PO
EN

Sextíu tillögur til sáttar

Deildu 

Í maí á síðasta ári skipaði ég fjóra starfshópa og samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu undir heitinu Auðlindin okkar. Í vikunni skiluðu starfshóparnir 60 bráðabirgðatillögum til matvælaráðuneytisins. Tilgangur verkefnisins er að greina áskoranir og…

Í maí á síðasta ári skipaði ég fjóra starfshópa og samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu undir heitinu Auðlindin okkar. Í vikunni skiluðu starfshóparnir 60 bráðabirgðatillögum til matvælaráðuneytisins. Tilgangur verkefnisins er að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og meta þjóðhagslegan ávinning af fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Markmið vinnunnar er að auka sátt um sjávarútveg á Íslandi, koma á fót kerfi þar sem fyrst og fremst verði gætt að umhverfissjónarmiðum. Kerfi þar sem verðmætin eru hámörkuð og þar sem dreifing verðmæta er með sem sanngjörnustum hætti.

Afrakstur vinnu starfshópanna er ekki skýrsla af gömlu gerðinni, um er að ræða aðgengilegt skjal þar sem má fá glögga mynd af atburðarás síðustu áratuga í sjávarútvegi og stöðunni í dag. Einnig er farið er yfir hugmyndafræðilegan grunn þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, umhverfi, efnahag og sjálfbærni. Tillögurnar byggja að auki á sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnumótun stjórnvalda.

Margar af þessum tillögum eru þess eðlis að um þær mun ríkja samstaða, aðrar munu kalla á sterk og andstæð sjónarmið. Grunnnálgunin byggir á umhverfissjónarmiðum, enda eru það náttúran og vistkerfin sem eru grunnurinn að nýtingu auðlindarinnar og hagsældinni sem henni fylgir. Einnig leggja hóparnir til að auka hafrannsóknir, þekking okkar á vistkerfum sjávar er minni en við höldum.

Veiðigjöld eru umdeild og telja starfshóparnir að bæði megi hækka þau og einfalda útreikning. Einnig er að finna tillögu um fyrningarleið og uppboð aflaheimilda. Öllum sem fylgst hafa með samfélagsumræðu síðustu áratuga er ljóst að hið sama gildir um samþjöppun veiðiheimilda og útdeilingu verðmæta, um þau atriði ríkir óeining, sáttar er þörf.

Íslenskur sjávarútvegur er gróskumikill, við eigum góða sjómenn og útgerðarmenn. Í greininni má finna mikla þekkingu, metnað og nýsköpun. Lögð er áhersla á fullvinnslu, áhugi er fyrir orkuskiptum og bylting hefur orðið í öryggismálum sjómanna. Sóknarfærin eru mörg og sjávarútvegur heldur áfram að vera ein af grunnstoðum efnahags og velferðar á Íslandi.

Ég legg áherslu á að ferlið í Auðlindinni okkar sé eins opið og gagnsætt og verða má. Sem flestar raddir þurfa að heyrast við borðið og þörf er á að kveðja skotgrafirnar. Í samræmi við þetta hafa verið haldnir opnir fundnir um landið og starfshóparnir hafa leitað til breiðs og þverfaglegs hóps.

Auðlindin okkar hefur fengið góðan meðbyr síðan lagt var úr höfn í vor. Unnið hefur verið samkvæmt áætlun og gert er ráð fyrir að lokaniðurstöður líti dagsins ljós í vor, lagafrumvörp verði tilbúin til kynningar í árslok og lögð fram fullbúin á vorþinginu 2024, vonandi landi og þjóð til heilla.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search