Það kemur betur og betur í ljós þessi misserin að loftslagsvandinn snertir okkur öll og að þjóðir heimsins þurfi að taka höndum saman ef koma á í veg fyrir að jörðin falli illa til búsetu fyrir margar þeirra. Það er ljóst að hver einasta aðgerð stjórnvalda til að stuðla að umhverfisvernd skiptir máli.
Nýlega mælti ég fyrir frumvarpi mínu um breytingar á lögum um tekjuskatt sem fela í sér að framlög til aðgerða sem gagnast kolefnisbindingu verði frádráttarbær frá tekjuskatti, en þau eru það ekki eins og staðan er í dag.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér framsækin markmið og góðar áætlanir í loftslagsmálum. Fyrra skrefið verður tekið með því að gangast undir skuldbindingar Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Seinna skrefið felst í því að ná þeirri stöðu að verða kolefnishlutlaust samfélag fyrir árið 2040. Hvorugu markmiði verður náð án virkrar samvinnu ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings.
Hvert sveitarfélagið á fætur öðru er að vinna sér umhverfisáætlanir og þar eru unnar loftslagsáætlanir sömuleiðis. Ég get nefnt sem dæmi að Samband sveitarfélaga á Suðurlandi hefur tekið utan um þau sveitarfélög sem þar heyra undir og sett fram mjög metnaðarfulla umhverfisáætlun. Sum sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg eru aðili að því sem heitir Parísarsamningurinn, sem ekki má rugla saman við Parísarsamkomulagið, sem er alþjóðlegt samkomulag sveitarfélaga eða borgarsamfélaga og stórra fyrirtækja á heimsvísu.
Þriðji aðili eru auðvitað fyrirtækin. Þegar kemur að þætti þeirra er jafnvel hægt að hugsa sér einhvers konar ívilnun þegar um er að ræða kolefnisgjald, til dæmis af útgerð, að hluti af því gæti gengið til kolefnisjöfnunar. En í því frumvarpi sem ég mælti fyrir fyrr í vor, er verið að horfa til tekjuskattsins. Þar eru þá framlög fyrirtækja til kolefnisbindingar með skógrækt eða endurheimt votlendis innifalin í andófinu gegn hlýnun loftslagsins. Fjórði aðili er við sjálf.
Nauðsynlegt er að framkvæmdin vegna frádráttar verði bæði skýr og gagnsæ svo að hún nái sannarlega markmiði sínu og leiði ekki til misnotkunar á heimildinni. Þá er æskilegt að umsókn um frádrátt verði hluti af áætlun um losun og kolefnisbindingu umsækjanda.
Lausn loftslagsvandans og viðbrögð við honum er í höndum okkar allra: Ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Saman getum við leyst vandann.