Áramótin eru tími til að líta um öxl og fram á veginn – tímamót sem kalla fram ígrundun, lærdóma og nýja sýn. Fyrir Vinstri græn hefur árið 2024 verið ár áskorana og umbreytinga. Þótt leiðin hafi stundum verið brött undanfarin ár, minnir hún okkur á ástæðuna fyrir því að við tökum þátt í stjórnmálum: hugsjónin um að skapa réttlátara samfélag þar sem allir fá notið sín.
Árið sem var – umbreytingar og lærdómur
Árið 2024 markaði stór þáttaskil í sögu VG. Katrín Jakobsdóttir, sem leitt hafði flokkinn af festu og hugrekki í ellefu ár og ríkisstjórn í ríflega sex ár, ákvað í vor að stíga til hliðar til að bjóða sig fram til forseta. Á þeim tímamótum tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson tímabundið við forystu hreyfingarinnar og sinnti því verkefni af vandvirkni og einurð. Í október var svo haldinn aukalandsfundur þar sem ég naut þess heiðurs að vera kjörin formaður VG. Þetta var mikilvæg stund fyrir mig persónulega, og ég er óendanlega þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt af félögum mínum á landsfundinum. Mér var ljóst að staða okkar var alvarleg en landsfundurinn var sterkur, við sýndum samstöðu, grasrótin okkar styrkti sig, félagar sneru til baka og nýtt og öflugt fólk bættist í hópinn. Skömmu eftir landsfundinn var svo rofið þing og boðað til kosninga og lá fyrir að við hefðum skamman tíma til að stilla saman strengi og byggja upp skýran valkost fyrir kjósendur. Fylgið hafði verið lágt allt frá vordögum og undir 5% frá í mars og náði aldrei að rétta úr kútnum. Ástæðurnar eru margar og ólíkar. Ríkisstjórnin var orðin afar óvinsæl og allir flokkarnir þrír í þröngri stöðu. Mikið var fjallað um 5% mörkin í fjölmiðlum og ítrekað vorum við reiknuð út af þingi auk þess sem röddum sem fjölluðu um taktíska kosningu og hættu á að sóa atkvæði sínu óx ásmegin. En við þurfum líka að líta í eigin barm. Var samstarfið okkur of dýrkeypt? Tiltekin mál höfðu haft áhrif; salan á Íslandsbanka, breytingar á útlendingalögum og undir það síðasta einfaldlega samstarfið sem slíkt. Málefnalegur ágreiningur varð tíðari, óyndið hlóðst upp og hafði í raun verið vaxandi allan tímann og sífellt sýnilegra öllum. Ytri áskoranir höfðu líka áhrif; heimsfaraldur, eldhræringar, forsetaframboð, veikindi.
Þessi átök hafa verið bæði krefjandi og lærdómsrík, en þau hafa líka sýnt styrk og seiglu hreyfingarinnar okkar.
VG – hreyfing með skýra framtíðarsýn
Vinstri græn eru ekki bara stjórnmálaflokkur heldur félagslegt afl sem vill stuðla að varanlegum breytingum í þágu samfélagsins. Við höfum sýnt og sannað að með samstöðu, grasrótarstarfi og skýrri stefnu er hægt að ná miklum árangri. Eftir efnahagshrunið 2008 tók VG þátt í mikilvægri uppbyggingu sem skilaði samfélaginu á traustan grundvöll og skapaði nýtt pólitískt rými fyrir framtíðarlausnir í umhverfis- og velferðarmálum. Þessi saga endurspeglast líka í stórum skrefum á borð við setningu laga um þungunarrof árið 2019, sem tryggðu konum óskoraðan rétt yfir eigin líkama. Slíkir áfangar sýna hvers vegna VG er nauðsynlegur hluti af íslenskri stjórnmálasögu – og hvers vegna okkar hlutverk verður enn mikilvægara á komandi árum.
Framtíðaráskoranir – lausnir fyrir nýja tíma
Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum sem krefjast nýrra lausna: loftslagsbreytingum, tæknivæðingu og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.
