Search
Close this search box.

Starfshópur vinnur að því að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk

Deildu 

Starfshópur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk hefur hafið störf og gert er ráð fyrir að hann skili tillögum í vor. Hópurinn hittist í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu nú í morgun og er ætlað að greina núverandi starfs- og menntunartækifæri fatlaðs fólks með tilliti til þess hvað þurfi að bæta, auk þess að koma með tillögur að aðgerðum.

Sara Dögg Svanhildardóttir er formaður starfshópsins en hún er einnig verkefnastjóri við samhæfingu námsframboðs og atvinnutækifæra hjá Landssamtökunum Þroskahjálp. Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneyta og stofnana sem að málaflokknum koma, auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum aðila vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum.

Tillögum hópsins er ætlað að falla að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um menntun og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Markmiðið er að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Helstu verkefni hópsins eru:

– Að kortleggja aðgengi fullorðins fatlaðs fólks að námi, þjálfun og stuðningsúrræðum innan skóla og stofnana, hjá fræðsluaðilum og í atvinnulífi.

– Að útbúa yfirlit yfir fjölbreytileika námstilboða og hvort og hvernig auka megi stíganda og samfellu í námi. 

– Að taka saman upplýsingar um fjármögnun náms- og stuðningsúrræða fyrir fatlað fólk og meta hvort betri yfirsýn megi fá yfir greiðsluþátttöku eða kostnaðarfyrirkomulag.

– Að koma með tillögur að þróun náms- og stuðningsúrræða fyrir fatlað fólk, meðal annars út frá stafrænum lausnum, nýrri þekkingu eða aðferðum sem auðvelda framkvæmd náms án aðgreiningar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search