Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga er afgerandi þáttur í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu og sporna við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum. Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga er eitt þeirra atriða sem ég hef sett í sérstakan forgang í embætti heilbrigðisráðherra á kjörtímabilinu, þannig að sjúklingar borgi minna fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf, en ríkið borgi stærri hlut. Lækkunin er ein stærsta jöfnunaraðgerð sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á þessu kjörtímabili. Markmiðið er að greiðsluþátttaka sjúklinga verði á pari við það sem best gerist á Norðurlöndunum.
Um áramótin síðustu lækkuðu ýmis gjöld. Sem dæmi um breytingar sem tóku gildi í byrjun árs 2020 má nefna að þá lækkuðu almenn komugjöld í heilsugæslu úr 1.200 krónum í 700 krónur, hormónatengdar getnaðarvarnir voru felldar undir lyfjagreiðsluþátttökukerfið fyrir konur sem eru 20 ára eða yngri auk þess sem niðurgreiðslur ríkisins vegna ýmiss búnaðar fyrir lungnasjúklinga og fólk með sykursýki voru auknar. Áætlaður kostnaður vegna framangreindra breytinga nemur um 135 milljónum króna á ári.
Nú um áramótin lækka gjöld sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu enn frekar en þá lækka almenn komugjöld í heilsugæslu úr 700 krónum í 500 krónur og sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald. Fellt verður niður sérstakt komugjald hjá þeim sem sækja aðra heilsugæslustöð en þeir eru skráðir hjá. Heilsugæslan um allt land tekur um áramót við skimunum fyrir krabbameini í leghálsi og þar með lækkar gjald fyrir leghálsskimun úr 4.818 krónum í 500 krónur.
Heilsugæslan mun enn fremur frá áramótum gefa út gjaldfrjáls vottorð fyrir starfshæfnismat sem er forsenda fyrir umsókn um starfsendurhæfingu hjá VIRK.
Hætt verður að krefjast tilvísunar frá heimilis- eða heilsugæslulækni fyrir börn sem fara í rannsókn í beinu framhaldi af komu á slysadeild eða á bráðamóttöku sjúkrahúsa og gjöld fyrir þessar komur falla niður. Sama máli gegnir ef börn fara til sérfræðings á göngudeild eða dagdeild sjúkrahúsa í beinu framhaldi af komu á slysadeild eða bráðamóttöku.
Auk þessa verður meðal annars dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfja, tannlæknakostnaður aldraðra og öryrkja lækkar og síðar á árinu verður kostnaður við hjálpartæki sömuleiðis lækkaður.
Ofangreindar breytingar eru allar til þess fallnar að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, og auka þátt ríkisins í greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu. Enginn ætti að þurfa að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og það er mitt markmið að stuðla að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.