Ný tegund sjónhjálpartækja gjörbreytir möguleikum og aðstæðum sjónskertra hér á landi. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hefur tekið í notkun höfuðborin stækkunartæki sem gerir mörgum lögblindum einstaklingum kleift að sjá hluti og viðburði sem þeir fóru á mis við áður. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti stofnuninni nýverið 20 milljóna króna framlag vegna tækjakaupanna. Í gær hitti hann síðan nokkra notendur nýju tækjanna.
Um tvær tegundir höfuðborinna stækkunartækja er að ræða sem báðar líkjast sýndarveruleikagleraugum. Önnur stækkar margfalt það sem horft er á en með hinum er hægt að senda skjámynd af síma, sjónvarpi eða öðru beint í tækið. Tækin opna möguleika fyrir einstaklinga sem ekki geta nýtt hefðbundin sjónhjálpartæki – möguleika sem áður voru utan seilingar: Að fara í leikhús, horfa á sjónvarp, sjá á töfluna í skólanum, virða fyrir sér umhverfið í kringum sig og jafnvel bara að njóta þess að horfa út um gluggann.
Júlíus Birgir Jóhannsson sem er daufblindur sýnir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, stækkunartækið sem hefur umbylt daglegu lífi hans.
Báðar tegundir stækkunartækjanna eru nú notaðar í fyrsta sinn á Íslandi og gera mörgum lögblindum einstaklingum kleift að nýta sjónleifar sínar, þ.e. það af sjón þeirra sem enn er til staðar. Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin áætlar að a.m.k. 100 manns hér á landi geti nýtt sér nýju tæknina.
„Nýju tækin veita fólki fleiri tækifæri, meðal annars til náms, vinnu og virkni. Það er stórkostlegt. Þetta gerir fólki betur kleift að vera þátttakandi í samfélaginu. Enn sem komið er eru tækin hins vegar dýr, eins og stundum vill verða með tækninýjungar, en með auknu framlagi komum við til móts við það. Ég hef lagt mikla áherslu á málefni fatlaðs fólks og mun halda áfram að lyfta þessum mikilvæga málaflokki,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Það er mikilvægt að geta boðið fólki nýjustu tegundir sjónhjálpartækja og stuðlað að framþróun í málaflokknum eins og við getum gert með þessari góðu innspýtingu á fjármagni frá félags- og vinnumarkaðsráðherra,“ segir Elfa Svanhildur Hermannsdóttir, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.