Nú hefur ríkisstjórnin kynnt tillögur sínar til umbóta í skattkerfinu. Þær tillögur eru góðar og til þess fallnar að byggja hér upp öflugt velferðarsamfélag. Ég fagna sérstaklega þeirri breytingu sem lögð er til um að afnema samnýtingu skattþrepa. Það úrræði hefði numið um það bil 3,5 milljörðum króna á næsta ári og miðað við greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umfangi nýtingar hefur það verið nýtt meðal tekjuhæstu sambúða landsins.
Einnig kemur fram í umsögn Félags um feminísk fjármál, við frumvarp til fjárlaga 2019, að níu af hverjum tíu krónum þessara 3,5 milljarða nýttust til þess að hækka ráðstöfunartekjur karla. Það kemur ekki á óvart enda er hér við lýði kynbundinn launamunur og karlar hafa að meðaltali mun hærri tekjur en konur. Út frá jafnréttissjónarmiðum er ótækt að skattkerfið hafi innbyggða hvata til þess að draga úr atvinnuþátttöku eða fjárhagslegu sjálfstæði.
Stoppum í götin
Þessir 3,5 milljarðar eru því nýttir til þess að geta enn frekar lækkað hið nýja lágtekjuþrep í skattkerfinu. Um leið færir það þessa skattbyrði frá tekjulágum til þeirra tekjuháu. Út frá sjónarmiðum um jöfnuð er það einnig fagnaðarefni að uppbygging skattkerfisins skuli vera í þá veru að draga úr götum sem hinir tekjuháu geta nýtt sér til þess að draga úr skattbyrði sinni en lágtekjufólk hafi ekki tök á því að nýta sér þau.
Þeir ólíku flokkar sem mynda þessa ríkisstjórn hafa getað náð saman um skynsamlegar tillögur til þess að breyta skattkerfinu til batnaðar með því að taka upp skattþrep sem nýtist tekjulágum best í anda norrænna velferðarríkja.