Fyrir níu dögum skipaði ég þriggja manna spretthóp til þess að fara yfir og gera tillögur að aðgerðum til þess að mæta alvarlegri stöðu í landbúnaði. Ljóst var orðið að grípa þurfti til ráðstafana til þess að treysta fæðuöryggi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að innrás Rússa í Úkraínu hefur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir aðfangakeðju landbúnaðar á heimsvísu og þar með hér á landi. Þetta er vel dregið saman í skýrslu spretthópsins.
Hópurinn vann afar hratt og vel og á heiður skilinn fyrir að geta tekist á við verkefni af þessari stærðargráðu innan þessa þrönga tímaramma. Þá fjallar hópurinn vel um þá ólíku stöðu sem er uppi í landbúnaði, þar sem sérstaklega sauðfjárræktin er í veikri stöðu, vegna viðvarandi lágs afurðaverðs í kjölfar verðhruns áranna 2016 og 2017. Tillögurnar voru að styðja bæri landbúnað sérstaklega með 2,5 milljarða framlagi en einnig er fjallað um umbætur til lengri tíma. Langtímamarkmiðið er að treysta fæðuöryggi á Íslandi og að stuðla að hagræðingu. Ég gerði tillögur hópsins að mínum en þær voru svo samþykktar í ríkisstjórn. Ég stend með bændum í þeim þrengingum sem nú ber að garði.
Berskjaldaður landbúnaður
Það er ærið umhugsunarefni að íslenskur landbúnaður sé eins útsettur og raun ber vitni fyrir sviptivindum á alþjóðavísu. Við erum ekki ein um það að hugsa fæðuöryggismál í nýju samhengi, það gera allar þjóðir nú. Innrás Rússlands hefur haft þau áhrif að verð á ýmsum aðföngum hefur hækkað mikið og ólíklegt þykir að þær hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum. Þar er um að ræða kornvöru, orkuverð og líklegt má telja að áburðarverð haldist áfram hátt. Þá verður líklegabið á því að landbúnaðarframleiðsla í Úkraínu verði með eðlilegum hætti. Því þurfum við núna að byrja að hugsa um næsta ár og hvernig við getum eflt innlenda framleiðslu á korni, hvernig við getum nýtt lífrænan áburð betur og bætt fæðuöryggi með öllum ráðum.
Markmið og leiðir
Oft er talað um að gott sé að ljúka spretti á feti en margt þarf að hugleiða þegar farið er niður á fetið. Það var ákvörðun í sjálfu sér að byggja upp innlendan landbúnað á þann hátt að við gerðum ráð fyrir hnökralausu aðgengi að kornvöru. Auðvelt er að vera vitur eftir á en það má með sanni segja að við hefðum betur byrjað fyrr á að ræða, af fullri alvöru, fæðuöryggi og hvernig við treystum það. En við þekkjum það úr íslenskri sögu að stundum þarf krísur til þess að hrinda af stað umbótum. Að þessu verður unnið í matvælaráðuneytinu.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra