Search
Close this search box.

Staðreyndir um orkumál

Deildu 

Ágústa Ágústs skrifaði í Austurfrétt á dögunum um margt ágæta grein um orkumál þar sem megininntakið var vangaveltur um vegferð stjórnvalda í þeim málaflokki. Hún hins vegar fer ekki alveg rétt með staðreyndir og er mér bæði ljúft og skylt að leiðrétta nokkrar rangfærslur.

Ágústa lítur svo á að hugmyndin um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 sé fjarri því að vera möguleg og bendir á í því samhengi að vinstri vængur ríkisstjórnarinnar hafi verið ötull að koma í veg fyrir nýtingu orkugjafa náttúrunnar, bæði fallvatnsorku og jarðvarma. Það er ekki rétt.

Rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða, þ.e.a.s. sú áætlun stjórnvalda sem segir til um hvaða virkjunarhugmyndir megi skoða frekar og hvaða hugmyndir ekki og þá vernda svæðið gegn orkuvinnslu, er mikilvægt stjórntæki í bæði náttúruvernd og orkumálum. Fyrsta rammaáætlunin var samþykkt á Alþingi í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar árið 2013 og sú næsta í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er þvi svo að Vinstri græn hafa setið í báðum þeim ríkisstjórnum sem hingað til hafa samþykkt rammaáætlun á Alþingi, og eru eini stjórnmálaflokkurinn á þingi sem svo háttar til um. Þá er rétt að minna á að umhverfis- og auðlindaráðherra Vinstri grænna lagði á Alþingi vorið 2021 fram frumvarp og þingsályktunartillögu um vindorku, sem ekki náði fram að ganga. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lét því ekki sitt eftir liggja í tillögum um það hvernig nálgast skyldi mögulega hagnýtingu vindsins til orkuframleiðslu hérlendis og verður trauðla kennt um að hafa tafið framgöngu vindorkumála meðan ráðherra hreyfingarinnar stýrði umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það er því ekki rétt að Vinstri græn standi í veginum fyrir frekari orkuöflun.

Þá heldur Ágústa því fram að forsætisráðherra hafi lýst því yfir að hún vilji frekar sjá álveri lokað til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi en að virkja meira. Það er heldur ekki rétt. Forsætisráðherra hefur einmitt sagt opinberlega, til dæmis i viðtali við fréttastofu RÚV 29. desember sl. að hún geri sér fyllilega ljóst að til að ná orkuskiptum þurfi að virkja meira en að það skipti máli hvernig og hvar það er gert og að það hljóti alltaf að eiga að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Lykilatriðið sé skynsamleg nýting og forgangsröðun orku til heimila og smærri fyrirtækja sem er frumforsenda þess að byggðarlög leggist ekki í eyði eins og Ágústa óttast.

Hvað varðar kolefnishlutlaust Ísland 2040 þá er það ekki fallegur draumur eins og Ágústa segir heldur dauðans alvara, og ekki bara fyrir Ísland heldur heimsbyggðina alla. Það er mikilvægt að öll leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr loftslagsbreytingum og kolefnishlutleysi er sannarlega eitt þeirra, í landi þar sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að grænni orku.

Ég vil að lokum taka undir orð Ágústu í lok greinarinnar þar sem hún segir: „Þegar svo kemur að innlendum orkugjöfum er gríðarlega mikilvægt að sú dýrmæta auðlind sem við búum yfir sé alfarið í eigu ríkis og þjóðar hvernig svo sem hennar er aflað. Án undantekninga.“ Þar erum við innilega sammála.

Jódís Skúladóttir

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search