Atvinnuveganefnd Alþingis hefur til meðferðar þingsályktun um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Sú stefnumörkun byggist á vinnu síðasta kjörtímabils, Ræktum Ísland. Ásamt þeim þáttaskilum sem hafa orðið í alþjóðlegri umræðu um fæðuöryggi síðustu ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og innrásar Rússa í Úkraínu. Um árabil hefur verið kallað eftir því að fyrir liggi skýr stefna stjórnvalda í þessari grein. Þetta ákall hefur heyrst bæði frá stjórnmálafólki og greininni sjálfri.
Stefna í landbúnaði
Stefna í landbúnaði á Íslandi hefur tekið breytingum í gegnum árin. Um miðja síðustu öld var slíkur skortur á búvörum að í leiðaraskrifum þessa blaðs var talað um að smjörskammturinn sæist varla með berum augum. Seinna á sömu öld var fjallað um kjötfjöll í leiðurum fjölmiðla. Nú um stundir er umræðan frekar á þá leið að við þurfum að tryggja framleiðsluvilja og nýliðun og sú umræða á fleira sameiginlegt með umræðunni sem ríkti um miðja síðustu öld. Þó með þeirri nýbreytni að umhverfismál skipta bæði bændur og neytendur nú meira máli, sem er í takti við umræðuna á alþjóðavettvangi. Á þeim fundum landbúnaðarráðherra sem ég sæki fyrir Íslands hönd er sambúð við náttúruna ásamt þeirri grundvallarspurningu hvernig nýliðun í bændastétt verði best tryggð mikið rædd.
Afkoma bænda í heiminum öllum er með þeim hætti að æ fleiri hafa af því áhyggjur hvernig við tryggjum að það verði nægjanlega margir sem vilji framleiða matinn fyrir okkur hin. Þessi umræða á sér einnig stað hér á landi. Á það er bent að afurðaverð þurfi að duga til þess að bændur á Íslandi lifi í sama efnahagslega veruleika og aðrir landsmenn. En jafnframt er bent á að holl og heilsusamleg matvæli, aðgengileg öllum óháð efnahag, séu forsenda raunverulegs fæðuöryggis. Þessi markmið mega ekki verða í andstöðu, hagsmunir bænda og neytenda eru samofnir. Enda eigum við í efnahagslegum samskiptum við bændur upp á hvern einasta dag, 365 daga á ári.
Réttlát skipting er nauðsynleg
Þannig verðum við að efla matvælaframleiðsluna, enda fjölgar Íslendingum og mannkyninu öllu stöðugt. En við verðum jafnframt að gera það á þann hátt að aukin matvælaframleiðsla og kröftugri landbúnaður rúmist innan þolmarka vistkerfanna. Það er best tryggt með þekkingu og vísindum. Mörg dæmi eru síðustu ár um þetta, nú síðast í formi áforma um að útrýma riðu með ræktun. Einnig hef ég undirritað samning við Landbúnaðarháskólann um að stíga stór skref í kynbótum plantna á þessu ári. Ótal fleiri dæmi eru til sem sýna fram á sóknarfærin. Með því að formgera stefnumörkun fyrir innlendan landbúnað á Alþingi gefst okkur tækifæri til að leggja traustari grundvöll fyrir landbúnað sem er í sókn. Enda hefur hann allar forsendur til þess.
Svandís Svavarsdóttir, landbúnaðarráðherra.