Search
Close this search box.

Sigrún Birna Steinarsdóttir, er nýr formaður UVG

Deildu 

Landsfundur Ungra vinstri grænna fór fram í gegnum fjarfundarbúnað laugardaginn 10. október 2020. Þar fór fram málefnavinna og stjórnarkjör auk þess sem flutt var erindi um íbúalýðræði.

Sigrún Birna Steinarsdóttir var kjörin formaður Ungra vinstri grænna til eins árs.

Í framkvæmdastjórn fyrir starfsárið 2020-2021 hlutu kjör:

Ásrún Ýr Gestsdóttir

Helga Margrét Jóhannesdóttir

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir

Jónína Riedel

Kristbjörg Mekkín Helgadóttir

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum. Þar má meðal annars finna ályktanir um útlendingamál, aðkomu ungs fólks að borðinu, loftslagsmál, sálfræðiþjónustu, stöðu Samtakanna 78, bætt úrræði fyrir heimilislausa og viðurlög við launaþjófnaði.

Mannúð ofar skilvirkni

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, brýnir mikilvægi þess að taka málefni útlendinga og þá sérstaklega fólks sem kemur hingað í leit að alþjóðlegri vernd, föstum tökum. Sú staðreynd að aftur og aftur komi upp mál sem sýna ómannúðlega meðferð á fólki í leit að alþjóðlegri vernd er engan veginn í takt við yfirlýsingar stjórnvalda um betrumbætur í þessum málaflokki. Landsfundur UVG minnir dómsmálaráðherra og barnamálaráðherra sérstaklega á ábyrgð sína í þessum málum. 

Dómsmálaráðherra hefur enn á ný lagt fram frumvarp um málefni fólks á flótta, þar sem lögð er áhersla á að vísa fólki á flótta fyrr úr landi, undir formerkjum aukinnar skilvirkni, en ekki á að leggja okkar af mörkum við að taka á móti fleirum sem þurfa að flýja heimili sín, m.a. vegna stríðsátaka, pólitískra ofsókna og loftslagsbreytinga. Við hvetjum þingmenn Vinstri grænna til að berjast af krafti á móti frumvarpinu sem gerir ekkert til að bæta hag fólks á flótta sem hingað leitar. Landsfundur UVG vill taka það sérstaklega fram í kjölfar fráleitrar umræðu dómsmálaráðherra um flóttamannabúðir hér á landi, að slíkt kemur ekki til greina af hálfu okkar. 

Við viljum sjá stefnu í útlendingamálum sem byggir á mannúð og þeim sáttmálum sem Ísland er aðili að, og þá sérstaklega Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það þarf að styrkja stoðir og samræma vinnu þeirra stofnana sem koma að málefnum útlendinga og fylgja vel eftir þeim sem hér fá vernd, þá sérstaklega með félagslegum og sálrænum stuðningi. Landsfundur UVG telur tímabært að leggja niður Útlendingastofnun í þeirri mynd sem hún er í dag og byggja upp mannúðlegra kerfi og endurskoða lista um „örugg lönd.“

Ungt fólk er ekki skrautmunir

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, telur löngu tímabært að ungt fólk fái raunverulegt sæti við borðið og ekki sé komið fram við það eins og skrautmuni sem gott er að auglýsa á tyllidögum. Ungt fólk er ekki bara framtíðin, við erum hér núna, borgum skatta og mikilvægt er að raddir okkar heyrist sem víðast. Við viljum sjá kosningaaldur lækkaðan niður í 16 ára í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og krefjumst þess að Vinstrihreyfingin – grænt framboð setji fólk undir 35 ára í eitt af fjórum efstu sætum á listum hreyfingarinnar í öllum kjördæmum.

 Setjum markið hærra í loftslagsmálum

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, fagnar því að aðgerðaáætlanir til að sporna gegn aukinni losun gróðurhúsalofttegunda hafi verið gerðar og, það sem meira er, fjármagnaðar. Aðgerðaáætlun ein og sér dugir þó skammt. Við þurfum að sjá þeim stórgóðu aðgerðum sem má finna í áætluninni hrint í framkvæmd strax, svo hægt sé að snúa við þróuninni sem orðið hefur og svo að Ísland geti staðist skuldbindingar Parísarsáttmálans. Auk þess eigum við ekki einungis að einblína á að uppfylla lágmarksskyldur sáttmálans, við eigum að gera betur og vera fyrirmynd fyrir alþjóðasamfélagið

 Betra aðgengi að sálfræðiþjónustu

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, fagnar því að frumvarp um niðurgreiðslu sálfræðimeðferðar og annarra samtalsmeðferða hafi verið lögfest síðastliðið sumar. Það er gríðarlega mikilvægt skref í að efla aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð efnahag, en það hefur lengi verið nær ómögulegt fyrir stóran hluta landsmanna að sækja sér sálfræðiþjónustu vegna kostnaðar, sérstaklega ungt fólk og efnaminna.

