Neytendur á Íslandi hafa lengi kallað eftir skýrum upprunamerkingum á matvælum. Korter í fimm á föstudegi langar engan að rífa upp lesgleraugun og rýna í smáa letrið til að kanna uppruna matvæla. Nú horfir til betri vegar. Árið 2020 var ákveðið að innleiða sameiginlegt merki fyrir íslenskar búvörur undir forystu Bændasamtaka Íslands. Í dag mun ég kynna nýtt íslenskt búvörumerki sem gera mun þetta einfaldara. Markmiðið er að veita frumframleiðendum, matvælaframleiðendum, verslunum og neytendum dýrmæta þjónustu.
Matvælamarkaðir titra vegna stríðsreksturs
Síðustu áratugi hefur hnattvæðing leitt til þess að vörur flæða heimshorna á milli. Almennt er litið svo á að það hafi í för með sér lægra vöruverð. En á kostnað hvers? Það er ekkert ókeypis í þessum heimi og sá kostnaður kemur fram þessa dagana. Það sem er ódýrast er ekki alltaf best. Ef við erum of háð löndum sem eru óstöðug að einhverju leyti, hvort sem er um innflutning eða útflutning að ræða, þá getur sú staða komið upp að einfaldir fjárhagslegir mælikvarðar gefa vitlausa mynd. Þetta er að raungerast nú þegar matvælamarkaðir heimsins titra vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Ég tel það hluta af því að tryggja fæðuöryggi að gera neytendum auðveldara að velja innlend matvæli. Með því að hafa öfluga innlenda matvælaframleiðslu þá erum við nær því að búa við fæðuöryggi. Við munum aldrei geta framleitt allt sjálf og það er óraunhæft að stefna að því. Um þær vörur sem framleiddar eru hér á landi gilda reglur sem við setjum okkur sjálf, íslenskir kjarasamningar, reglur um notkun á efnum, reglur um aðbúnað dýra og svona mætti lengi telja. Þessar reglur hafa oft og tíðum í för með sér aukinn kostnað fyrir innlenda matvælaframleiðendur. Sé farið eftir einföldum fjárhagslegum mælikvörðum er því hætt við að innlendu vörurnar eigi erfitt uppdráttar í samkeppni við vörur sem gilda minni kröfur um.
Ef við viljum að vörurnar okkar séu framleiddar í samræmi við bestu kröfur þá þurfum við líka að sjá til þess að þær vörur njóti þess. Skýrar merkingar matvæla eru því nauðsynlegar. Ef ekki er að því gætt þá mun framleiðsla færast á erlenda grund og fæðuöryggi skerðast sem því nemur. Vaxandi hluti neytenda vill geta valið íslenskar vörur og leggja sig fram um að styðja íslenska framleiðslu og verslun. Það skiptir máli hvernig þetta er gert svo neytendur geti verið fullvissir um að ekki sé verið að villa um fyrir þeim. Því verða úttektir með notkun merkisins í höndum þriðja aðila. Traust skiptir öllu máli ef takast á að byggja upp upprunamerki til framtíðar líkt og lagt er upp með. Vonandi leggjast öll á árarnar með okkur í þessu verkefni til hagsbóta fyrir neytendur.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra