Search
Close this search box.

Skýrsla forsætisráðherra um stöðu jafnréttismála

Deildu 

Skýrsla forsætisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2018 – 2019 hefur verið birt á vef Stjórnarráðsins. Jafnréttisþing fer fram í Hörpu á morgun, 20. febrúar.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þó að atvinnuþátttaka kvenna sé með því mesta sem þekkist í Evrópu sé kynbundin verkaskipting enn einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað, við umönnun og innan heimila. Konur eru líklegri en karlar til að sinna hlutastörfum en tæplega 27% þeirra eru í hlutastarfi samanborið við 6,5% karla. Karlar vinna einnig lengri vinnudag og líklegra er að vinnutími þeirra sé óhefðbundinn en vinnutími kvenna.  Þá kemur fram að konur eru líklegri til að axla ábyrgð á umönnun gagnvart skyldmennum en karlar.

 Í skýrslunni kemur einnig fram að konur eru enn í minnihluta í stjórnum fyrirtækja þó að tíu ár séu liðin frá setningu laga um kynjakvóta. Fjallað er um stöðu jafnlaunavottunar en nú hafa alls 160 fyrirtæki og stofnanir með um 71.000 starfsmenn öðlast vottun eða um 51% fyrirtækja og stofnana sem lög um jafnlaunavottun ná til. Loks er í skýrslunni fjallað um aðgerðir stjórnvalda gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, þar á meðal um fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn), viðbrögð við #églíka eða #metoo-hreyfingunni, tillögur um bætta réttarstöðu brotaþola og aukna áherslu á forvarnir.

Skýrsla ráðherra um jafnréttismál er birt á tveggja ára fresti í tengslum við jafnréttisþing sem skipulagt er í samstarfi forsætisráðuneytisins og Jafnréttisráðs og að þessu sinni með aðkomu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þingið fer fram undir yfirskriftinni Jafnrétti í breyttum heimi: Kyn, loftslag og framtíðin og hafa ríflega 300 manns skráð sig til þátttöku. Fjallað verður um samspil jafnréttis– og umhverfismála í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstaklega verður litið til framtíðaráskorana í tengslum við tæknibreytingar, loftslagsbreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti og velt upp hvaða áhrif þessir þættir kunna að hafa á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi. 

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á jafnréttisþing má nálgast á jafnretti2020.is

Skýrsla forsætisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2018 – 2019.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search