Þær góðu fréttir bárust í síðustu viku að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum hefði á árinu 2020 náð 11,4%. Þar með hefur markmiði stjórnvalda um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020 verið náð og gott betur en það. Markmiðið sem sett var fram í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi fyrir réttum tíu árum markaði tímamót og var fyrsta markmið stjórnvalda í orkuskiptum í samgöngum. En þar var sett fram sú sýn að stefna ætti að orkuskiptum í samgöngum og leysa ætti jarðefnaeldsneyti af hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.
Þessi þróun hefur tekið stökk á undanförnum árum en árið 2020 var hlutfall nýskráðra nýorkubíla 45% hér á landi sem er næsthæsta hlutfall í nýskráningum slíkra bíla í heiminum á eftir Noregi samkvæmt nýbirtum tölum. Orkuskipti í samgöngum voru einn af burðarásum fyrstu aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem sett var fram árið 2018 og voru útfærðar nánar í þeirri uppfærðu áætlun sem stjórnvöld settu fram í fyrrasumar. Áætlunin vísar okkur veginn um hvernig markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 verður náð. Losun frá vegasamgöngum nemur um þriðjungi allrar losunar á beinni ábyrgð Íslands og því brýnt að árangur náist á þessu sviði.
Ný orkustefna markar einnig leiðina fram á við í þessum málum en í henni er skýr framtíðarsýn um að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa verði orðin 40% árið 2030 og að Ísland verði alfarið óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum hafa markvisst beinst að því að tryggja árangur á þessu sviði. Meðal þeirra helstu má nefna skattalegar ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki, hleðslustöðvar og virka ferðamáta svo sem reiðhjól, rafmagnsreiðhjól og rafmagnshlaupahjól sem námu um 5,8 milljörðum í fyrra og áætlað er að þær verði svipaðar á þessu ári.
Við þetta styðja einnig framlög til að stuðla að breyttum ferðavenjum, einkum til að ef la almenningssamgöngur og byggja upp innviði fyrir virka ferðamáta, svo sem göngu- og hjólastíga, en þau hafa einnig aukist umtalsvert á liðnum árum og nema nú tæpum fimm milljörðum króna árlega. Þá hafa beinir styrkir til orkuskiptaverkefna í gegnum Orkusjóð einnig farið vaxandi á liðnum árum auk þess sem settar hafa verið reglur um söluskyldu endurnýjanlegs eldsneytis.
Meðal þeirra viðbótaraðgerða sem kynntar voru í tengslum við hert loftslagsmarkmið stjórnvalda í desember voru aukinn stuðningur við orkuskipti, meðal annars á sviði ferðaþjónustu og í þungaf lutningum og enn frekari stuðningur við umhverfisvænar almenningssamgöngur og betri innviði fyrir virka ferðamáta.
Allar þessar aðgerðir endurspegla þá skýru áherslu sem ríkisstjórnin hefur lagt á að setja loftslagsmálin í forgang. Sú áhersla er að skila árangri. Loftslagsáætlun stjórnvalda byggist á raunhæfum aðgerðum og öflugu samstarfi við ólíka geira samfélagsins. Nú þarf að halda áfram á sömu braut, tryggja að loftslagsmálin verði áfram í fyrsta sæti á komandi kjörtímabili og varða leiðina að kolefnishlutlausu Íslandi með réttlátum umskiptum.