- Loftslagsbreytingar: VG er og verður hreyfiafl loftslagsaðgerða. Við viljum tryggja að Ísland verði kolefnishlutlaust land með sjálfbæra nýtingu auðlinda, vönduð orkuskipti og stefnu sem styrkir tengsl manns og náttúru.
- Tæknivæðing: Samfélagið okkar tekur hröðum breytingum vegna tækniframfara. Við verðum að tryggja að tæknin þjóni almenningi, standi vörð um friðhelgi, varðveiti mennskuna og minnki félagslegan ójöfnuð.
- Aldurssamsetning: Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar verða áskoranir í velferðarkerfinu meiri. Við viljum efla heilbrigðisþjónustuna en ekki síður auka áherslu á forvarnir og jöfnuð og horfa til kynslóðasamstöðu sem tryggir fólki virðingu og réttlæti á öllum æviskeiðum.
Mikilvægi aðhalds við nýja ríkisstjórn
Árið 2024 færði þjóðinni nýja ríkisstjórn, í kjölfar kosninganna, sem nú hefur tekið við ábyrgðinni á að leiða Ísland áfram. Hlutverk VG í stjórnarandstöðu utan þings er að sjá til þess að þessi ríkisstjórn axli þá ábyrgð af festu og heiðarleika. Við munum sérstaklega veita aðhald í þremur lykilmálum:
- Umhverfis- og náttúverndarmál: Loftslagsbreytingar bíða ekki. VG mun halda áfram að þrýsta á um raunverulegar aðgerðir sem byggja á sjálfbærni og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Við munum krefjast þess að Ísland verði leiðandi í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Við munum jafnframt standa vaktina í þágu einstakrar náttúru landsins og verndar hennar.
- Friðarmál: Ísland á að vera rödd friðar og mannréttinda í heiminum. Við munum standa gegn því að hernaðarhyggja fái aukið vægi og krefjast þess að landið okkar sé áfram friðsamt athvarf þar sem lýðræði og mannréttindi eru í fyrirrúmi.
- Jöfnuður: Nauðsynlegt er að tryggja að efnahagsleg velsæld dreifist jafnt og réttlátlega. VG mun vera á varðbergi gagnvart stefnu sem dýpkar ójöfnuð og mun berjast fyrir réttindum þeirra sem standa höllum fæti.
Lærdómur og nýtt upphaf
Kosningaúrslit haustsins voru sár vonbrigði og áminning um að VG þarf að endurnýja tengsl sín við fólkið í landinu. Við heyrðum skýra kröfu um meiri nálægð við fólk, sterkari grasrót og skýrari framtíðarsýn. Þetta er verkefni sem við tökum alvarlega. Við munum efla tengsl við sveitarstjórnarfólkið okkar, skerpa á skilaboðunum og tryggja að stefna VG endurspegli þörf almennings fyrir breytingar. VG hefur aldrei haft það að meginmarkmiði að afla sér vinsælda heldur að taka ábyrgð og hafa áhrif – og sú hreyfing mun halda áfram að breyta samfélaginu til betri vegar með kjarki, samstöðu og framsýni.
Von, baráttuvilji og þakklæti
Ég vil loks þakka öllum sem hafa stutt VG á þessu krefjandi ári – hvort sem það hefur verið í kosningunum, með aðhaldi eða ábendingum. Sérstaklega vil ég þakka þeim sem hvöttu mig til að taka við formennsku. Sú hvatning hefur verið mér ómetanleg. Árið 2025 er ár vonar, endurnýjunar og nýrra tækifæra. Við munum axla ábyrgð á loftslagsmálum, leggja áherslu á félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og standa með þeim sem þurfa mest á samfélagslegum grunnstoðum að halda. Við viljum að Ísland verði áfram land vonar, jöfnuðar og réttlætis – og sjá til þess að VG haldi áfram að vera afl breytinga í átt að betra samfélagi. Megum við öll eiga farsælt nýtt ár, fullt af kærleika, samstöðu og von!
Gleðilegt ár!
Svandís Svavarsdóttir
Formaður Vinstri grænna