Search
Close this search box.

Sjálfbærni

Deildu 

Skoðanakannanir sýna að landsmenn verða sífellt áhyggjufyllri vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þannig er í flestum ríkjum heims. Ástæðan er m.a sú að alvarlegar afleiðingar, einkum þær sem valda fólki, fyrirtækjum og sveitarfélögum fjárhagslegu tjóni, ýta undir aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og mótvægisaðgerðir gegn afleiðingum hlýnunarinnar. Viðhorf breytast í takt við það. Ríkisstjórn Íslands svarar kalli tímans svo um munar og sveitarfélög sömuleiðis. Um það vitna ýmsar framfarir í umhverfismálum og áætlanir. Hér, eins og annars staðar í heiminum, verður að gæta að jafnvægi náttúrunytja og náttúrverndar. Annað án hins er ekki í boði. Árangur okkar er þó enn ekki nægur. Við verðum að vanda okkur betur, einkum þegar kemur að beinum fjárframlögum til umhverfismála og innleiðingu hvata til góðra verka. Það á við bæði um minni losun GHL og kolefnisbindingu í nýjum gróðri og með endurheimt horfinna eða skaddaðra vistkerfa. Fleiri en opinberir aðilar bera hluta ábyrgðar; einstaklingar, fyrirtæki og félög.

Orkustefna í mótun

Unnið er í fyrsta sinn að heildstæðri orkustefnu. Það gerir nefnd sérfræðinga og fulltrúa ríkisins. Á því sviði bryddar nú á nýju verkefni: Vindorku. Áhugasamir heimamenn og erlend fyrirtæki leita fyrir sér um staðsetningu vindorkugarða á landsbyggðinni og sveitarfélög bregðast við. Löggjöf, staðarvalsgreiningu, takmörkunum og heldarskipulagi þarf að koma fljótt í gott horf. Vindorka er nytsamur orkukostur en áhersla á hana og framkvæmdahraði verður, eins og á við um alla orkuframleiðslu, að haldast í hendur við orkuþörf og innlenda orkunýtingu. Aðeins einn vindorkugarður er í Rammaáætlun; sá sem Landsvirkjun hefur áhuga á nálægt vesturjaðri Hofsjökuls. Orkuskipti, fráhvarf frá notkun jarðefnaeldsneytis til vistvænna kosta, er hluti orkustefnunnar.

Hröð orkuskipti

Orkuskipti í samgöngum, fiskveiðum og fiskiðnaði er þegar hafinn. Telja má upp rafvæðingu hafna og hluta skipa- og bátaflotans, öku- og vinnutækja og flugs (að töluverðu marki). Olíukynding í fiskiðnaði er næstum alveg horfin. Til alls þessa þarf mikið rafafl. Annar hluti orkuskipta snýst um notkun vistvæns eldsneytis á brunavélar í stórum vinnutækjum, stórum bílum, sumum flugvélum og skipum. Þar má nefna metan, alkóhól (metanól og etanól), lífdísil og fleira. Vetni er líka mikilvægur orkugjafi í sérstaka gerð rafbíla. Sem vistvænasta raforku þarf til að framleiða þessi efni. Í mörgum tilvikum er maðurinn að nýta sér orkustrauma (vatnsföll, losun jarðvarma, kalda grunnvatnsstrauma og vind) sem eru hluti náttúruferla. Þeir ganga sinn gang hvort sem við nýtum þá eða ekki. Nýting getur flýtt ferlunum en ólíkt námi jarðefna, sem ekki endurnýjast, til orkuframleiðslu er nýtingin verjanleg. Og hún er sjálfbær ef varlega er að farið.

Kolefnisjöfnun

Við notkun eða framleiðslu vistvæns eldsneytis, tækja, rafhlaða eða sólarsella geta orðið til gróðurhúsalofttegundir. Þá virkni verður að kolefnisjafna. Þetta á t.d. við um framleiðslu eða endurnýtingu áls og kísils. Jöfnunin fer ýmist fram með því að binda kolefni í jarðlögum, sbr. niðurdælingu koltvísýrings á Hellisheiði, eða binda efnið í gróðri. Elfdar rannsóknir og meira fé þarf til að styðja við kolefnisbindingu með uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Við alla slíka bindingu hvílir mestur þungi á almenningi, fyrirtækjum, samtökum og sveitarfélögum, með stuðningi ríkisins. Sem dæmi má nefna kolefnisjöfnun ferða á vegum fyrirtækja, sveitarfélaga eða ríkisins. Þingfrumvarp um ívilnun til lögaðila vegna kolefnisbindingar liggur frammi að mínu frumkvæði og nær vonandi afgreiðslu sem fyrst.

