarfsins benda til þess að þær skorti upplýsingar um rétt sinn hér á landi og að gerendur hafi jafnvel notað sér þekkingarleysi þeirra. Sterkar vísbendingar eru um að ofbeldi í nánum samböndum hafi aukist í heimsfaraldri COVID-19.

Verkefni Drífu er sem fyrr segir að móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Við þessa vinnu verður haft samráð við heilbrigðisstofnanir, barnaverndaryfirvöld og lögreglu.

Þetta er að mínu mati sérstaklega mikilvæg vinna. Ég hef lagt áherslu á kvennaheilsu og heilsu út frá jafnréttissjónarmiðum í embætti og verkefnið sem ég hef fjallað um hér er sérstaklega mikilvægt í þeirri vinnu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search