Palestína lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 1988. Nú, tæpum 40 árum síðar, hafa 143 ríki viðurkennt sjálfstæði landsins og árið 2011 varð Ísland fyrst ríkja Vestur-Evrópu til að taka það skref. Í gær bárust þau stórmerku og jákvæðu tíðindi frá frændum okkar og frænkum í Noregi þegar þau tilkynntu viðurkenningu landsins á sjálfstæði Palestínu. Spánn og Írland fylgdu fordæminu og fjölgaði þannig vesturevrópskum ríkjum sem viðurkenna sjálfstæði Palestínu úr tveimur í fimm í einu vetfangi. Nú eru liðin tæp 14 ár síðan við, Íslendingar, tilkynntum formlega að við skyldum styðja þrotlausa og blóðuga baráttu palestínsku þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu eftir að Alþingi samþykkti ályktunina án mótatkvæðis. Svíþjóð gerði slíkt hið sama þremur árum síðar.
Það er því miður óhætt að fullyrða að óöldin sem nú ríkir í Palestínu eigi sér engin fordæmi. Kannski sem betur fer, þar sem ástandinu er hægt að líkja við helvíti á jörð. Því segja þau sem best til þekkja að þessi ákvörðun Noregs, Írlands og Spánar sé stærra og þýðingarmeira skref en mörg geri sér grein fyrir. Hörð viðbrögð Ísraelsstjórnar og bakhjarla þeirra í Washington segir líka sitt um mikilvægi málsins. Stuðningur Evrópuríkja skipti öllu máli og stríðið löngu farið að lita nánast öll alþjóðasamskipti. Meira en hundrað þúsund íbúar Palestínu, mest konur og börn, hafa ýmist verið drepin eða særst í árásum Ísraelshers síðustu mánuði.
Við fögnum vonandi öll þann 28. maí næstkomandi, þegar fullveldi Palestínu verður fullgilt formlega í löndunum þremur. Og sömuleiðis vonum við líka að enn fleiri ríki geri eins og þau og fylgi fordæmi okkar Íslendinga, því þessu hræðilega stríði verður að ljúka.
Steinunn Þóra Árnadóttir er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.