Mikilvæg innlend eldsneytisframleiðsla

Hér á landi eru góð tækifæri til innlendrar eldsneytisframleiðslu og nýtingar. Vistvæn efni, þó dýrari séu en olía, henta á bíla, báta og skip, einkum metan, vetni og alkóhól. Þau getum við framleitt sjálf. Skýrsla, sem ég bað um á Alþingi, er nú unnin í umsjá ráðherra orkumála og nýsköpunar, og mun skýra hvað er fýsilegt. Metanframleiðslu er unnt að margfalda með því að nýta útblástur t.d. jarðvarmaorkuvera. Carbon Recycling getur margfaldað metanólframleiðslu. Vetni, framleitt úr vatni með rafgreiningu og koltvísýringi, er að verða mikilvægur kostur við framleiðslu véla í alls konar tæki, t.d. hjá Hyundai, Toyota og Daimler Benz. Orkunýtni vetnis sem framleitt með þessum hætti er fremur lág en það breytir ekki mikilvægu notkunargildinu, ef raforkan sem notuð er við vetnisframleiðsluna telst vistvæn.

Plastógnin er ærin

Plastagnir eru í 70% fýla sem rannsakaðir hafa verið hér á landi og finnast í kræklingi á strandsvæðum. Nýgerð aðgerðaráætlun Umhverfisráðuneytisins kynnir 18 leiðir til að bregðast við. Mikil áskorun til almennings, fyrirtækja, stofnana og félaga felst í að fylgja duglega því sem að hverjum og einum snýr. Jurtaríkið getur séð okkur fyrir miklu efni í hluti sem plast er nú notað til. Gríðarstór verkefni bíða: Hreinsun plasts úr umhverfinu og alvöru endurnýting eða mengunarlaus/lítil eyðing þess. Því miður eru örlög plasts frá Íslandi um þessar mundir, þ.e. háhitabruni í útlöndum, ekki ásættanleg. Blái herinn er góð fyrirmynd að hreinsun plasts í umhverfinu og mætti margfaldast að afli. En hreinsun er til lítils ef almenningur og fyrirtæki taka sig ekki á og hætta að henda plasti. Umhverfi í þéttbýli ber víða vitni um mikið andvaraleysi.

Matvælastefnu, takk!

Stefnumörkun í matvælaframleiðslu og innflutningi er nátengd áherslu okkar á sjálfbært samfélag með landbúnaði og fiskveiðum. Miðað við náttúrugæði, samfélagsþarfir og hagkvæmni blasir við að við höfum fleiri skyldur við sjálf okkur og umheiminn en að horfa einungis til matarverðs og fjárhags innflutningsfyrirtækja, verslana eða neytenda. Umhverfisvernd er líka hagkvæm. Nálægð fólks við matvælaframleiðslu- og vinnslu, stuttar flutningsleiðir, framboð með tilliti til árstíða, verslunarhættir í samræmi við neysluþarfir, minni forpökkun vöru og trygg hollusta fæðu úr jurta- og dýraríkinu eru lykilatriði. Við erum rík að vatni, jarðvegur er frjósamur, hafið auðugt að fæðu og ylrækt mjög gefandi (í glerbyggingum eða upphituðum jarðvegi). Nýir tímar krefjast sjálfbærrar nálgunar og matvælaöryggis en ekki bara frjálsra matvælaflutninga. Flognu bláberin frá Suður-Ameríku í plastfötunum á Íslandi eru tímaskekkja.

Þolmörk í nýjum höfuðatvinnuvegi

Við könnumst við þolmörk í nytjum landbúnaðar og fiskveiða, sem leiða t.d. til beitarstjórnar á landi og aflamarks úr sjó, auk vandaðra rannsókna, eftirlits og stýringar. Ferðaþjónustan á líka að lúta sjálfbærniviðmiðum sem leiða af sér þolmörk náttúru/umhverfis, samfélaga og hagkerfis. Öll þrjú svið sjálfbærni eru tengd. Þolmörkin gilda að fengnu vönduðu en tímaháðu mati fyrir staði, landsvæði, samfélög í sveit eða þéttbýli. Að endingu fyrir landið allt. Við getum aðeins rekið sjálfbæra og gagnlega ferðaþjónustu, án ósættanlegra ruðningsáhrifa á aðra atvinnustarfsemi, með því að virða þolmörk. Lítið samfélag í stóru landi ætlar að halda uppi margþættu og gefandi samfélagi í sátt við umhverfið. Um það ríkir ágæt eining. Nú er til að mynda unnin þolmarkagreining á nýtingu takmarkaðrar auðlindar í gæðamikilli ferðaþjónustu. Hún er um margt frumgerð og gildir fyrir gjána Silfru á Þingvöllum.

Nýjungar og stór skref

Loftslagsráð, Loftlagssjóður, endurskoðuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun í ljósi aðstæðna í efnahagsmálum, jafnréttis-, kjara- og umhverfismálum, ný lög um landgræðslu og skógrækt, endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, byggðaáætlun og innviðaáætlun til verndar náttúru og menningarminja o. fl. Listinn gæti verið lengri en þessi verkefni ríkisstjórnar og Alþingis eru til marks um hitann í deiglu umhverfismála. Við verðum að efla mjög andófið gegn hlýnun loftslagsins og efla aðlögun að óhjákvæmilegum breytingum á lífsskilyrðum jarðarbúa. Yfirmarkmið þriggja flokka stjórnar Katrínar Jakobsdóttur er kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040. Það er risaskref á næstu tveimur áratugum og á að vera þverpólitískt þótt menn deili á um leiðir.

Ari Trausti Guðmundsson, 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search