Search
Close this search box.

Sókn í heilbrigðismálum

Deildu 

Útgjöld til málefnasviða sem heyra undir heilbrigðisráðherra verða samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 tæpir 260 milljarðar króna og nemur aukningin frá fjárlögum þessa árs um átta prósentum eða um 20 milljörðum króna. Um er að ræða stóraukin framlög til þjónustu við aldraða, styrkingu heilsugæslunnar, aukna fjármuni til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu geðheilbrigðisþjónustu og aukið fé til að innleiða ný lyf.

Í samræmi við heilbrigðisstefnu til 2030 verður haldið áfram að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu og eru 200 milljónir króna merktar því verkefni. Þá verður aukið við fé til að vinna að uppbyggingu geðheilsuteyma um allt land og framlag til þess aukið úr 650 milljónum á þessu ári í 750 milljónir. Þá verður þjónusta heilsugæslunnar við aldraða aukin, m.a. með innleiðingu á heilsueflandi heimsóknum og munu 200 milljónir renna til þess verkefnis. Þá verða framlög til að bæta heilbrigðisþjónustu við fanga hækkuð um tæpar 90 milljónir króna á næsta ári. Þá mun reglubundin bólusetning barna við hlaupabólu hefjast á næsta ári og renna til þess um 40 milljónir króna.

Í samræmi við áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að auka framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma um 1,8 milljarð króna á næsta ári og nema aukin framlög til reksturs hjúkrunarrýma sem leiðir af fjölgun þeirra tæpum 1,9 milljörðum króna. Uppbyggingu hjúkrunarrýma verður haldið áfram í samræmi við framkvæmdaáætlun.

 Áhersla verður lögð á að fjölga sérhæfðum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun og áformað er að koma á fót sveigjanlegri dagdvöl fyrir aldraða líkt og opnuð var á Akureyri á þessu ári. Uppbygging Landspítala verður áfram í forgangi og renna samtals um 8,5 milljarðar króna til verkefnisins á komandi ári. Uppsteypa meðferðarkjarnans hefst og unnið verður að fullnaðarhönnun rannsóknahússins. Í undirbúningi er að flýta uppbyggingu dag- og göngudeildarhúss við Hringbraut í samræmi við áherslur í heilbrigðisstefnu.  

Til að tryggja jafnt aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu er lykilþáttur að greiðsluþáttöku sjúklinga sé stillt í hóf. Hún þarf að verða áþekk því sem lægst gerist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, eða á bilinu 15 – 16%. Við stígum skref í þessa átt með viðbótarframlagi upp á 300 milljónir á næsta ári og höldum svo áfram af krafti með 800 milljóna króna viðbótarframlagi ár hvert næstu fjögur ár samkvæmt fjármálaáætlun.

Verkefnin framundan eiga það sameiginlegt að vera til þess fallin að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins, efla gæði og jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search