Sérstökum frístundastyrk er ætlað að gera börnum keift að stunda fjölbreyttar tómstundir óháð efnahag foreldra en rannsóknir hafa sýnt að þáttaka barna efnaminni foreldra er mun minni í skipulögðu tómstundastarfi en annarra. Ljóst er að tómstundastarf barna getur verið þungur baggi fyrir tekjulág heimili og kostnaður valdið því að börn tekjulágra taka síður þátt í slíku starfi. Rannsóknir hafa sýnt fram á gildi þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, bæði hefur þátttakan mikilvægt forvarnargildi og er auk þess mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir börn. Frístundastarf er nú þegar niðurgreitt í flestum sveitarfélögum sbr. frístundakort Reykjavíkurborgar. En ljóst er að börn sem búa við fjárhagsþrengingar þurfa viðbótarstuðning. Ein af ábendingum Velferðarvaktarinnar til stjórnvalda í bréfi árið 2019 snérist um að auka niðurgreiðslur á tómstundastarfi barna sem búa við fjárhagsþrengingar, enda hafa sérfræðingar bent á að niðurgreiðsla þurfi ekki að vera almenn til að nýtast þeim sem mest þurfa á að halda.
Félagsmálaráðuneytið óksaði eftir samstafi við sveitarfélögin við útgreiðslu styrkjana. Ljóst er að innviðir voru ekki tilbúnir og því þurfi að vinna að hugbúnaðarlausnum og fleiru til að framkvæma verkefnið og hefur því verið lokið. Úrræðið hefur nú verið framlengt og viðbótarfrístundastyrkur samþykktur fyrir haustið 2021. Breytt fyrirkomulag veldur því að nú er hægt að sækja um ráðstöfun viðbótarfrístundastyrks með sambærilegum hætti og hefðbundnum frístundastyrk sem sveitarfélögin veita. Foreldrar þurfa því ekki að leggja út fyrir styrkjunum né senda inn kvittanir, heldur haka við styrkinn og ráðstafa honum þegar barnið er skráð í tómstundastarf. Flækjustigið er því mun minna og horft á viðbótarstuðningin sem ákveðinn rétt frekar en ölmusu sem erfitt er að sækja. Ljóst er að sérstakur frístundastyrkur er mikilvæg viðbót til tekjulágra heimila og mikilvægt að festa það úrræði í sessi, mikilvægt er að upphæðin fylgi þróun almennra frístundastyrkja sveitarfélaga og verði ekki minni en 50. þúsund krónur á ári til að byrja með. Vinstri græn leggja áherslu á að vinna heildstæða aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn fátækt barna, í takt við ábendingar Velferaðarvaktarinnar.
Við hljótum öll að vera sammála um það.
Elín Oddný Sigurðardóttir er varaborgarfulltrúi Vinstri-grænna og varaformaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.