Search
Close this search box.

Skammvinnur gróði að selja samfélagslega arðbært fyrirtæki

Deildu 

Á síðasta vetrardegi samþykkti meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar tillögu um að hefja undirbúningsvinnu við sölu á 15,42% hlut bæjarins í HS Veitum hf. Er tillagan hluti að aðgerðaráætlun Hafnarfjarðarbæjar vegna Covid-19.

Ljóst er að afgreiða átti tillöguna í flýti þar sem tillagan var lögð fram með stuttum fyrirvara og án þess að fulltrúar minnihlutans fengi almennilegt svigrúm til að fjalla um hana nánar. Er það kunnugleg aðferð sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar virðist hafa nýtt sér í ýmsum málum á þessu kjörtímabili.

Er það mat Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Hafnarfirði að sala á samfélagslegu arðbæru fyrirtæki sé ekki hagsæld hugmynd til framtíðar. Með sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar gæti eignarhlutur í HS Veitum hf. orðið 49,8% í eigu einkaaðila. Yrði það aðeins 0,2% frá því að vera brot á raforkulögum þar sem skýrt er kveðið á um það að dreifiveitur skulu ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélags.

Við skorum á meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að falla frá áformum sem stuðla geta að einkavæðingu á samfélagslegu arðbæru fyrirtæki. Frekar skal leita að öðrum lausnum vegna aðgerðaráætlunar bæjarins, með það í huga að lausnir gangi ekki á stöðugar framtíðartekjur Hafnarfjarðarbæjar. Tekjuinnkoma skuldsetts bæjarfélags skiptir máli til þess að bærinn geti boðið upp á ýmsa grundvallarþjónustu til íbúa hans. Má þar nefna sem dæmi þjónustusamninga vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Líkt og Samfylkingin í Hafnarfirði hefur bent á að þá sé, af tvennu illu, lántaka sem fæst á hagstæðum kjörum í dag farsælli lausn. Með lántöku gæti bærinn ráðist í framkvæmdir sem myndu skapa störf og skili tekjum til samfélagsins. Þar að auki eigi enn eftir að kynna fleiri efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar við sveitarfélög vegna Covid-19.

Þó um sé að ræða fordæmalausa tíma telst það varla skynsamlegt að ráðast í aðgerðir sem fela í sér skammvinnan gróða.

Júlíus Andri Þórðarson,
formaður VG í Hafnarfirði

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search