Search
Close this search box.

Sérhæfðum dagdvalarrýmum í MS-Setrinu fjölgað

Deildu 

Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja við MS-Setrið um aukna þjónustu við fólk með Parkinsonsjúkdóm. Miðað er við að dagdvalarrýmum með endurhæfingu fyrir þessa sjúklinga verði fjölgað um fimm til sex hjá Setrinu en þar er fyrir hendi mikil sérþekking í meðferð fólks með ýmsa taugasjúkdóma.

Þetta er þjónusta sem getur skipt sköpum fyrir þá sem hana fá, bætt lífsgæði þeirra og jafnframt aukið möguleika fólks á að búa heima sem að öðrum kosti gæti það ekki. Þetta er því mikilvæg viðbót í þjónustu við fólk með Parkinsonsjúkdóm og ánægjulegt að geta komið þessu til leiðar“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Setrið er dagþjónusta og endurhæfingarmiðstöð í MS-húsinu við Sléttuveg í Reykjavík. Þar er nú aðstaða til dvalar með endurhæfingu fyrir 40 einstaklinga í senn, en um 90 manns nýta sér þjónustuna í viku hverri. Þjónustan er ekki einungis bundin við fólk með MS-sjúkdóm, heldur er þar veitt  þjónusta sjúklingum með ýmsa aðra taugasjúkdóma, svo sem Parkinson og MND og einnig sjúklingum sem þarfnast endurhæfingar eftir heilablóðfall. Þeir sem eru í dagþjónustu í Setrinu eiga  þar kost á hjúkrun og umönnun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsráðgjöf, auk þátttöku í ýmsu félagsstarfi.

Fram hefur komið, m.a. af hálfu Landspítala, að mikilvægt sé að efla sérhæfða dagdeildarþjónustu fyrir fólk með parkinsonsjúkdóminn og Parkinsonsamtökin hafa undanfarin ár leitað leiða til þess að koma á fót slíkri þjónustu. Með þeirri fjölgun rýma sem nú hefur verið ákveðin við MS-Setrið er komið til móts við brýna þörf.

Meðhöndlun taugasjúkdóma eins og MS, MND og Parkinson krefst verulegrar sérhæfingar. Því felast mikil samlegðaráhrif í því að veita sjúklingahópunum sem hér um ræðir þjónustu á einum stað þar sem fyrir hendi er kunnátta og þekking á þessum sjúkdómum og hvernig mest megi mæta þörfum sjúklinganna og veita þeim viðeigandi þjónustu og stuðning.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search