Í dag tóku gildi tilslakanir á samkomutakmörkunum vegna Covid-19. Með þeim takmörkunum sem hafa gilt síðustu þrjár vikur tókst okkur að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar og það er mat sóttvarnalæknis að nú sé tímabært að ráðast í varfærnar tilslakanir. Eins og áður verðum við að gæta að okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum, þvo hendur vel, vernda okkar viðkvæmasta fólk og virða nálægðarmörk. Þessi atriði skipta öllu máli þegar kemur að baráttu okkar við Covid-19.
Reglurnar sem taka gildi í dag fela í sér að nú mega 20 koma saman og heimilt er að opna sundstaði og heilsurækt á ný með takmörkunum. Íþróttastarf og sviðslistir hefjast einnig á ný og skíðasvæðin geta opnað. Í skólum breytast nálægðarmörk á öllum skólastigum úr 2 metrum í 1 og leik- og grunnskólabörnum er nú heimilt að stunda skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
Þann 9. apríl tók gildi ný reglugerð um aðgerðir á landamærum. Samkvæmt henni eru skýrari kröfur gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur. Þeir sem ekki geta verið í heimasóttkví sem uppfyllir sett skilyrði þurfa að fara í sóttvarnahús en ekkert gjald er tekið fyrir dvölina. Meginmarkmiðið með þessum reglum er að lágmarka eins og kostur er líkur á því að smit berist inn í landið. Mikilvægt er að við virðum öll reglur um sóttkví og sýnatökur við komu til landsins svo við komum í veg fyrir að veiran berist hingað til lands að utan.
Það er mjög ánægjulegt að markmið okkar um bólusetningar á fyrsta ársfjórðungi náðust en við lok fyrsta ársfjórðungs ársins 2021 höfðu 49.300 einstaklingar verið bólusettir með fyrri eða báðum skömmtum bóluefnis. Við höfum nú þegar átt nokkra stóra bólusetningardaga nýverið. Í síðustu viku, þann 8. apríl, voru til dæmis um 6.630 einstaklingar bólusettir við Covid-19, þar af 2.330 með bóluefni Pfizer/BioNTech og 4.301 með bóluefni Oxford/AstraZeneca. Sá fjöldi nam tæplega 2,4% þeirra 280 þúsund einstaklinga sem til stendur að bólusetja við Covid-19. Samtals höfðu tæplega 24% þeirra sem fyrirhugað er að bólusetja fengið fyrri eða báða skammta bóluefnis gegn Covid-19 í gær. Það markmið okkar að ljúka bólusetningum hérlendis í lok júlí stendur enn, og ég er bjartsýn um að það takmark náist.
Baráttunni okkar við Covid-19 hefur oft verið líkt við fjallgöngu. Gangan er heldur löng og hún tekur á, og við höfum ekki enn náð toppnum. Við erum þó sannarlega á réttri leið og ég er viss um að við náum á toppinn saman áður en langt um líður. Við þurfum þó áfram að sýna þolinmæði og samstöðu, treysta hvert öðru og ráðleggingum okkar bestu sérfræðinga. Þannig náum við toppnum að endingu.