Search
Close this search box.

Sextíu milljónir króna

Deildu 

Launamunur kynjanna var um 14 prósent hér á landi árið 2019. Það þýðir að nú, 60 árum eftir að lög um launajöfnuð voru samþykkt á Alþingi, er kona, sem hefur 650.000 krónur í mánaðarlaun, snuðuð um 1,2 milljónir á ári. Það gera rúmar 60 milljónir króna yfir starfsævina.

Þetta er óþolandi. Það er líka óþolandi að samfélagið virðist ónæmt fyrir þessu óréttlæti.

Þetta ónæmi má skrifa að hluta til á það hversu flókin umræðan um launamun kynjanna er. Talað er annars vegar um óleiðréttan launamun; muninn á launum karla og kvenna að teknu tilliti til vinnutíma, og hins vegar um leiðréttan launamun; launamun sem til staðar er að teknu tilliti til tiltekinna þátta svo sem starfs, atvinnugreinar, menntunarstigs og fleira.

Launamun kynjanna má að langstærstum hluta rekja til hins kynskipta vinnumarkaðar og ólíks náms og starfsvals kynjanna. Því er nauðsynlegt að beina sjónum að hinum óleiðrétta mun. Í honum má greina verðmætamat samfélagsins og það hvernig hefðbundin karlastörf eru metin meira virði en hefðbundin kvennastörf. Með því að einblína á leiðrétta muninn er launamisrétti útskýrt og jafnvel réttlætt með vali kvenna og eiginleikum þeirra. Það skilar okkur ekki launajafnrétti í bráð.

Það er ekki náttúrulögmál að konur fái minna greitt fyrir framlag sitt á vinnumarkaði en karlar. Það er ákvörðun. Það er tímabært að taka ákvörðun um að breyta því.

Starfshópur forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa skilaði á síðasta ári tillögum að leiðum til að útrýma launamun kynjanna. Starfshópurinn lagði meðal annars til að komið yrði á fót tilraunaverkefni um mat á virði starfa sem miði að því að þróa verkfæri og auka fræðslu og ráðgjöf til að styðja atvinnurekendur við að uppfylla lagaskilyrði um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.Nauðsynlegt er að fylgja þessum tillögum eftir og ráðast í markvissar aðgerðir til að leiðrétta vanmat kvennastarfa strax. Það er löngu tímabært.

Daníel E. Arnarson, situr nú á þingi fyrir VG.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search