Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur boðið fram aðstoð sína um að biðla til félagsmanna sinna um að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Alls hafa nú um 350 heilbrigðisstarfsmenn skráð sig í bakvarðasveitina.
Bakvarðasveitin var sett á fót 11. mars síðastliðinn. Útbúinn var skráningargrunnur þar sem óskað er eftir að fólk með tiltekna heilbrigðismenntun og löggildingu skrái sig á útkallslista. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Í morgun voru búnir að skrá sig í grunninn 130 hjúkrunarfræðingar, 125 sjúkraliðar, 58 læknar og 34 lyfjafræðingar. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutingamanna mun nú aðstoða heilbrigðisyfirvöld við að byggja upp sveit bakvarða með löggildingu sem sjúkfaflutningamenn, enda mikið í húfi fyrir örugga heilbrigðisþjónustu að unnt verði að manna sjúkrabifreiðar komi til þess að sjúkraflutningamenn veikist eða þurfi að fara í sóttkví.