Það eru því mikil vonbrigði að í nýjum fjárlögum hafi ekki verið gert ráð fyrir fjármagni til þess að hrinda frumvarpinu í framkvæmd. Þar með er niðurgreiðslu á mikilvægri geðheilbrigðisþjónustu slegið á frest, með tilheyrandi kostnaði seinna meir, en rannsóknir hafa sýnt að með betra aðgengi er hægt að spara mikinn kostnað á hærri stigum geðheilbrigðisþjónustu og kostnað vegna örorku sem getur orðið afleiðing aðgerðaleysis. Fyrir utan alla þá mannlegu þjáningu sem hægt væri að koma í veg fyrir. Ung vinstri græn harma að niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu skuli ekki vera forgangsmál á þessum erfiðu tímum. 

 SAMTÖKIN 78

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, krefst þess að ríkið og Reykjavíkurborg leiti allra leiða til að halda starfsemi Samtakanna 78 áfram óskertri. Nýlega birtust fréttir þess efnis að samningar þeirra við bæði ríki og Reykjavíkurborg rynnu út á sama tíma, um næstu áramót, og án þeirra samninga væri ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi og því hefur öllum starfsmönnum og verktökum sem þar starfa verið sagt upp. Samtökin 78 hafa unnið ómetanlegt brautryðjendastarf í þágu hinsegin fólks á Íslandi og verið miðpunktur hinsegin samfélagsins, fyrir utan að bjóða skólakerfinu og vinnustöðum á landinu upp á mikilvæga fræðslu. Öryggi rekstrar Samtakanna 78 hefur lengi liðið fyrir að samningar við þau eru einungis gerðir til eins árs í senn að hálfu ríkisins. Ung vinstri græn telja mikilvægi Samtakanna 78 ótvírætt og augljóst, og fráleitt að rekstraröryggi þeirra sé ógnað á þennan hátt.

ÚRRÆÐI FYRIR HEIMILISLAUSA 

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, vekur athygli á mikilvægi aðgerða vegna húsnæðisvanda heimilislausra með fjölþættan vanda, sem tekur mið af  raunverulegum aðstæðum fólks og er í anda hugmyndafræði ,,húsnæði fyrst” (e. housing first). Slíkar aðgerðir þurfa bæði að miða að lausnum til langs tíma og enn fremur að fjölþættum áskorunum heimilislausra. Neyðarskýli með takmarkaðan opnunartíma eru einungis til þess fallin að einstaklingar frjósi ekki á götum úti þá nóttina. Öruggur og mannsæmandi húsnæðiskostur er grundvöllur þess að fólk nái undir sig fótum og geti tekist á við flóknari vanda. Tímabundið úrræði á vegum Reykjavíkurborgar sem var hluti af viðbrögðum við fyrstu bylgju Covid-19 á Íslandi, fól í sér að húsnæðiskostur stóð til boða allan sólarhringinn, jók til muna öryggi og lífsgæði þeirra sem nýttu sér það. Landsfundurinn hvetur hið opinbera til að beita sér fyrir langtímalausnum af þessu tagi. 

Viðurlög við launaþjófnaði

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn 10. október 2020, fordæmir að launaþjófnaður, sem helst bitnar á ungu fólki og fólki af erlendum uppruna, viðgangist án afleiðinga. Launaþjófnaður er ein birtingarmynd fjölþætts misréttis sem þessir hópar mæta oft á atvinnumarkaði. Sláandi tölur birtust í skýrslu ASÍ um upphæðir krafa sem hafa verið stofnaðar vegna ógreiddra launa þessara hópa.

Á meðan að slíkur launaþjófnaður er ekki refsiverður fyrir atvinnurekendur þá á hann eftir að viðgangast áfram. Við krefjumst þess að lög verði sett á sem heimila viðurlög til að stöðva þessa þróun. Það er gjörsamlega óásættanlegt að slíkt viðgangist í okkar samfélagi. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search