Search
Close this search box.

Sérnámi í ráðgjöf á sviði heilabilunar komið á fót á Akureyri

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Háskólanum á Akureyri sjö milljóna króna styrk til að koma á fót sérnámi fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar. Námið verður 60 ETCS einingar á meistarastigi og lýkur með diplóma. Markmiðið er að auka sérþekkingu á þessu sviði hér á landi í samræmi við aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með heilabilun til ársins 2025.

Heilbrigðisráðherra birti aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með heilabilun fyrr á þessu ári og er það í fyrsta sinn sem sett er fram opinber stefna hér á landi í þessum málaflokki. Meðal aðgerða sem þar eru tilgreindar er að komið verði á fót sérnámi fyrir heilabilunarráðgjafa og hófust þegar viðræður við Háskólann á Akureyri um að hrinda því í framkvæmd.

Heilabilunarráðgjafi getur með þekkingu sinni og reynslu stuðlað að auknum gæðum í umönnun einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma með stuðningi, leiðsögn, ráðgjöf og kennslu til þeirra og fjölskyldna þeirra. Á þann hátt má auka lífsgæði heilabilaðra og fjölskyldna þeirra. Auk þess getur ráðgjafinn sinnt fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks og tekið þátt í stefnumótun og uppbyggingu verklagsferla varðandi málefnið.

Háskólinn á Akureyri hefur kynnt ráðuneytinu drög að námsskrá og reiknað er með að námið geti byggst ofan á grunnnám í hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf eða sálfræði. Námið skapar einnig möguleika á að námskeið þess nýtist öðrum fagstéttum eins og lögreglumönnum og öðrum meistaranámsnemum. Stefnt er að því að námið hefjist haustið 2022.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search