Í síðustu viku var úthlutað styrkjum úr Rannsóknasjóði fyrir árið 2021. Aldrei hafa fleiri verkefni fengið styrk og aldrei hefur hærri upphæð verið úthlutað. Rannsóknasjóður hefur 3,7 milljarða til ráðstöfunar á þessu ári en framlög til hans hafa verið aukin markvisst á þessu kjörtímabili og hafa eins og áður segir aldrei verið hærri.
En peningarnir segja ekki alla sögu. Með aukningunni hefur hlutfall þeirra verkefna sem fá styrk farið upp í 20% sem sýnir hvað eftirspurnin er mikil. Það er vísbending um vaxandi grósku í grunnrannsóknum á Íslandi sem mikilvægt er að hlúa vel að. Fjárfesting í rannsóknum er nefnilega fjárfesting í þekkingu sem skilar sér í auknum lífsgæðum og fjölbreyttara atvinnu- og efnahagslífi. Fyrir utan þá staðreynd að þekkingarleitin er mikilvæg sjálfrar sín vegna.
Þar með er ekki öll sagan sögð. Á kjörtímabilinu hafa opinber framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um meira en 70%. Árið 2020 jókst svo fjárfesting einkaaðila, bæði innlendra og erlendra, í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum verulega og nam hún alls 17 milljörðum sem er hærri upphæð en fjárfest var fyrir 2019 þó að um færri fjárfestingar hafi verið að ræða.
Þetta er jákvæð vísbending um að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur tekið og breytingar sem gerðar hafa verið til að bregðast við veikleikum í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi séu að skila sér. Vandi okkar var að þrátt fyrir öflugt stuðningskerfi við sprota og fyrirtæki á upphafsmetrunum stóðu fyrirtæki frammi fyrir því að þegar ákveðnu stigi á vaxtarskeiðinu var náð áttu þau í erfiðleikum með að fjármagna sig á Íslandi. Þetta er því verulegt fagnaðarefni.
Við höfum lagt mikla áherslu á að styrkja og efla umhverfi grunnrannsókna og nýsköpunar með fjármagni og aðgerðum. Við sjáum þessa stefnu þegar skila sér og hún mun skila samfélaginu enn meiri verðmætum til framtíðar. Á þessari braut viljum við halda áfram; með skýra stefnu að leiðarljósi og alvöru aðgerðir sem skila árangri.