Search
Close this search box.

Stefna í málefnum heilabilaðra

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra hefur falið Jóni Snædal öldrunarlækni að móta drög að stefnu í málefnum fólks með heilabilun. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á þverfaglegt samstarf þjónustuveitenda og á samráð við sjúklingahópinn og aðstandendur fólks með heilabilun.

Svandís hefur ákveðið að heilbrigðisþjónusta við aldraða verði eitt af þeim málefnum sem hún muni í störfum sínum sem heilbrigðisráðherra leggja á sérstaka áherslu á þessu ári. Í þeirri vinnu verði áhersla lögð á heildarmyndina og það sem snýr að öldruðum sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, hvort heldur er á fyrsta, öðru eða þriðja þjónustustigi þess. Fyrir helgi átti ráðherra fund með sérfræðingum á sviði öldrunarlækninga á Landspítalanum og fleiri fundir eru áformaðir þar sem ráðherra mun m.a. kynna sér sjónarmið fagfólks sem starfar á sviði forvarna og endurhæfingar auk notenda þjónustunnar. Þessi vinna er meðal annars ætluð sem liður í undirbúningi aðgerðaáætlunar til fimm ára á grundvelli heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Þjónusta við fólk með heilabilun er mikilvægur og vaxandi þáttur innan heilbrigðiskerfisins og lengi hefur verið kallað eftir því að mótuð verði heildstæð stefna um þjónustu við þennan sjúklingahóps sem fer stækkandi eftir því sem þjóðin eldist. Þá liggur fyrir ályktun Alþingis frá því í maí árið 2017  þar sem heilbrigðisráðherra var falið að ráðast í slíka stefnumótun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það orðið aðkallandi að draga upp skýra stefnu um heilbrigðisþjónustu við fólk með heilabilun. Teikna þurfi upp hvernig núgildandi þjónustukerfi virkar, hverjar séu helstu brotalamirnar, hvaða breytingar þurfi að gera og hvernig megi stuðla að nýjungum til að bæta þjónustuna. Það sé fyrir hendi mikil þekking, en það þurfi að draga hana saman og setja fram sem stefnu með heildarsýn til lengri tíma litið: „Í stað þess að skipa nefnd eða starfshóp til að vinna þetta verk, ákvað ég að fela það einum manni. Jón Snædal öldrunarlæknir verður nokkurs konar ritstjóri stefnumótunarinnar í krafti þekkingar sinnar og reynslu og ég treysti honum til að leita fanga á breiðu sviði hjá fagfólki sem vel þekkir til og einnig að taka inn í þessa vinnu reynslu og þekkingu sjúklinganna sjálfra en ekki síður aðstandenda fólks með heilabilun.“

Þegar drög að stefnum í málefnum heilabilaðra liggja fyrir verða þau birt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Stefnt er að því að það verði í byrjun júní næstkomandi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search