Search
Close this search box.

Stærsta verkefnið

Deildu 

Í upphafi vikunnar bárust þær ánægjulegu fréttir frá Umhverfisstofnun að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hefði dregist saman um 2% milli 2018 og 2019 sem er mesti samdráttur milli ára frá 2012. Þróun í bindingu í skóglendi er líka mjög jákvæð en hún jókst um 10,7% frá 2018 til 2019 og hefur nú náð sögulegu hámarki frá 1990.

Þessar tölur hvetja okkur til frekari dáða í loftslagmálum. Þó að við höfum hugsað um fátt annað en kórónuveiruna undanfarin misseri þá er loftslagsváin enn okkar stærsta áskorun og brýnt að halda áfram á sömu braut. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru loftslagsmálin í algjörum forgangi. Fyrsta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var lögð fram 2018 og uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld lögðu fram í fyrra varðar leiðina að frekari árangri. Í henni eru settar fram fjölmargar aðgerðir á öllum sviðum sem í fyrsta sinn eru metnar með tilliti til árangurs. Þá hefur aldrei verið veitt meira fjármagni til málaflokksins en á þessu kjörtímabili. Og til að mæta nýjum og metnaðarfyllri skuldbindingum okkar í loftslagsmálum sem kynntar voru í desember síðastliðnum bættum við enn frekar í aðgerðir og fjármagn til málaflokksins í nýrri fjármálaáætlun sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Nýjar aðferðir í bindingu

Í vikunni heimsóttu ráðherrar í ríkisstjórninni Carbfix sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Carbfix byggist á íslensku hugviti sem gengur út á að fanga koldíoxíð og aðrar vatnsleysanlegar gastegundir eins og brennisteinsvetni úr útblæstri og binda í steindir í bergi á umhverfisvænan hátt. Aðferðafræðin er einstök á heimsvísu og getur orðið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni. Munurinn á þessari aðferð og því að geyma koldíoxíð í stórum gasgeymum – sem margar þjóðir gera nú tilraunir með – er sá að með henni er koldíoxíðinu fargað varanlega á mun öruggari hátt með því að umbreyta því í berg. Þetta er í raun náttúrulegt ferli sem einfaldlega er flýtt með aðstoð tækninnar. Við hlið Carbfix á Hellisheiði hefur svo svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climeworks hafið uppbyggingu á nýrri verksmiðju sem byggir á þeirri tækni að fanga kolefni beint úr andrúmsloftinu. Það nýtir sér svo íslenska hugvitið hjá Carbfix til að farga kolefninu með því að binda það í basaltberg.

Þessi merkilega nýsköpun er viðbót við aðrar aðferðir sem við Íslendingar höfum beitt til að binda kolefni en við höfum staðið framarlega í náttúrulegum lausnum til kolefnisbindingar eins og landgræðslu og skógrækt og höfum verið óþreytandi við að tala fyrir þeim á alþjóðavettvangi.

Samstarf stjórnmála og vísinda

Kolefnisbinding ásamt samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda mun verða lífsnauðsynleg til að sporna gegn loftslagsbreytingum á næstu áratugum. Við höfum sýnt það í þessum heimsfaraldri að mannkynið er fullfært um að ná ótrúlegum árangri þegar hætta steðjar að. Við þurfum að ná sama árangri gegn loftslagsvánni og læra af því sem við höfum gert í faraldrinum – vísindamenn, fagfólk, stjórnmálamenn, atvinnulíf og almenningur – við þurfum öll að vinna saman til að ná markmiðum okkar og tryggja öruggan, sjálfbæran heim fyrir komandi kynslóðir.

Loftslagsmálin voru eitt af stóru málunum í stefnuskrá Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar. Þau munu áfram verða það og ég er sannfærð um að sú stefna sem nú hefur verið mörkuð og þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, byggi mikilvægan grunn að árangri Íslands í loftslagsmálum. Verkefnið er hins vegar gríðarstórt og meira mun þurfa til – en ef við höldum áfram á sömu braut mun það skila frekari árangri og Ísland leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni – stærsta verkefni samtímans.

Katrín Jakobsdóttir, er forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search