Það er viðvarandi áskorun að tryggja aukna velsæld í samfélaginu á sjálfbæran hátt. Síðustu áratugi hefur hagkerfið stækkað en deila má um að hve miklu leyti sá vöxtur hefur verið sjálfbær. Miðað við óbreytta auðlindanotkun mannkynsins þyrfti þrjár plánetur til að standa undir auknum fólksfjölda árið 2050. Þær plánetur eru ekki til. Það er ljóst að við verðum að gera betur.
Hringrásarhagkerfið og kleinuhringir
Breski hagfræðingurinn Kate Raworth lýsti kleinuhringjahagfræði sem leið til þess að hugsa um sjálfbæra þróun á þeim grunni að engan í samfélaginu skorti það sem þarf til að lifa með reisn en að á sama tíma sé tryggt að samfélög haldi sig við auðlindanotkun einnar jarðar. Í innri hring kleinuhringsins eru hlutir eins og fæða og vatn, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, tekjur og trygg atvinna. Í ytri hringnum eru vistkerfismörkin. Þar er að finna þolmörk jarðar fyrir álagi, t.d. mörk loftslagsbreytinga og líffræðilegrar fjölbreytni. Rýmið milli þessara tveggja hringja er staður þar sem er öruggt og réttlátt að staðsetja samfélag. Þangað tel ég að við ættum að stefna.
Segja má að hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins miði að því að halda okkur innan þessara tveggja hringja. Mikil gerjun er í verkefnum sem tengjast hringrásarhagkerfinu á Íslandi um þessar mundir. Merkilegar áætlanir eru uppi um að búa til lífrænan áburð úr hliðarstraumum úr landeldi á laxi. Ef þær áætlanir ganga eftir verða til græn störf hér á landi við að skapa áburð sem við annars þurfum að flytja inn. Til lengri tíma munu þolmörk hagkerfisins aukast þegar við verðum minna háð stöðugum innflutningi hráefna og vara. Þessi stöðugi innflutningur er forsenda línulega hagkerfisins og ein helsta ástæða þess að mannkynið er að nýta auðlindir jarðar á hátt sem mun valda hörmungum til lengri tíma.
Hringrásir skapa störf og virði
Á sama hátt hefur hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins verið innleidd hjá stórum fyrirtækjum í sjávarútvegi, sem dregið hafa úr kostnaði með því að flokka betur úrgang. Við það hafa einnig orðið til störf hér á landi. Þá hafa tæknilausnir sem orðið hafa til við þessa umbreytingu möguleika á að verða þekkingarútflutningur og verða hluti af því sem stundum er kallað „eitthvað annað“ í hagkerfinu, sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum talað um árum saman.
Samandregið er framtíðarsýnin um sjálfbært samfélag velsældar sú framtíðarsýn sem ég hef að leiðarljósi í matvælaráðuneytinu. Ef við einsetjum okkur að leita lausna í stað þess að einblína á vandamálin munum við ná auknum árangri í þeim efnum á næstu árum.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.