Níunda skýrsla Íslands um samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) var tekin fyrir á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær.
Í skýrslunni er fjallað um hvernig Ísland hefur uppfyllt skyldur sínar gagnvart samningnum og hvernig unnið hefur verið eftir þeim tilmælum sem kvennanefndin sendi eftir síðustu skýrslu. Síðasta úttekt Íslands var 2016.
Ísland gerðist aðili að Kvennasamningnum 1985 sem er ætlað að tryggja jafna stöðu kvenna á við karla á öllum sviðum samfélagsins. Í fyrirtökunni var því fjallað um ýmsar hliðar kynjajafnréttis á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda í því sambandi, til að mynda um fæðingar- og foreldraorlof, rétt kvenna til þungunarrofs, launamun kynjanna og kynbundið ofbeldi. Nefndin lagði sig sérstaklega eftir því að kanna hvernig íslensk stjórnvöld tryggðu réttindi jaðarsettra kvenna, til dæmis kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna og kvenna með vímuefnavanda.
Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri leiddi íslensku sendinefndina sem var skipuð fulltrúum frá skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu auk fulltrúa frá ráðuneytum dómsmála, utanríkismála og félags- og vinnumarkaðsmála.